Litríkur haustfiðringur

Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona er í hópi þeirra sem aldrei hefur verið hrædd við að rækta sínar listrænu taugar og láta reyna hvernig sköpunarkrafturinn getur leitt menn áfram. Hún opnar málverkasýningu í Gallerí Göngum í Háteigskirkju sunnudaginn 20. október næstkomandi milli kl. 14 og 17.

Sýningin ber yfirskriftina Haustfiðringur og innheldur verk sem voru að mestu unnin í sumar meðan á dvöl hennar í Suður-Þýskalandi stóð. Svo skemmtilega vill líka til að í ár eru tíu ár síðan Jóhanna hélt sína fyrstu einkasýningu. Þögli kórinn í Listasal Anarkíku í Kópavogi. Á hverju ári síðan þá hefur hún haldið að minnsta kosti eina einkasýningu. Jóhanna er vissulega þekktust fyrir söng sinn og kórstjórn en hún hefur sýnt og sannað að pensillinn lætur ekki síður vel að stjórn en raddböndin.

Jóhanna nam myndlist á Íslandi og í Þýskalandi og hefur jafnframt unnið til heiðursverðlauna í Austuríki fyrir verk sín. Hún var nýlega í viðtali við Lifðu núna um listina, kúnstina að lifa innihaldsríku lífi og ástina sem hún fann í Óttari Guðmundssyni geðlækni.

https://lifdununa.is/grein/eg-hef-aldrei-verid-hraedd-vid-hlutina/

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 18, 2024 08:40