Litarhátturinn skiptir meira máli en gráa hárið

Heiðar Jónsson

Eldri konum fjölgar og fleiri kjósa að láta gráa hárið vaxa fram og njóta sín. Á YouTube er fjöldinn allur af myndböndum sem sýna förðun gráhærðra kvenna. Það er vissulega umhugsunarefni fyir þær sem eru orðnar gráhærðar, hvað þær eiga að gera varðandi litaval og förðun, þegar hárið gránar. Á að hressa uppá förðunina með sterkari litum til dæmis? Um það er ýmsar kenningar.

Jóhanna Sigurðar þarf ekki að lita hárið

Heiðar Jónsson snyrtir sem er einn þeirra sem hefur velt fyrir sér förðun eldri kvenna, er þeirrar skoðunar að litarhátturinn skipti meira máli varðandi litanotkun en háraliturinn, í þessu tilviki gráa hárið. Hann segir að þeir sem gráni fallega séu með kaldan litarhátt. Jóhanna Sigurðardóttir sé dæmi um manneskju sem þurfi ekki að lita á sér hárið. „Svo kemur fólkið með heita litarháttinn, með rauðbirkna hárið og freknurnar. Það er oft með græn eða brún augu. Því fólki fer ekki jafn vel að grána og vill því frekar halda í að lita hárið. En að því sögðu er fólki náttúrulega í sjálfsvald sett hvort það litar hárið eða ekki“.

Rétt að halda sig við sömu litina

„Það er mín skoðun að fólk eigi að nota sömu liti í förðun og það gerði þegar það var að byrja að farða sig, burtséð frá aldri. Það er spurning hvort fólkið með heita litarháttinn heldur áfram að lita hárið og þá með gylltum tónum þegar það eldist. Vigdís Finnbogadóttir er gott dæmi um konu sem hefur gert það mjög fallega. Við erum svo með mörg dæmi um fólk úr fjölmiðlum og stjórnmálum sem litar á sér hárið, vegna þess að það er með heitan litarhátt“.  Heiðar segist taka þetta fram áður en hann fer út í förðunina, vegna þess að litarhátturinn skipti alltaf miklu máli í sambandi við förðun, ekki síst þegar við eldumst.

Nýjar vörur fyrir konur 65 ára og eldri

Heiðar segir að förðunin og snyrtivöruheimurinn hafi verið að þróast mikið á liðnum árum, þar sem gífurlega stór hópur kvenna yfir sjötugt sé kominn fram á sjónarsviðið, hópur sem áður var ekki sérlega stór. „Við sem erum komin yfir sjötugt erum stór neytendahópur og erum tilraunadýr okkar sjálfra í því hvernig við eigum að haga okkur og hvernig við eigum að vera þegar við eldumst. Við höfum ekki mikla reynslu frá öðrum í því efni“, segir hann og bætir við að öll snyrtivörufyrirtækin séu búin að búa til nýja línu krema fyrir konur 65 ára og eldri. „Ég vil endilega benda konum á að kíkja á þetta, vegna þess að þetta eru allt snyrtivörur sem „ljóma“. Þær eru ekki búnar til úr efnum sem „yngja“ konur, heldur úr efnum sem enn eru til staðar í líkamanum þegar þær eldast. Þau valda því að það er eins og það komi æskuljómi í húðina, án þess að hrukkurnar minnki“.

Nota liti sem falla að hörundinu

„Það fylgir aldrinum að við fáum ýmsa litla galla sem við viljum ekki að sjáist og ef við notum ekki rétta liti þá dregur förðunin þá fram, á sama hátt og fatnaður sem passar fólki ekki undirstrikar galla frekar en kosti viðkomandi“, segir Heiðar. „Konur setja oft á varirnar á sér lit sem þeim finnst ógurlega fallegur, en lit sem þær myndu aldrei fara í. Það eru óskaplega margar konur með bleikan varalit, en svo eiga þær enga bleika flík. Ef kona hefur verið í brúnum litatónum er rétt að hún haldi sig við þá.  Ég segi, þið skuluð halda áfram að farða ykkur og vera í litum sem falla að hörundinu“.

Ritstjórn febrúar 2, 2021 07:59