Hvenær eiga konur að hætta að ganga í stuttum pilsum er spurning sem margar konur velta fyrir sér. Rúmlega sextug í stuttu, er það um of? Á kona á þeim aldri eingöngu að ganga í pilsum sem ná vel niður fyrir hné?
Olga Soffía Einarsdóttur, stílisti segir að það sé ekkert einhlítt svar við þessu.
Flöggum fögrum fótleggjum
„Ef kona er með fallega fótleggi, sama á hvaða aldri hún er, hvers vegna ætti hún þá að fela það,“ segir Olga Soffía en bætir við að þumalfingursreglan sé þó að pilsfaldurinn síkki í takt við hækkandi aldur.
Aðalatriðið sé þó að fólki líði vel í þeim fötum sem það velji sér og að fötin endurspegli persónuleikann. „Ef konum líður vel í stuttu pilsi og stutt pils klæða þær eiga þær ekki að hika við að ganga í þeim. Ef þær hafa hins vegar einhverjar efasemdir ættu þær að prófa að máta kjóla og pils sem eru í annari sídd,“ segir Olga Soffía.
Vöxturinn breytist með aldrinum
Margar konur breytast í vexti í kringum breytingaskeiðið og þá þarf oft að huga að því hvort að ekki sé komin tími til að prófa ný snið og leggja áherslu á nýja líkamsparta.
„Mér finnst það einkennandi fyrir íslenskar konur hvað þær eru sjálfstæðar í fatavali. Þær fylgja tískunni ekki í blindni heldur velja það sem þeim finnst henta,“ segir Olga Soffía.