40 geira kjúklingur og berjaeftirréttur

Kjúklingaréttur með 40 hvítlauksgeirum hljómar eins og eitthvað frá helvíti í eyrum margra. Ef allur þessi hvítlaukur væri pressaður eða saxaður og eldaður þannig með kjúklingnum væri rétturinn líklega óætur. Galdurinn er að hafa rifin heil í hýðinu og baka þau með kjúklingnum. Þá verða þau að dásamlegu mauki sem frábært er að kreista yfir kjúklinginn og/eða meðlætið. Þessi réttur er klassískur og á líklega uppruna sinn í Frakklandi. Hann hefur farið víða og kemur fram í matreiðslubókum um allan heim. Hann stingur kollinum reglulega upp hér á landi og er einn af þessum réttum sem fólk fær æði fyrir en hvílir svo á milli. Og nú er kominn tími til að rifja hann upp og óhætt er að mæla með því rétturinn er unaðslegur.

Hvítlaukssítrónukjúklingur

Fyrir 4 – 6

1 heill kjúklingur, um 1,1/2 kg

pipar og salt

20-30 g smjör

2 sítrónur, skornar í báta eða sneiðar

40 hvítlauksrif

3 rósmaríngreinar

svolítil ólífuolía

Hitið ofninn í 120°C. Afar ljúffengt að losa um haminn og setja smjörklípur undir hann en það þarf ekki. Sítrónan er sett innan í kjúklinginn og allt í kringum hann í ofnskúffunni eða eldfasta fatinu. Síðan er hvítlauksgeirunum líka raðað í kringum kjúklingin. Einnig má skera hvítlaukinn í tvennt og leggja helmingana með kjúklingnum. Þetta er látið steikjast í 30 mínútur í ofninum, fatið tekið út og ausið úr ofnskúffunni yfir hann. Rósmaríngreinarnar settar með í fatið. Síðan er kjúklingurinn settur aftur í ofninn og steiktur í 30 mín. til viðbótar. Þá er rétturinn tekinn út og látinn standa í 15 mínútur á meðan sósan er útbúin.

Sósan:

soðið úr ofnskúffunni

100 ml vatn

1 tsk. kjúklingakraftur eða -teningur

100 ml matreiðslurjómi

sósujafnari

Hellið úr ofnskúffunni eða eldfasta fatinu og síið í pott. Gott er að skafa úr botninum til að fá meira bragð. Bætið vatni og kjúklingakrafti saman við og hitið að suðu. Látið malla smá stund. Sósuna má alveg bera fram sem soð og sleppa rjómanum ef vill en honum er bætt við á þessu stigi og e.t.v. 1 msk. af koníaki saman við. Saltið og piprið eftir smekk. Berið fram t.d. með steiktum kartöflum og rótargænmeti sem hvítlauksmaukinu úr nokkrum rifjum hefur verið dreift yfir og sett undir grillið í smá stund.

Matur, uppskfirtir, eftirréttir

Tiramisu með bláberjum

Tiramisu með bláberjum fyrir 6

Berjatíminn er nú í algleymingi og margir búnir að safna mörgum kílóum af berjum sem notuð eru í bústdrykki, sultur eða saft. En auðvitað er líka gaman að tína ber til að borða með rjóma eða nota starx í eftirrétti. Góðar hugmyndir að notkunarmöguleikum eru alltaf vel þegnar og hér er ein að eftirrétti og hún er guðdómlega gómsæt. Sykurmagnið hefur verið minnkað og bláberin eru í ofurfæðiflokknum svo vel er hægt að ímynda sér að þessi eftirréttur sé meinhollur.

400 g bláber 1/2 dl sykur

2 eggjarauður 6 msk. berjasafi eða líkjör eins og Grand Marnier, Limoncello eða Cointreau 1 msk. sykur 8 Lady Finger kökur 1 dós Mascarpone ostur saxaðar hnetur, eftir smekk, t.d. pistasíuhnetur

Setjið bláber í pott ásamt sykri og 2 msk. af berjasafa eða líkjör. Látið malla þar til sykurinn er uppleystur. Gætið þess að mauka ekki berin, og kælið svo.

Hrærið saman eggjarauður og sykur þar til blandan er létt og ljós. Hrærið Mascarponeosti og 2 msk. af berjasafa eða líkjör saman við.

Bleytið Lady Finger kökurnar upp úr 2 msk.af safa eða líkjör og setjið í 6 glös.

Setjið helminginn af bláberjunum ofan á Lady Finger kökurnar og síðan helminginn af Mascarponehrærunni. Endurtakið síðan einu sinni. Skreytið með hnetum að vild. Tilvalið er að útbúa eftirréttinn með fyrirvara og geyma í kæli þar til hann er borinn fram.

Ritstjórn september 15, 2017 11:49