Tengdar greinar

Leið 14 er minn einkabíll

Þórný gerir handavinnu þegar hún hlustar á vefvarpið sitt.

Þórný Þórarinsdóttir er 89 ára gömul og áður en samkomubönnin tóku gildi sást hún gjarnan í strætó með pönnukökur í töskunni. Hún var að færa þær vinum sínum sem áttu ekki heimangengt, voru á Grund eða öðrum öldrunarstofnunum. Hún segir hlæjandi að strætó númer 14 sé einkabíllinn sinn.

Heimsækir fólk sem kemst ekki leiðar sinnar

Nú í covid ástandinu má Þórný ekki fara inn á stofnanirnar en ein þessara vinkvenna hennar flutti á Grund daginn eftir 101 árs afmælið 17. ágúst síðastliðinn. Þær kynntust fyrir 10 árum í gegnum sjónskerðingu beggja því þær eru lögblindar. Sjónskertir eiga rétt á styrk til þess að komast á milli staða og geta pantað leigubíl á Hreyfli og það kostar eins og að fara í strætó. Þórný er með kort sem hún notar en á því er ekki mynd. Reikningurinn fer síðan rafrænt upp á Blindraskriftstofu. Þegar hún fékk fyrsta reikninginn kom í ljós að mistök höfðu verið gerð og félagið hafði ruglað saman tveimur kortum. Hún hafði því verið að nota kort sem var merkt Jóhanna Hjaltadóttir. “Þegar ég heyrði hvar Jóhanna átti heima og að hún er 12 árum eldri en ég bauðst ég til að fara til hennar og skipta á kortum við hana. Ég hef síðan alltaf farið til hennar þegar ég er búin í vatnsleikfiminni á Grensás á þriðjudögum því stutt er þaðan á Hæðargarð 24 þar sem hún bjó og þar sem beið mín kaffi og skemmtilegt spjall.  Nú má ég ekki hitta hana í bili vegna covid en tala við hana í síma tvisvar í viku. “Svo heimsæki ég alltaf vinkonu mína sem er á Hrafnistu. Hún er yngri en ég en var svo óheppin að fá áfall þannig að hún getur ekki talað og er lömuð hægra megin. Hún gleðst mjög þegar dóttir hennar færir henni pönnukökur frá mér því nú má ég ekki heimsækja hana.”

Þórný nýtir tæknina 

Vefvarp Þórnýjar.

Þórný notar tölvu og fylgist með helstu viðburðum. Hún getur lesið blöðin þar og þar sér hún dánartilkynningar jafnaldra sinna. Hún segir að því miður séu allt of margir  jafnaldrar hennar ýmist látnir eða komnir á heimili fyrir eldri borgara. Þórný nýtur þess að fara til vina sinna sem hún veit að komast ekki leiðar sinnar. “Ég heimsæki bara fólk sem er ekki lengur ferðafrjálst því það eru sannarlega þeir sem njóta þess að fá mann í heimsókn og maður er ekki að trufla. Ég nýt þess ríkulega sjálf og sakna þess mjög að geta ekki hitt þessa vini mina vegna samkomubannsins. Það fer nú vonandi að lagast því bóluefnið er í augsýn,” segir Þórný bjartsýn.

Þórný notar líka tæki sem hún kallar vefvarp en þar getur hún hlustað á texta úr blöðunum ef hún vill og líka á hljóðbækur. Þetta nýtir hún sér allt mjög vel.

Þegar Þórný er spurð hvort hún sé ekki með þjónustu frá borginni segir hún að hún velji að þrífa hjá sér sjálf. Hún sé nú ekki einu sinni með gigt svo heimilisþrifin séu hin besta heilsurækt

Fyndið að vera á níræðisaldri, hvað þá tíræðis

Þegar Þórný áttaði sig á því að hún væri komin á níræðisaldur fyrir tíu árum segist hún hafa fengið hláturskast. Nú eru aðeins örfáir mánuðir þar til hún verður komin á tíræðisaldur og enn er Þórný hlæjandi.

Þórný er fædd að Ingunnarstöðum í Kjós þar sem faðir hennar fékk kennarastöðu. Þar fengu þau leigt eitt herbergi hjá Lúther, syni Lárusar G. Lúðvíkssonar skókaupmanns. Hann byggði tveggja hæða steinsteypt hús með tveimur burstum og við fengum leigt í annarri burstinni. Þetta hús var notað í einum þætti í “Ófærð”.

Foreldrar Þórnýjar kynntust í Kennaraskólanum þar sem þau voru bæði við nám. Fjölskylda móður hennar gat ekki styrkt hana til að ljúka náminu en faðir hennar náði að klára. Móðir hennar fór þá heim í Skagafjörðinn og þegar faðir hennar hafði lokið kennaraprófinu vorið 1930 fór hann til Sauðárkróks og þar giftu þau sig og Þórný fæddist í mars 1931. Foreldrar hannar voru þá bjartsýnt ungt fólk, hann með kennarapróf og þeim þótti sjálfsagt að flytjast til Reykjavíkur og hefja búskap í litlu herbergi sem þau fengu leigt.

Þótti sjálfsagt að pabbi tæki við föður sínum farlama

“Faðir minn var langyngstur sinna systkina og þarna höfðu þau samand við hann og honum var tilkynnt að nú væri kominn tími til að hann tæki við föður þeirra sem þá var orðnn örvasa gamalmenni. Þarna vorum við því fjögur í litlu herbergi.”

Á þessum tíma var Austurbæjarskóli orðinn til og gamli Miðbæjarskólinn líka. Faðir Þórnýjar sótti um kennarastöðu þar en fékk enga. “Pabbi fékk bara forfallakennslu en það var mjög lítið um slíkt því fólk tók almennt ekki  frí vegna veikinda. Nú heyri ég af fólki sem tekur veikindadaga þótt það sé ekki veikt sem mér þykir skammarlegt. Þá var nú ekki um neina kulnun að ræða eins og nú.  En þá þurfti pabbi að leita annað og sótti um vinnu niðri á bryggju í uppskipun eða bara hvað sem gafst.”

Sér mest eftir að hafa ekki spurt foreldra sína meira

Þórný segir að ein stærsta eftirsjáin frá því hún var barn sé að hafa ekki spurt foreldra sína meira um lífið áður en hún fór að muna sjálf. “Mamma sagði mér að á þessum tíma hafi þau getað keypt 1 lítra af mjólk á dag og skiptu honum á milli mín og afa. Þau héldu lífi en spöruðu eins og þau gátu. Þau borðuðu hafragrautinn sjálf mjólkurlausan. Eftir heilan vetur af þessu og engin kennarastaða losnaði sáu þau að það þýddi ekki að vera í Reykjavík ef þau ætluðu að halda lífi. Þá var farið að athuga hvar væri laus kennarastaða og það var þá í Aðalvík á Hornströndum en þangað gat afi ekki farið með okkur. Þar voru tvö þorp, Sæból og Látrar og þar fékk pabbi stöðu. Við fengum lítinn skúr alveg niður við sjóinn á Látrum og þetta var sko fyrir opnu hafi. Pabbi kenndi tvær vikur á Sæbóli og tvær á Látrum svo við mamma vorum reglulega tvær einar í skúrnum. Þarna var ég bara á öðru ári en mamma sagði mér frá því að þau hafi verið vöruð við því að það gæti komið fyrir í stórstreymi að sjór flæddi í kringum skúrinn. Þá átti hún að hafa hamar tiltækan og brjóta glugga á bakhliðinni og koma sér út með mig. Það kom sem betur fer ekki til þess. Eftir fyrsta árið var byggður skóli á Sæbóli og við fluttum þangað og þá var annar kennari ráðinn á Látrum. Eftir það var pabbi alltaf heima og við komum okkur fyrir í einu herbergi inn af skólastofunni. Siglt var hálfsmánaðarlega eftir vistum og pósti inn á Ísafjörð og í einni ferðinni var farið með mig á sjúkrahúsið af því ég var veik en þá var ég fjögurra ára. Mamma og pabbi urðu eftir að Látrum af því þau höfðu skyldum að gegna. Í ljós kom að ég var með berkla og þurfti að vera á sjúkrahúsinu í sex vikur. Þau fengu síðan frettir af mér á hálfsmáðarfresti, þ.e. hvort ég væri lifandi eða dáin. Svo var ég loks útskrifuð og ég gleymi því ekki að læknirinn og hjúkrunarkonan gáfu mér bók að skilnaði. Bókin hét Andri á vetrarferðalagi en þá hef ég líklega verið orðin læs því ég var alltaf í skólastofunni þar sem kennslan fór fram.

Það fór ágætlega um okkur þrjú í litla herberginu en þegar systir mín fæddist, þegar ég var sex ára, þurfti ég að sofa fyrir framan dyrnar því það var ekki pláss nema fyrir þrjá í herberginu. Ég svaf því eftir það í skólastofunni en þau höfðu alltaf opnar dyrnar inn til sín af því ég var svo myrkfælin. En svo voru böllin haldin í þessari stofu, sem okkur fannst vera eins og salur. Og stundum kom fólkið með börnin sín á böllin og þau voru látin sofa í hjónarúmi mömmu og pabba,” segir Þórný brosandi því eftir þessum tíma er hún farin að muna og minningarnar margar skemmtilegar.

Fluttu til Akraness

Þórný með börnin sín fimm.

Þegar Þórný var átta ára og systir hennar tæplega tveggja ára losnaði kennarastaða á Akranesi og faðir hennar sótti um og fékk. Þá fluttu þau suður og leigðu eitt herbergi með aðgang að eldhúsi. Og þar voru þau þegar landið var hernumið. Faðir hennar kenndi í tvo vetur á Akranesi en sumarið 1941 fóru foreldrar hennar í kaupavinnu að Kalastaðakoti á Hvalfjarðarströnd þar sem þriðja systirin fæddist 4. júlí. Þegar leið að hausti og faðir hennar ætlaði að fara að kenna sínum bekk kom í ljós að skólastýran hafði látið son vinafólks í Reykjavík fá stöðuna. Foreldrar nemendanna sem hann hafði kennt söfnuðu undirskriftum þess efnis að þau vildu hafa hann áfram, en allt kom fyrir ekki. “Seinna var mér sagt að ef pabbi  hefði verið búinn að útvega sér skipunarbréf hefði skólastýran ekki getað gert þetta. En hann var alltaf að kenna á veturna og vinna við annað á sumrin og hafði ekki haft hugmynd um að svona nokkuð gæti gerst.”

Eina lausa staðan á Flatey á Skjálfanda

Þarna var staða þeirra þannig að faðir hennar þurfti að taka það sem bauðst og nú var það í Flatey á Skjálfanda. “Þarna vorum við komin í svipaða stöðu og við vorum í Aðalvíkinni. Foreldrar mínir komu til Flateyjar með þrjú börn og pabbi  fékk kennarastarfið í nýbyggðum skólanum.”

Þar fengu þau að vera í herbergi inn af skólaganginum. Faðir hennar setti þá þil á miðjan skólaganginn svo að mamma fengi ekki nemendur ofan í pottinn sem hún eldaði matinn í á olíuvélinni.  “Ég verð að viðurkenna að ég hneykslast oft á því þegar fólk í dag er að kvarta. Nú getum við ýtt á takka til að fá ljós og skrúfað frá krana og fengið bæði heitt og kalt vatn. Mér finnst því í fljótu  bragði ekki mikil ástæða til að kvarta. En það er ekki að marka því þeir sem þekkja ekkert annað en nútímaþægindi geta ekki gert þennan samanburð. Ég held samt að það hafi allir gott af því að heyra svona sögur því það er bara ekki svo langt síðan lífið var mjög erfitt í lélegu húsnæði fyrir marga, þrátt fyrir covid.”

Fengu inni í höll

Höllin í Flatey á Skjálfanda.

Þegar Þórný og fjölskylda hennar voru búin að vera í Flatey í nokkur ár losnaði hús sem faðir Þórnýjar keypti. “Það þótti mér vera höll því þar voru þrjú herbergi og eldhús,” segir Þórný með glampa í augunum. Þar leið okkur vel. Þá komu boð að sunnan og pabbi var beðinn um að taka við móður sinni því hún var þá orðin fjörgömul og afi dáinn. Systkini pabba vissu sem var að nú vorum við búin að fá meira pláss fyrir okkur og þá var tilvalið að senda ömmu norður. Amma var auðvitað velkomin en hún lést 1946 og hvílir í Flateyjardal þar sem var kirkja.”

Fjölskyldan var í Flatey þangað til Þórný var orðin 17 ára en þá var hún komin í Menntaskólann á Akureyri. Frá Flatey flutti fjölskyldan suður og faðir Þórnýjar fékk kennarastöðu nálægt Akranesi. Eftir það kom Þórný bara heim sem gestur.

Þórný segir að auðvitað hafi alltaf verið lifað spart og allir tóku þátt í öllum störfum. Í sjávarplássunum fékk bátlaust fólk fiskinn gjarnan ókeypis og lifði vel á honum. Foreldrar hennar áttu tvær mjólkurkýr og ræktuðu allt sem greri svo þetta var í raun sjálfsþurftarbúskapur. Svo tók móðir hennar þátt í kennarastörfum og hjálpaði til en fékk aldrei borgað fyrir það. Launin voru bara fyrir eina stöðu og faðir hennar fyllti hana.

Kynntist ástinni í MA

Þórný varð stúdent 1950 og hafði þá kynnst Hauki Eiríkssyni sem seinna varð eiginmaður hennar. “Haukur var fá Akureyri og þau kynntust þegar þau voru í 6. bekk. Þórný komst að því að Haukur var óskaplega músíkalskur maður og dansaði geysilega vel þótt hann væri bæði feiminn og óframfærinn. (Auðvelt er að sjá hvaðan Eiríkur Hauksson, sem Íslendingar þekkja úr popptónlistarheiminum, fékk söngröddina og hárið en Haukur var rauðhærður.) Þórný fékk að búa í nýju heimavistinni í MA sumarið eftir stúdentsprófin en um haustið fluttu þau Haukur til Reykjavíkur. Haukur fór í Háskóla Íslands og fór að nema norrænu og fékk inni á Nýja Garði. Þórný fór í Kennaraskólann og fékk réttindi sem  barnakennari. Síðan fluttu þau norður og giftust haustið 1951, daginn sem hann varð 21 árs. Haukur var einkabarn foreldra sinna en þau höfðu misst fyrsta barn sitt. Eftir það var móðir hans veil og varð ekki gömul.

Fyrsta veturinn leigðu þau á þurrklofti og plássið var ekki mikið en þar leið þeim vel. En þegar þau áttu von á fyrsta barninu fór Þórný heim til tengdaforeldra sinna og fæddi barnið því þar voru aðstæður heldur betri. Þetta var 13.  janúar og síðan hefur Þórný haldið upp á töluna 13. Hún segir að það hafi verið allt í lagi að vera með ungabarn í þröngu húsnæði en ekki þegar hann fór að fara um. Þau fengu því stærra húsnæði um vorið. Og fljótlega bættist annar sonur við.

Haukur þráði að fara suður í söngnám

“Fljótlega fórum við að ræða það að fara suður því Hauk langaði að fara að læra söng. Ég vissi sem var að það hefði verið allt of þungt fyrir tengdamóður mína ef ég hefði farið suður með drengina. Hún átti nógu erfitt með að sjá á eftir einkasyni sínum svo það varð úr að Haukur fór einn suður og fór í söngnám hjá Kristni Hallssyni og Guðmundi Jónssyni. Síðan sótti hann um blaðamannsstöðu á Morgunblaðinu og fékk. Hann flaug auðvitað norður í fríum, við kölluðum það að fljúgast á, því við gátum hist þótt við byggjum hvort í sínum landshluta. Síðan lést tengdamóðir mín fyrirvaralítið og þá flutti ég suður með drengina tvo og við fórum að búa inni í Sigluvogi og Haukur hélt áfram að vinna á Morgunblaðinu. Tengdapabbi kom til okkar um jólin og það var allt í lagi en íbúðin var ekki nógu stór fyrir okkur öll til langframa. Hann fór fljótlega að athuga um húsnæði til að kaupa handa okkur öllum og við vorum mjög sátt við það. Hann fann íbúð inni í Karfavogi og við fluttum  öll í hana og þar fór vel um okkur. Þá blasti framtíðin við okkur björt og fögur,” segir Þórný.

Þórný minnist þess að þegar hún var komin að falli með þriðja barnið, sem er Eiríkur Hauksson söngvari, þurfti Haukur að hlaupa upp á Bæjarleiðir við Langholtsveg til að senda bíl eftir ljósmóður sem bjó í Árbænum. Þórný beið róleg á meðan en var fegin að þau náðu til hennar áður en barnið fæddist, heilbrigður og fallegur drengur. “Haukur fór þá inn til föður síns og vakti hann og sagði honum að nú hefði bæst við drengur og gleðin var mikil.” Þegar Þórný er spurð hvort hún hafi ekki æpt í fæðingunni þannig að tengdafaðir hennar vaknaði segir hún brosandi: “Ég hef ábyggilega eitthvað stunið en hann rumskaði ekki.” segir Þórný og er þakklát forsjóninni fyrir líf sitt þrátt fyrir allt.

Dýrðardagar

Fjöskyldan var sameinuð í gömlu húsi á stórri lóð sem var vinsæl til boltaleikja fyrir synina þrjá og vini þeirra. Mikil gleði ríkti svo þegar fjórða barnið fæddist 1961 „og mikið var ég hissa þegar það var stúlka… heimasæta! Þvílík guðsgjöf,“ segir Þórný.

Reiðarslagið ekki langt undan

Haukur greindist með heilaæxli og varð að fara til Kaupmannahafnar í aðgerð og geislameðferð þar í nokkrar vikur. Eftir heimkomu virtust batahorfur góðar og enn fékk bjartsýni ungu hjónanna byr undir báða vængi. En vonin brást. Þann 25. september 1963 lést Haukur og fimmta barnið, sonur, fæddis þremur mánuðum seinna á þorláksmessu. Sonurinn fékk auðvitað nafn föður síns. „Eiríkur afi reyndist börnunum góður uppalandi, glaður yfir því að geta gert gagn og verið með þeim áfram. Börnin týndust svo burtu eitt af öðru og stofnuðu sín eigin heimili en Eiríkur afi var á mínu heimili þar til hann lést 1993.

Börn Þórnýjar og Hauks frá vinstri: Haraldur, Jóhann Svanur, Haukur, Laufey Sigrún og Eiríkur.

Fyrstu þrjú ár barna mikilvægust

Þórný segist hafa lesið það að fyrstu þrjú ár í lífi barna séu mikilvægust varðandi þroska þeirra og næstu þrjú einnig mjög mikilvæg. Þetta eru leikskólaárin og þess vegna og ættu leikskólakennarar að vera hæst launaða stéttin” bætir hún ákveðin við en Þórny kenndi börnum í Vogaskóla í 36 ár. „Umhyggja og alúð gagnvart börnum ætti alltaf að vera í fyrsta sæti,“ segir Þórný sem hlýnar um hjartarætur við að heyra barnaraddir inn um gluggan.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 4, 2020 07:43