Íslenska danssenan hefur á síðustu áratugum rutt sér til rúms á alþjóðlegum vettvangi vegna framsækni sinnar. Hér er starfandi margt einstakt listafólk og skapandi dansarar. Lifðu núna hitti hjónin Pétur Ármannsson og Brogan Davison sem eru listrænir stjórnendur Reykjavík Dance Festival.
Reykjavík Dance Festival er á næsta leiti, verður haldin 15. – 19. nóvember. RDF er alþjóðleg hátíð sem stofnuð var árið 2002 og hefur vaxið og dafnað síðan. Þegar ég spurði þau út í þeirra samstarf brosti Pétur og lýsti þeim sem „listrænum sálufélögum“. Pétur er leikstjóri og höfundur og Brogan danshöfundur og dansari. Þau hafa unnið saman síðan 2012 að margskonar verkum og þeim þótti því rökrétt skref að taka við sem listrænir stjórnendur RDF árið 2021. Brogan hefur þetta að segja um þeirra fyrsta verk: „Fyrsta verkið okkar var dansdúett milli mín og föður Péturs sem sýnt var á Lókal og Reykjavík Dance Festival.“
Verkið sem átti upphaflega einungis að vera fjölskyldugreiði hét Dansaðu fyrir mig. Með verkinu vildu þau reyna uppfylla fimmtán ára gamlan draum föður Péturs, Ármanns Einarsson, um að verða atvinnudansari. Pétur bætir hlæjandi við að faðir hans hefði verið „miðaldra þriggja barna faðir“. Þessi tilraun þeirra tókst svo sannarlega því verkið vakti mikla athygli erlendis og enduðu þau á að ferðast og sýna verkið í átta ár.
„Ármann þurfti að hætta að vinna sem skólastjóri í tónlistarskólanum til þess að vinna sem atvinnudansari,“ segir Brogan.
Hver má dansa?
Í verkum sínum og vinnu leika þau sér að því að dansa á línunni milli leikhússins og danslistarinnar. Brogan segir þau líkt og í verkinu Dansaðu fyrir mig spyrja sig erfiðra spurninga í sköpunarferlinu eins og hvort dans sé í raun aðgengilegur öllum? Hverjum er í raun leyfilegt að dansa á sviði og hvaða líkama erum við vön að sjá á sviði? Þarftu að vera menntaður til að mega vera dansari? Enn þann dag í dag velta þau þessum spurningum fyrir sér en nú í samhengi við hátíðina. Eru þau að reyna að þenja hugtakið dans og spyrja sig hvað dans sé til að leita fram á við?
„Við erum ekki einungis að spyrja okkur hvað dans er heldur hver dansar og hvers konar líkama sjáum við í dansi og hvaða raddir heyrast,“ segir Pétur. „Okkar markmið er reyna að ögra viðteknum hefðum í því. Það þurfa ekki allir að vera ungir, þjálfaðir og með ófatlaðann líkama til að mega dansa. Það dansa allir og við viljum afhjúpa það með hátíðinni.“
Í ár er Reykjavík Dance Festival skipulögð með þemað eða heildarhugmyndinni um Femíníska framtíð í huga. „Dagskráin er innblásin af femíniskri hugsun og spurningum um misrétti,“ segir Brogan.
„Einnig hvað femínísk framtíð getur verið. Hvernig lítur hún út? Við erum ekki endilega með svar heldur spurningar. Hvernig viljum við að framtíðin líti út í gegnum femíníska linsu.“ bætir Pétur við.
Afhjúpun og inngilding
Hátíðin veltir við mörgum steinum og leggur áherslu á mikilvæg málefni eins og inngildingu, fjölbreytileika, umhyggju og sjálfbærni.
„Fjölbreytilegar listir og fjölbreytileg menning er góð eins og náttúran,“ segir Pétur. „Þú þarft fjölbreytileika í náttúrunni svo hún geti viðhaldið sér. Við teljum að það sama gildi um listir og menningu. Okkur finnst því mjög gaman að leiða saman hina ýmsu hópa allt frá því að halda viðburði þar sem börn og fjölskyldur þeirra geta komið saman og dansað, verk eftir hinsegin listafólk yfir í verk um konur á breytingaskeiðinu. Með fimm daga hátíð er hægt að fanga fjölbreytileikann og fagna honum.“
„Dansenan hefur verið brautryðjandi í að fjalla um óréttlæti og mismunun í samfélaginu,“ segir Brogan. „Þar sem konur eru yfirleitt í valdastöðu í íslenskum dansi, ólíkt annarsstaðar í Evrópu, gefur það okkur sérstöðu. Það er litið á okkar litla danssamfélag sem femínískt og framfarasinnað. Á Íslandi hafa konur og hinsegin fólk verið í meirihluta í dansstarfstéttinni. Því finnst okkur íslenska danssenan vera fullkominn vettvangur til að velta fyrir sér og rannsaka hvernig femínísk framtíð gæti litið út. Senan er keyrð áfram af konum og hinsegin fólki, og Pétri,“ bætir hún við og hlær. „Dans getur tekist á við pólitísk málefni sem erfitt getur verið að rökræða. Dansinn spyr spurninga og opnar efniviðinn og getur skilið eftir sig upplifun og hughrif tengd umfjöllunarefninu í gegnum líkamann.
Til dæmis má nefna verkið Repertório N.2 fjallar um sjálfsvörn. Dans virðist vera hinn fullkomni miðill til að takast á við jafnerfitt málefni og bakslagið í hinsegin baráttunni og er þá til betri leið en í gegnum líkamann?“
„Heimurinn er fullur af ósýnilegum hindrunum fyrir allskonar hópa og ég held að listirnar séu okkar besta verkfæri til að ávarpa og afhjúpa þessar hindranir og brjóta þær niður,“ segir Pétur. „Búa til aðgengi þar sem það er ekki til. Við þurfum að vera gagnrýnin. Hverjum er boðið í samtalið og hver fær að taka þátt í samfélaginu, listunum og dansinum?“
Dansverk um breytingaskeiðið
Þegar flett er í dagskrá hátíðarinnar er af nægu að taka því á milli fjörutíu og fimmtíu viðburðir verða í boði. Dansverkin eru um alla borg en einnig er að finna innsetningar, vinnustofur og þátttökuviðburði. Á listanum er meira að segja bíómynd. Verkið When the bleeding stops eftir Lovísu Ósk Gunnarsdóttur verður sýnt sunnudaginn 19. nóvember kl. 21:00 á stóra sviði Borgarleikhússins.
„Lovísa fór af stað með þetta ótrúlega verkefni og hún leitaði eftir konum sem væru á breytingaskeiðinu eða tíðarhvörfum,“ segir Pétur. „Hún bauð þeim að deila upplifun sinni og dansa með sér. Þetta verkefni byrjaði á netinu og fór eins og eldur í sinu um allt. Konur allst staðar að á Ísland vildu taka þátt. Úr varð þessi sýning. Lovísa segir frá upplifun sinni af því að hafa verið dansari í Íslenska dansflokknum í um tvo áratugi eða svo og átta sig síðan á því að líkami hennar að breytast. Upp koma spurningar eins og er enn pláss fyrir mig í dansinum? Hvað með allar hinar konurnar sem eru að ganga í gegnum það sama? Verkið springur út og Lovísa er búin að ná til kvenna um alla Evrópu sem taka þátt í verkefninu og koma inn í sýninguna. Hún er búin að ferðast um með verkið og er að koma aftur heim og nú mun stóra svið Borgarleikhússins fyllast af konum á breytingaskeiðinu.“
Fjölskyldan dansar saman
Viðburðurinn Baby Rave & Dance For Me með DJ Ívari Pétri verður í Iðnó laugardaginn 18. nóvember. Baby Rave er fyrir börn á öllum aldri.
„Þarna er tækifæri til að koma og skapa minningar með fjölskyldunni og vinum. Foreldrar, vinir, frændur, frænkur, ömmur og afar dansa saman í öruggu og hlýju rými og ferðast hringinn í kringum heiminn í gegnum danstónlist,“ segir Brogan. „Við höfum tekið eftir að á Baby Rave kenna börnin okkur að dansa. Stundum gleymum við fullorðna fólkið hvernig við eigum að dansa eða við verðum vandræðaleg á dansgólfinu. En börnin hjálpa okkur í gegnum þetta. Þau minna okkur á að það er okkur náttúrulegt að dansa og hreyfa okkur. Svo er frítt á þennan viðburð þannig hann er aðgengilegur bókstaflega öllum.“
Sögulegt verk í minningu Jóhanns Jóhannssonar
Erna Ómarsdóttir og Jóhann Jóhannsson heitinn frumfluttu verkið IBM 1401 – A User’s manual árið 2002. Nú hefur Erna endurunnið verkið og heiðrar minningu kærs samstarfsmanns og vinar og sýnir í Tjarnarbíói laugardaginn 18. nóvember.
„Erna og Jóhann höfðu verið í viðræðum um að endursýna verkið um það leyti sem Jóhann lést,“ útskýrir Pétur.
„Allir dansarar stúdera þetta verk,“ bætir Brogan við. „Þetta er klassík og í raun endurgerð af cult klassík. Við höfum hitt fólk allstaðar að úr heiminum sem hefur séð þetta verk og þetta er þeirra kynni af íslenskum dansi. Þetta verk er því sögulegt.“
„Verkið vakti innblástur í tvo áratugi eftir að það var sýnt,“ heldur Pétur áfram. „Það er alltaf hægt að finna Ernu Ómars í íslenskum dansi. Jafnvel þó svo að fólk sé að vinna í andstöðu við það sem hún gerir hefur hún áhrif á íslenskan dans, enda er hún listrænn stjórnandi íslenska dansflokksins.“
Framtíð íslenska dansins
Pétur og Brogan eru sammála um að dans sé einkar mikilvægur í íslenskri menningu. En hvernig sjá þau fyrir sér framtíð íslensku danssenunnar?
„Þrátt fyrir lítið fjármagn er íslenskur dans vel metinn og þekktur erlendis,“ segir Brogan. „Á hátíðina í ár koma þrjátíu erlendir fulltrúar til að sjá hvað við höfum uppá að bjóða. Svo framtíð íslenska dansins er björt ef fjármagnið fylgir. Við sjáum fjármagnsleysið sem femínískt vandamál því eins og áður sagði er stærstur hluti starfstéttarinnar konur og hinsegin einstaklingar.“
„Íslenskur dans hefur aldrei verið sterkari,“ tekur Pétur undir. „Íslenska danssenan hefur blómstrað og vaxið. Eiginlega farið fram úr sér. Það sem hefur vantað vegna þess hve hratt dansinn hefur vaxið er að innviðir eru ekki til staðar. Það er til dæmis ekkert danshús á Íslandi. Dans er ekki styrktur til jafns við leikhús eða tónlist. Jafnvel ekki metinn af sömu verðleikum sem er eitthvað sem verður að breytast. Stjórnvöld verða að bregðast við og byggja upp innviðin fyrir íslenskan atvinnudans til framtíðar, með framtíðarsýn, femíníska framtíðarsýn,“ segir Pétur að lokum en frekari upplýsingar um hátíðina má finna á https://www.reykjavikdancefestival.com/
Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.