„Það er gott að vakna til ákveðinna verka á morgnana,“ segir Önundur Jónsson fyrrverandi yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. Önundur lét af störfum í lögreglunni 31. október 2012 eftir 33 ára starf. „Samkvæmt kjarasamningum lögreglumanna verða allir að hætta störfum við 65 ára aldur. Ég vissi því alveg hvenær ég myndi hætta og var búinn að undirbúa mig undir starfslokin. Ég hafði hugsað mér að fara að sinna áhugamálunum en ég á trésmíðavél og átti nokkrar spýtur en þegar frá leið langaði mig að fá mér eitthvað að gera. Í byrjun árs 2013 fór ég að spyrjast fyrir um hvort það vantaði bílstjóra, því mér datt í hug að ég gæti tekið að mér að keyra rútu eða olíubíl svona túr og túr, ef vantaði mann. Spurði nokkra en það var ekkert laust. Tíminn leið og það var svo í maí 2013 sem ég datt niður starf hjá Gámaþjónustu Vestfjarða og það má eiginlega segja að það hafi verið alger tilviljun að ég fór að vinna þar. Ég réði mig í fyrstu til að keyra trukka, en fyrr en varði var ég kominn ofan í skurð og farinn að moka. Þegar haustaði var ég hálfan daginn að vinna við flokkun í endurvinnslunni. Það var ekkert erfitt og bara gaman.“
Tapaði mörgum kílóum
„Fólk var mjög hissa að sjá mig, ofan í skurði að moka. Árið 2014 vorum við leggja kapla út í Bolungarvík, þetta var hörku vinna, allt upp í 12 til 14 tíma á dag. Við lögðum kaplana sem voru níðþungir, mokuðum sandi ofan á þá og lögðum gangstéttarhellur yfir. Þetta tók mjög á líkamlega og ég tapaði mörgum kílóum af kroppnum,“ segir hann og viðurkennir fúslega að þetta hafi verið allt of erfið vinna. Þá kom nýtt tækifæri upp í hendunnar á honum því Önundur fékk vinnu hjá Skeljungi. Þar vinnur hann við bókhald hálfan daginn og stundum lengur þegar mikið er um dreifingu á olíu, þá fer hann á olíubílinn. „Ég er mjög ánægður hjá Skeljungi. Starfsmannastefna fyrirtækisins er til fyrirmyndar,“ segir Önundur sem býst við að láta af störfum þegar Skeljungsmenn sjá á honum of mikil ellimörk. Hann segist ekki kvíða því, hann geti haft nóg fyrir stafni. Hann er í Oddfellow, hefur umsjón með hittingi eldri félaga einu sinni í mánuði á, hann hittir gamla skólabræður í kaffi tvisvar í mánuði og svo er það trésmíðavélin sem bíður.
Skóþræll verður hælkrókur
Jón faðir Önundar keypti trésmíðavél frá Bandaríkjunum árið 1954 af tegundinnni ShopSmith. „Hún er í fullkomnu lagi ennþá. Fyrirtækið er með góða varahlutaþjónustu og nú rúmum 60 árum eftir að vélin kom til landsins er enn hægt að fá alla varahluti í hana. Ég er nýbúinn að taka vélina í gegn og hún er í fullkomnu lagi. „Vinur minn sýndi mér myndir af svokölluðum skóþræl sem notaðir eru á leikskólum í Reykjavík og á að auðvelda krökkunum að komast úr skóm og stígvélum. Ég ákvað að útfæra hugmyndina nánar og smíðaði græju sem ég kalla hælkrók. Hún hentar bæði börnum og fullorðnu fólki sem er farið að tapa jafnvæginu. Það setur fótinn ofan í rauf og grípur í leiðinni í handfang og togar af sér skóinn. Margir eiga erfitt með að standa á öðrum fætinum en það er hægt að halda jafnvægi með því að nota handfangið fólk notar hælkrókinn. Ég er búinn að smíða nokkur stykki af þessu,“ segir Önundur.
þrír mánuðir urðu að rúmum þremur áratugum
Önundur er fæddur á Ísafirði og alinn þar upp. Hann flutti suður til að læra prentiðn en ákvað að sækja um afleysingar í lögreglunni þegar hann var nítján ára. Hann varð afleysingalögregluþjónn í Kópavogi sumarið og haustið 1967. Hann flutti á Akranes þar sem hann hann vann í prentinu í fjögur ár en hóf störf í lögreglunni þar 1979. Raunar ætlaði hann bara að leysa af í þrjá mánuði en þessir þrír mánuðir urðu að 33 árum. Eftir fjögur ár í lögreglunni á Skaganum flutti hann sig til höfuðborgarinnar, vann í öllum deildum lögreglunnar í Reykjavík en vann þó mest við rannsóknir. Hann vann sig upp í stöðu lögreglufulltrúa en segist hafa verið orðin þreyttur á erlinum sem fylgdi þessu starfi.
Var orðinn svakalega þreyttur
„Ég var orðinn svakalega þreyttur. Það var alltaf bunki af óleystum verkefnum á borðinu. Maður var á hlaupum allan daginn og aldrei pása. Svo var það eitt laugardagskvöld að ég og konan mín vorum að fletta helgarblöðunum. Þá sáum við auglýsta stöðu varðstjóra í lögreglunni á Ísafirði og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar um leið,“ segir hann. Það var tekin ákvörðun um að sækja um og hann fékk starfið. Það var þó ekki bara þreytan sem varð til þess að hann ákvað að söðla um. Það voru líka aðrar ástæður. „Ég lenti í pólitískum hremmingum. Ég hafði verið settur sem lögreglufulltrúi og það var búið að ákveða að skipa mig í stöðuna. En þá gerðist það að Óli Þ. Guðbjartsson, sem þá gegndi stöðu dómsmálaráðherra, ákvað að ganga þvert á vilja lögreglustjóra og skipa frænda sinn í stöðuna. Ég fór rannsóknardeildina í smá tíma en fann með sjálfum mér að það yrði ágætt að komast í burt.“
Ungur drengur í hvítri skyrtu
„Ég var svo varðstjóri í lögreglunni á Ísafirði í tvö ár en þá losnaði staða yfirlögregluþjóns á Vestfjörðum og ég ákvað að sækja um. Ólafur Helgi Kjartansson þáverandi sýslumaður á Ísafirði ákvað að ráða mig. Þeirri stöðu gegndi ég svo í tæp tuttugu ár.“ Það mæddi oft mikið á yfirlögregluþjóninum. Erfiðustu tímabilin voru eftir að snjóflóðin féllu, fyrst í Súðavík og svo á Flateyri. En hann segir að góðu dagarnir hafi verið fleiri en þeir slæmu. Lögreglan úti á landi standi nær íbúunum en á höfuðborgarsvæðinu og fólki þyki sjálfsagt að biðja lögregluna um
hjálp við ýmis smáverkefni, til dæmis að opna útidyr þegar það læsir sig úti og svo framvegis. Önundur segir að skemmtilegasta verkefnið sem hann hafi unnið á ferlinum hafi verið útkall sem hann fór í á hvítasunnudag. „Ég var einn á lögreglubílnum úti að keyra. Þá er kallað í talstöðina og sagt að kona hafi óskað eftir aðstoð en hafi ekki viljað segja hvað væri að. Maður setur sig ósjálfrátt í ákveðnar stellingar þegar maður veit ekki hvað bíður manns. Ég tók með mér kylfuna og bankaði upp á hjá konunni og hún kemur til dyra. Á bak við hana stóð ungur drengur í hvítri skyrtu. Konan rétti fram höndina og þá sá ég að hún hélt á hálsbindi. Formálalaust spurði hún mig að því hvort að ég gæti ekki hnýtt bindið fyrir drenginn sinn sem ætti að fara að fermast. Hún kynni það bara ekki. Hana vantaði hjálp því að faðir drengsins var úti á sjó. Hann var á leiðinni í land en hafði seinkað.“
Þar sem lognið á lögheimili
Önundur er kvæntur Gróu Stefánsdóttur. Önundur á þrjú börn frá fyrra hjónabandi, Gróa einn son, sem er kjörsonur Önundar og saman eiga þau eina dóttur. Þau eiga átta barnabörn og tvö barnabörn. Þau eru orðin tvö ein á Ísafirði. Börnin búa á Fáskrúðsfirði, Möltu og á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það dettur þeim hjónum ekki í hug að flytja. Finnst of gott að vera á Ísafirði til þess. „Það er svo þægilegt og gott að vera hér. Stutt í allt og ef maður þarf að fara í útréttingar tekur það engan tíma. Ef mann vanhagar um eitthvað, sem ekki fæst hér, þá fær maður það sent að sunnan. Maður þekkir alla og allir þekkja mann. Svo er það veðursældin. Lognið á lögheimili á Ísafirði, hér er mikil veðursæld. Skilin á milli árstíðanna eru líka skörp, hér er sumar og hér er vetur. Mér fannst að það væri eilíft haust fyrir sunnan, stöðug lárétt rigning.“
Góðar samgöngur við Ísafjörð
Önundur segir að samgöngur hafi batnað mikið frá því hann flutti aftur vestur. Nú sé orðið malbikað alla leiðina á Ísafjörð, það taki ekki nema rúma fimm tíma að renna suður. Honum líst hins vegar afleitlega á allar hugmyndir um að færa Reykjavíkurflugvöll. „Ef að innanlandsflugið yrði flutt til Keflavíkur tæki það of langan tíma að komast til borgarinnar. Í dag getur maður farið út á flugvöll og verið komin á fund í miðbæ Reykjavíkur eftir rúman klukkutíma,“ segir hann og bætir við að flugvöllurinn sé ekki einungis samgöngumiðstöð fyrir landsbyggðina hann þjóni líka sjúkraflugi. „Það yrði fljótlegra að fljúga með veikt fólk til Grænlands héðan að vestan en suður til Keflavíkur,“ bætir hann hlæjandi við.