Það er yfirleitt einfalt að elda lambalæri, en þessi aðferð er meðal þeirra allra einföldustu og fljótlegustu. Þetta er Lambalæri á franska vísu úr bókinni Af bestu lyst, sem kom úr árið 1994. Vaka-Helgafell gaf bókina út í samvinnu við Hjartavernd, Krabbameinsfélagið og Manneldisráð og uppskriftirnar í bókinni eru fjölbreyttar hollar, fitusnauðar og verulega lystugar. En lítum á hvað þarf í réttinn.
1 lambalæri
4 hvítlauksrif
2 msk. ólífuolía
1 tsk rósmarín
salt og pipar
12 meðalstórar kartöflur
8 gulrætur
4 laukar
1 msk. ólífuolía.
Aðferð:
- Snyrtið lærið
- Sneiðið hvítlaukinn í litla báta, skerið litlar raufar í kjötið beggja vegna á lærinu og stingið hvítlauknum í raufarnar.
- Penslið kjötið með einni matskeið af olíu, rósmaríni, salti og pipar.
- Setjið lærið í stóran ofnfastan steikarpott með loki og steikið við 180°C í 30 mínútur.
- Skerið kartöflur til helminga eða í stóra báta, gulrætur í lengjur og lauka í báta. Veltið grænmetinu upp úr einni matskeið af olíu með salti og pipar og látið kartöflur og grænmeti umhverfis kjötið í pottinum.
- Steikið í eina klukkustund til viðbótar eða þangað til rétturinn er hæfilega steiktur.
- Þeir sem vilja skorpu á grænmetið og kjötið geta tekið lokið af síðustu mínúturnar og stillt á glóðarsteikingu
Uppskriftin er fyrir sex og í hverjum skammti eru 551 hitaeiningar, 7 grömm mettuð fita og 13 grömm ómettuð fita, segir í bókinni. Undirbúningur er 15 mínútur en suðutími 1,5 klukkustundir. Þetta er sérstaklega hollur réttur og einfalt að búa hann til. Allt hráefnið fer í einn pott. Það er gott að hafa með franska lærinu gróft brauð og rauðvínsdreitil ef menn nota áfengi.