Leikstjóri í eigin lífi

„Mjög mikilvægt er að vinna með ungu fólki“ segir Þórunn. Á myndini eru fjórar verkefnastýrur hjá Stelpur Rokka. Dísa og Þórunn í neðri röð og Ingibjörg Els og Áslaug í efri röð. Mynd tekin skömmu áður en haldið var til Grænlands með Stelpur Rokka.

Ef nafni Þórunnar Sigurðardóttur er slegið upp á leitarvél kemur fljótlega upp viðtal sem tekið var við hana í febrúar 2008 í tilefni að því að hún hafði þá nýverið látið af störfum sem listrænn stjórnandi Listahátíðar Reykjavíkur. Myndin sem fylgir viðtalinu er af dökkhærðri, stuttklipptri konu með rauðan varalit. Nú hefur háraliturinn og klippingin breyst en varaliturinn er sá sami. Hann klæðir hana líka sérlega vel og nú, þegar gráu hárin hafa tekið yfir, er hann enn klæðilegri. Þetta er líka sama konan þótt aldurinn hafi hækkað enda 11 ár síðan. Fyrirsögn viðtalsins frá 2008 er “Leikstjóri listarinnar” sem óneitanlega gefur til kynna að þar fer valdamikil kona. Þórunn hefur síðan tekið að sér ýmis hlutverk og listaheimurinn á Íslandi hefur notið góðs af á ýmsum sviðum. Og Þórunn er hvergi nærri hætt enda hugsar hún lítið um aldurinn þótt hún hafi gengið í gegnum það tímabil eins og flestir. Hún ákvað að dvelja ekki í því heldur halda áfram.

Leikari í grunninn

Þórunn er upprunalega menntaður leikari og nýtti menntun sína snemma í leikstjórn. Þegar hún var í leiklistarnámi var eiginlegt leikstjóranám ekki til  á Íslandi. Samferða henni í náminu voru fleiri leikarar sem nýttu menntunina í leikstjórn og nefnir hún menn eins og Kjartan Ragnarsson og fleiri. Þórunn giftist síðar Stefáni Baldurssyni sem var aftur á móti einn af þeim fyrstu sem fóru í leikstjóranám án þess að vera menntaður leikari og lærði þau fræði í Svíþjóð.

Kannast við erfiðan tíma í tengslum við aldurinn

Úr Yvonne Búrgundarprinsessu, þar sem Þórunn lék titilhlutverkið, nýútskrifuð.

Þau Þórunn og Stefán eru bæði fædd 1944 og verða því sjötíu og fimm ára í ár. Þau taka bæði að sér ýmis verkefni enn þá og sum hver ábyrgðarmikil. Þórunn tók til dæmis nýverið að sér starf sem aðjunkt við Bifröst en þar hefur hún kennt í nokkur ár ásamt því að kenna í Listaháskólanum. Hún viðurkennir alveg að hafa farið í gegnum tímabil þegar hún óttaðist að vera borin saman við yngri konur og karla sem voru að koma fersk út á vinnumarkaðinn. “Þau voru sannarlega með meiri þekkingu en ég á vissum sviðum eins og tölvum,” segir Þórunn. “En eftir nokkra umhugsun komst ég að raun um að ég byggi sennilega yfir þekkingu og reynslu sem þau höfðu ekki. Við verðum að vera dugleg að minna okkur á það því allir fara í gegnum slíka tíma og enginn sá fyrir byltinguna sem tölvuvæðingin fól í sér. Þar eiga konur oft erfiðara en karlar. Ég viðurkenni fúslega að hafa verið með tölvufóbíu til að byrja með og það var nokkuð átak að yfirbuga hana,” segir Þórunn og er alveg hreinskilin með það en nú nýtir hún nýjustu tækni við fjarkennsluna og segir það engin eldflaugavísindi. “Segið okkur eldra fókinu bara hvernig þetta er gert og við frábiðjum okkur að láta tala niður til okkar þótt það taki okkur kannski lengri tíma að læra þessar tölvunýjungar,” segir Þórunn.

Heppin að kynnast eldri kynslóð leikara     

“Ég átti mjög skemmtilegan tíma í leikhúsunum eftir að ég útskrifaðist,” segir Þórunn. “Það var mikið að gera og ég náði að kynnast gömlu kynslóðinni niðri í Iðnó eins og Haraldi Björnssyni, Þorsteini Ö., Helgu Valtýsdóttur, sem er amma tengdasonar míns, og fleirum. Þessi tími var algerlega ómetanlegur fyrir mig og þegar ég fór að leikstýra notaði ég til dæmis leikkonurnar Sigríði Hagalín og Bríeti Héðinsdóttur mikið. Þær voru miklar vinkonur mínar báðar, miklir snillingar sem kenndu mér margt. Þær fóru allt of snemma”

Breytingar

Svo var Stefán ráðinn Þjóðleikhússtjóri 1990 og á þeim tíma var Þórunn með sýningar í öllum leikhúsunum. Hún segist ekki hafa séð fyrir að það yrði neitt vandamál en var fljót að finna út að það fór ekki saman. “Stefán kom beint frá Noregi þar sem hann hafði verið að setja upp Sölku Völku í Þjóðleikhúsinu þar og settist í stól Þjóðleikhússtjóra hér. Hann vildi gera miklar breytingar strax og úr urðu mjög hörð og erfið mál. Ég fann fljótt að ég nennti ekki að vera í miðju stormsins. Ég hefði samt örugglega sótt í mig veðrið og haldið áfram í leikhúsunum en fyrir tilviljun lenti ég inn á þeirri braut sem ég hef verið síðan, þ.e. stjórnun. Það gerðist þannig að mér bauðst að setjast í stjórn Listahátíðar þar sem ég varð síðar formaður. Á þessum tíma voru rosalega miklir umbrotatímar á öllum sviðum. Ég lenti síðan í því ásamt öðrum að þurfa að gera miklar breytingar hjá Listahátíð. Við komumst í gegnum það og náðum að gera breytingar til góðs. Upp úr því var ég beðin að taka við Menningarborginni sem var rosalega stórt verkefni.“

Missti áhugann á að leika

„Þegar ég var komin inn í Menningarborgarverkefnið ákvað ég að hætta alveg að hugsa um frama í leikhúsinu. Það eru ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum og fljótlega verða árekstrar af því ég var komin með of mikil völd. Maður verður aldrei trúverðugur í störfum sem þessum ef maður passar sig ekki á að sitja ekki allt í kringum borðið. Þetta var hörð lexía en mjög mikilvæg.

Þórunn lék í „Það er kominn gestur“ með Jóni Aðils og Guðrúnu Þ Stephensen.

Ég þurfti að vera í samstarfi við átta lönd því menningarborgirnar voru 9 og í byrjun var þetta mjög þungt verkefni. Ég var eina konan í menningarborgarstjórahópnum því Íslendingar voru þeir einu sem réðu konu. Stjórnendur hinna borganna voru margsinnis reknir en aldrei ráðin kona í þeirra stað heldur alltaf karl aftur.”

Það var Birgir Sigurðsson sem hringdi í Þórunni og bauð henni menningarborgarverkefnið og hún segist fyrst hafa haldið að hann væri að grínast. “Ég var þá stjórnarformaður í Listahátíð og kláraði þá hátíð og skilaði góðum hagnaði. Það var gott veganesti því svo fór ég á fullt í Menningarborgarverkefnið. Þá var Björn Bjarnason menntamálaráðherra og Ingibjörg Sólrún Borgarstjóri. Þau og stjórnin stóðu fullkomlega við bakið á mér og voru  alveg frábær í samstarfi. Þau áttuðu sig fljótlega á því að ég vinn ekki eftir pólitískum skipunum sem þýddi að ég tók ábyrgðina og varð að standa undir henni. Í svona stórum verkefnum er samstarf lang mikilvægast. Með mér var rosalega gott fólk sem hefur fylgt mér í mörgu síðan. Við kláruðum Menningarborgarverkefnið og skiluðum meira að segja tekjuafgangi,” segir Þórunn ánægð. “Mér þótti þetta auðvitað mjög áhugaverð vinna sem ég var komin í og þá missti ég áhugann á að leikastýra og líka að skrifa. Mér fannst ég hafa fundið fjölina mína í þessu starfi og gat fengið útrás í þeirri skapandi vinnu sem í starfinu fólst.”

Hörpuævintýrið

Eftir átta ára starf sem stjórnandi Listahátíðar var Þórunn skipuð stjórnarformaður rekstrarfélagsins í Hörpu. Þetta var rétt eftir hrun og á lóð Hörpu stóð nánast bara opinn grunnur og mikið verk fyrir höndum. Eftir gríðarlega vinnu margra aðila stóðust áætlanir og opnunin náðist á tilsettum tíma. “Ég var svo í stjórn Hörpu í nokkurn tíma en hætti því þegar mér fannst ég ekki geta gert meira gagn, ég hafði alltaf aðrar hugmyndir um rekstrarformið á húsinu.”

Settist í Háskólann

Þegar Þórunn hætti í stjórn Hörpu fór hún í kennslufræði fyrir háskólakennara í Háskóla Íslands og samhliða því var hún farin að kenna menningarstjórnun í Listaháskólanum og á Bifröst. Það hefur hún verið að gera síðastliðin 8 ár. Auk þess er hún núna, 25 árum seinna komin aftur inn í Listahátíð sem stjórnarformaður en í vor verður 50 ára afmæli hátíðarinnar. Þórunn er líka í stjórn Norræna menningarsjóðsins fyrir mennta og menningarmálaráðherra og hefur verið í mörgum stjórnum. Þórunn brosir þegar viðurnefnið Tóta 2000 er nefnt en skýrir það þannig að um aldamótin hafi hún verið mjög áberandi í samfélaginu. Það var árið sem hún stýrði Menningarborginni og þeyttist á milli heimshorna,. Þess vegna hafi hún fengið þetta viðurnefni.

Kulnun

Þórunn, Ásdís Skúladóttir og Sigríðiur Hagalín úr ´“Íslendingaspjöll“ eftir Davíð Oddson og Hrafn Gunnlaugsson.

Þórunn segist taka mikið eftir því sem kallað er kulnun í dag. “Við verðum að gæta okkar ef við viljum vera gjaldgeng á vinnumarkaði áfram með því að halda okkur við, endurmennta okkur og reyna að uppfæra okkur sjálf reglulega. En umfram allt verðum við að þekkja takmörk okkar og minnka við okkur vinnu ef við upplifum streitu frekar en að kenna öðrum um að of mikið sé að gera.”

Þórunn segist hafa reynt af fremsta megni að þekkja sinn vitjunartíma . “Ég hef verið mjög meðvituð um að hætta störfum ef mér hefur þótt nóg komið,” segir hún. “Það er auðvitað hægara sagt en gert en ég hvet alla til að hugsa vel um þann þátt. Ég var líka að reikna út hvort það borgaði sig fyrir mig að vinna mikið og í ljós kom að skerðingarnar eru svo miklar að það borgar sig líklega alls ekki. Auðvitað eru einhverjar skerðingarnar nauðsynlegar þegar um miklar tekjur er að ræða en þær mega samt ekki vera letjandi fyrir fólk sem komið er á vissan aldur. Sumir geta mjög vel unnið áfram og ættu að geta gert það án þess að tekjurnar skerðist um of. Verum dugleg að umgangast líka unga fólkið og starfa með því, ég hef lagt mikla áherslu á það og var td verkefnisstjóri hjá “Stelpur rokka” á Grænlandi og fannst það æðislegt” segir þessi kona sem þrátt fyrir árin 75 brennur enn af smitandi eldmóði.

Aðjunkt á Bifröst

Og nú hefur Þórunn verið ráðin aðjunkt á Bifröst en hún hefur verið þar stundakennari um nokkurn tíma. Þar fyrir utan hefur hún kennt í Listaháskólanum en ákvað að hætta því þegar hún settist aftur í stjórn Listahátíðar vegna 50 ára afmælisins. Hún segist samt sakna Listaháskólans, en þetta hafi bara verið orðið of mikið.

Vill líka hafa tíma fyrir barnabörnin

Þórunn og Stefán eiga tvö börn, Unni Ösp leikkonu og Baldur sem er framkvæmdastjóri hjá Kviku banka. Baldur var lengi framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar Gus Gus áður en hann söðlaði um. Barnabörnin eru orðin sjö og þar er ærið verkefni að vinna sem Þórunn segir að þau hjónin sinni af mikilli ánægju. Þegar viðtalið var tekið var vetrarfrí í skólum og þá hafði lítill snáði fengið að gista hjá ömmu og afa sem nutu nærveru hans í ríkum mæli. Það má með sanni segja um Þórunni að hún sé leikstjóri í eigin lífi og að hún hafi nýtt þau tækifæri sem henni hafa boðist um ævina.

 

Ritstjórn nóvember 1, 2019 07:11