Þorgrímur Gestsson er sjálfstætt starfandi blaðamaður og rithöfundur. Hann þurfti eins og svo margir sem eru komnir yfir miðjan aldur, að fá nýjan mjaðmalið. Hann skrifaði langa færslu um mjaðmarliðaskiptin og birti á Facebook. Lifðu núna fékk góðfúslegt leyfi hans til að birta hana og fer hún hér á eftir í heild sinni.
Hér fylgir dálítil sjúkrasaga mín, sagan um þau skipti á mjaðmarlið sem ég beið eftir heima á Íslandi mánuðum saman og væri enn að bíða eftir hefði ég ekki komist í samband við lítið sjúkrahús úti í skógi í Heiðmörku í Noregi. Þetta er ef til vill dálítið langt en þau tíðkast nú hin löngu innleggin á síðustu og verstu orkupakkatímum og margir því í góðri þjálfun – og ég vona að einhverjir nenni að lesa:
Beðið eftir aðgerð
Svo lengi sem ég man hafa stjórnvöld á Íslandi skorið niður fjárveitingar til heilbrigðismála, það var jafnvel gert í mestu efnahagsuppsveiflu allra tíma. Líklega vegna þess að þáverandi stjórnvöld sáu engan fjárhagslegan hagnað í því að reka gott heilbrigðiskerfi. Og þegar illa fór í efnhagslífi þjóðarinnar var vitanlega nauðsynlegt að skera enn myndarlega niður í heilbrigðiskerfinu.
Þá var botninum eiginlega náð og mikið var talað um læknaskort, hjúkrunarfræðingaskort, húsnæðisskort og fráflæðisvanda.
Ekki datt mér í hug þegar fréttir um þessar hremmingar íslenska heilbrigðiskerfisins voru daglegt brauð að ég myndi sjálfur tengjast beint þeim þjóðarvanda sem þær eru og voru. En fyrir tæpu ári fór ég að finna fyrir því að vinstri mjöðm mín virtist vera eitthvað að gefa sig og ég átti æ erfiðara með að fara um stigana tvo í mínu rúmlega aldargömlu húsi og var farinn að örvænta um að ég yrði fær um að fara til Dublinar og Belfast á Írlandi með norskri fjarbýliskonu minni, Beret Wicklund, sem við höfðum skipulagt með nokkrum fyrirvara.
En ég dreif mig – mjaðmarskömmin var misvond, stundum þolanleg en þjakaði mig þó oft. Ég beit á jaxlinn.
Ég kom aftur heim til Íslands undir lok ágúst og hafði þá pantað viðtalstíma hjá heimilislækni mínum. Hann sendi mig rakleitt í myndatöku og biðin eftir niðurstöðu sérfræðings hófst. Ég var satt að segja svo einfaldur að halda að myndirnar færu fljótlega fyrir augu manns sem gæti úrskurðað um hvað þyrfti að gera. En, nei. Í nóvember fékk ég bréf frá Landspítalanum þar sem mér var tilkynnt að ég fengi tíma hjá bæklunarlækni eftir 5-9 mánuði!
Jól og áramót liðu, ég tók æ meiri verkjalyf og heimilislæknirinn ávísaði mér að auki bólgulyfjum en þetta varð samt verra og verra. Ég fór að hugsa um þann möguleika að komast í aðgerð í Þrændalögum þar sem ég gæti síðan fengið að vera í íbúð á einni hæð og fengið nauðsynlega aðhlynningu meðan ég væri að jafna mig.
Næst gerðist það að ég var boðaður í viðtal við bæklunarlækni á Klínikinni, þeirri einkareknu læknamiðstöð. Sennilega var það fyrir framtak heimilislæknis míns, sem hafði lofað að gera það sem hann gæti til að koma mér í aðgerð. Niðurstaða þeirrar athugunar var að nauðsynlegt væri að skipta um mjaðmarlið og aðgerðin gæti farið fram tveimur vikum seinna – á Klínikinni. En það yrði þá án milligöngu hins opinbera íslenska heilbrigðiskerfis og myndi kosta mig 1,2 milljónir króna. og það leist mér ekki á. Ég hafði lýst aðstæðum mínum heimafyrir fyrir lækninum og tengslum við Þrándheim og hann taldi líklegt að ég fengi leyfi Sjúkratrygginga til að fara í aðgerð erlendis. Hann sendi inn umsókn um að hann fengi að gera þessa aðgerð sjálfur, á Klínikinni, þótt hann byggist við að því yrði hafnað (það hefði aldrei verið samþykkt), ella að ég fengi leyfi til að fara í aðgerð erlendis.
Til að gera langa sögu stutta: Umsókn Klínikurinnar var hafnað en orðið við beiðni um aðgerð erlendis. Því skyldu fylgja flugferðir fram og til baka fyrir mig og fylgdarmanneskju og dagpeningar eftir þarum gildandi reglum. Nokkru síðar hélt ég til Noregs eins og ég hafði áformað og lagði nauðsynleg skjöl frá Sjúkratryggingum Íslands inn hjá sjúkrahúsi Ólafs helga í Niðarósi og óskaði eftir aðgerð þar. Rétt áður en ég fór til Noregs hafði ég veið boðaður til skoðunar hjá bæklunarlækni á Landspítalanum 10. apríl og sagt að gæti ég ekki notað þann tíma væri ekki laus tími hjá slíkum lækni fyrr en í september. Ég þorði ekki annað en dvelja í Noregi skemur en ég hafði ætlað mér og kom heim mátulega til að hitta þennan lækni. Hann lét taka nýja mynd áður en við hittumst og kvað síðan upp þann úrskurð að ég ætti fara í liðskipti – og taldi líklegt að það gæti orðið fyrir jól. Þar með var ég kominn í margumtalaða biðröð eftir liðskiptum.
Mér leist satt að segja ekkert á að bíða til jóla eftir aðgerð því þegar hér var komið sögu voru verkirnir farnir að aukast verulega og jukust nánast frá degi til dags. Ég komst varla úr rúmi, brölti með harmkvælum niður fyrri stigann og gleypti sterk verkjalyf en var ekki orðinn göngufær fyrr en eftir hádegi og gat brölt niður hinn stigann, sem liggur í vinnustofu mína. En þegar ég fór úr húsi var göngulagið eins og hjá öldruðum manni. Undir áhrifum verkjalyfja jókst mér þor, sem varð til þess að ég gekk stundum of langt og hefndist fyrir það daginn eftir, var þá enn verr haldinn en áður.
Í maí var mér bent á að liðskiptaaðgerðir væru gerðar á litlu sjúkrahúsi í bænum Tynset, nyrst í Austurdal á Heiðmörku í Noregi, sem hét Tunnusetur til forna, það væri rómað fyrir mikil afköst og gott atlæti og bið eftir aðgerð væri stutt, aðeins um þrjár vikur. Skemmst er frá því að segja að ég sendi umsókn þangað og öll nauðsynleg gögn, þar á meðal nýjustu röntgenmyndina af mér. Varla liðu nema tvær vikur þar til ég var vakinn einn morgun með símtali frá þessu sjúkrahúsi og boðaður til skoðunar síðasta mánudaginn í maí klukkan tíu og í aðgerð á miðvikudeginum.
Ég hafði hraðar hendur, fékk greinargóðar upplýsingar hjá alþjóðadeild Sjúkratrygginga um hvað gera þyrfti: Panta flug, sækja um dagpeninga, fá staðfestingu sjúkrahússins á aðgerðinni osfrv. og ákvað að þiggja ekki boð um fylgdarmanneskju, ég skyldi spjara mig einn. Sunnudaginn 26. maí flaug ég til Gardermoen, tók lest þaðan til Hamar, síðan aðra inn eftir þeim skógiklædda Austurdal, til Tunnuseturs. Þetta ferðalag tók um þrjár klukkustundir. Á sjúkrahúsinu var mér vísað til herbergis í sjúkrahótelinu, sem er við hliðina á fæðingardeildinni, sendur daginn eftir í myndatöku, nauðsynlegar rannsóknir og blóðsýnatöku. Bæklunarlæknirinn sem skoðaði mig sá fljótt að mjaðmarliðurinn hafði versnað verulega frá síðustu myndatöku: Kúlan á lærleggnum væri hreinlega að étast upp! Morguninn eftir var ég vakinn á ný með símhringingu og sagt að vegna forfalla gæti ég farið í aðgerð strax þá um daginn, sem ég var ekki lengi að þiggja.
Það skipti engum togum: Aðgerðin hófst um klukkan hálf eitt og um kvöldmatarleytið var mér sagt að fara framúr og stíga í fótinn. Það gekk með ágætum og næsti dagur fór í meiri læknisrannsóknir og skoðanir, gönguþjálfun og spjall við karlana þrjá sem voru með mér á stofunni, allir Þrændur. En síðdegis fór þeim að fækka og á fimmtudeginum vorum við eftir tveir og lögðum af stað í 16 manna rútu sem flutti okkur norður á bóginn, mig 170 km. leið til Þrándheims, hann um 100 kílómetrum lengra, til Veradals í Þrændalögum.
Ég hafði á vissan hátt öðlast nýtt líf : Var laus við stöðugar kvalir í mjöðminni og fer allra minna ferða á tveimur hækjum, sem mér er sagt að ég verði að gera í sex til átta vikur, aðallega til að koma í veg fyrir að ég festist í þeim ruggandi gangi sem stíf mjöðm veldur. Það styrkir einnig handleggs- og brjóstvöðva! Tilgangur minn með þessu skrifi er alls ekki að senda tóninn þeim íslensku stjórnmálamönnum sem ráða heilbrigðismálum nú, hvað þá starfsfólki á íslenskum heilbrigðisstofnunum. Sá vandi sem við er að etja er eldri en svo að þeir beri höfuðábyrgðina á honum. Hann er afleiðing áralangs fjársveltis og niðurskurðar. Þvert á móti veit ég að starfsfólk íslenska heilbriðiskerfisins gerir ætíð sitt besta – og vel það. Hins vegar vakna ýmsar spurningar. Svosem: Hvers vegna er 5-8 mánaða bið eftir tíma hjá bæklunarlækni? Hvers vegna er fólki sem bíður eftir aðgerð í Reykjavík ekki bent á að þeim á Akranesi og Akureyri virðist ganga betur að saxa á biðröðina en þeim á Landspítalanum? Og hvers vegna virðist vera útilokað að Sjúkratryggingar geri samstarfssamning við einkaklínikurnar til að stytta biðina eftir þessum bráðnauðsynlegu aðgerðum? Eru persónulegar eða pólitískar ástæður fyrir því?
Hins vegar er ég afar þakklátur fyrir það hvernig Sjúkratryggingar Íslands tóku á mínu máli og þær vinsamlegu viðtökur sem ég fékk þar. Eins vil ég senda starfsfólki sjúkrahússins í Tynset mínar bestu kveðjur og þakkir fyrir það sem þar var fyrir mig gert – ég get mælt með því við hvern sem er að sækja um að komast í liðskiptaaðgerð þar.
Og ég er vitanlega þakklátur fyrir að geta á ný brugðið fyrir mig betri fætinum, í stað þess að verða að bíða eftir aðgerð fram að næstu jólum eða jafnvel fram yfir áramót. Sennilega hefði ég verið endanlega lagstur í rúmið áður en ég yrði kallaður til aðgerðar, ef ég hefði ekki notið heillaráða norskra vina minna – og þekkingar og færni þess frábæra heilbrigðisstarfsfólks í sjúkrahúsinu í Tynset. Samúð mín er hjá öllum þeim sem heima bíða mánuðuðum saman í ónauðsynlegum kvölum í mjöðum eða hnjám eftir að komast í aðgerð sem linar þær kvalir og veitir nýtt líf.