Maður fólksins!

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, er fæddur 1967. Eiginkona hans er María Björk Óskarsdóttir og eiga þau saman fjögur börn. Þau eignuðust þrjár dætur og svo eitt örverpi þegar þegar þau voru orðin 45 ára. Þau eru því enn að með barn í grunnskóla sem hjálpar bæjarstjóranum enn frekar að fylgjast með skólamálum í bænum. Þór á bæði handbolta- og fótboltaferil að baki sem kemur sér bæði vel og illa fyrir hann í dag. Kosturinn er að í gegnum íþróttirnar græddi hann mikið tengslanet sem nýtist honum vel. Ókosturinn er að hann hefur líklega ekki gætt nægilega vel að því að hita vel upp fyrir æfingar og leiki og teygja vel á eftir og situr nú uppi með afleiðingar þess. En þökk sé læknavísindunum er nú hægt að ráða bót á þeim vanda.

Vissi nokkurn veginn að hverju hann gekk 

Þór og Áslaug Arna á vinnudegi á Seltjarnarnesi.

Faðir Þórs, Sigurgeir Sigurðsson, sat í bæjarstjórn Seltjarnarnessbæjar í 40 ár, fyrst sem sveitarstjóri og síðar bæjarstjóri í 28 ár. Þór kom því ekki alveg blankur að starfi bæjarstjóra því hann fylgdist með starfi föður síns. ,,Sléttum 20 árum eftir að pabbi stóð upp úr þessum stól settist ég í hann,“ segir Þór stoltur yfir að geta haldið góðu starfi föður síns áfram. Stíll Þórs er þó talsvert ólíkur stíl föður hans sem Þór segir að hafi verið af gamla skólanum, til dæmis hvað varðaði vinnutíma því hann hafi í raun alltaf verið í vinnunni. Svo hafi hann verið ,,jakkafatakarl“ sem Þór vill helst ekki vera. Þór byrjaði bæjarstjóraferil sinn með trukki og ætlaði sannarlega að standa sig vel fyrir bæjarfélag sitt. Hann sá þó fljótlega að  leiðin til að ná árangri var ekki að vera alltaf í vinnunni og mæta á alla fundi og uppákomur.

Einn innfæddasti Seltirningurinn

Þór hefur alla ævi búið á Seltjarnarnesi, sótt þar skóla og alið börnin sín þar upp. Í gegnum eigin skólagöngu og barnanna sinna, fyrir

Myndin var tekin í Feneyjum síðastliðið sumar , Arna Björk (23) er fremst, þá Daníel Þór (13), Sara Bryndís (25) og lengst til vinstri er Marta Sif (16). Foreldrarnir Þór og María Björk standa fyrir aftan.

utan þátttöku í íþróttalífinu, var Þór því vel tengdur í bæjarfélaginu. Hann ákvað að í kosningabaráttunni skyldi hann nálgast sem flesta bæjarbúa að fyrra bragði. Það gerði hann til dæmis merð því að banka upp á í 80% húsa í bænum og kynnti framboð sitt stuttlega. Ef fólk var ekki heima setti hann miða inn um lúguna með boði um að það hefði samband. Á þann hátt bar hann sjálfan sig á borð eins og hann kom fyrir því þannig bæjarstjóri vildi hann vera. ,,Ég vildi umfram allt að bæjarbúar vissu að ég var ekki að reyna að vera einhver annar en ég var.“

Þór vann síðan sigur í prófkjöri sjálfstæðismanna og flokkurinn vann svo sigur í bæjarstjórnarkosningunum sem haldnar voru 2022 og tók hann  við starfi bæjarstjóra í júní sama ár. Kjörtímabilið er fjögur ár og Þór fer ágætlega af stað. Hann gekk svo langt að setja farsímanúmer sitt í bæjarblaðið sem hann segir að hafi ekki verið misnotað.

Fyrst og fremst þjónustustarf

Hundurinn Vaskur er 15 ára 23. en Sigurgeir, faðir Þórs, átti hann. Þór og María Björk tóku við Vaski þegar Sigurgeir lést 2017.

Þór hefur lengst af starfað við sölu – og markaðsstörf, mikið við vátryggingar fyrirtækja og einstaklinga. Síðustu ár gegndi hann starfi sölu- og verkefnastjóra hjá Rými. ,,Þetta var mjög skemmtilegur tími og ég bý sannarlega að reynslunni frá fyrri störfum í núverandi starfi. Ég fann út að mjög stór hluti þjónustustarfa er tengslanetið sem maður býr yfir og það er ekkert öðruvísi í þjónustustarfinu sem ég gegni núna. Ég þrífst á að kynnast nýju fólki og ég náði tökum á feimni á sínum tíma með því að taka ákvörðun um að hafa gaman af lífinu. Húmorinn er leiðarstefið sem ég valdi mér í lífinu,“ segir Þór og bætir við að það sé nefnilega ákvörðun sem maður geti tekið að vera jákvæður.

,,Það vita allir að bæjarfélögin allt í kringum landið eru að berjast við að halda þjónustustigi uppi því skúffur eru víðast hvar tómar. Það er búið að vera heljarinnar átak að halda þjónustunni uppi en ég er líka stoltur af starfsfólkinu og bæjarbúum sem eru tilbúnir til þátttöku. Ég hef höfðað til fólks að bíða ekki eftir að bærinn fjarlægi ruslið af götunni heldur eigi hver og einn að leggja sitt af mörkum til að halda bænum fallegum og flestir hafa brugðist mjög vel við þessu kalli,“ segir Þór stoltur.

Sveit í borg

Vegna starfa sinna í bæjarfélaginu og þátttöku í íþróttalífinu þekkir Þór nú nánast 80% íbúanna nánast með nafni. ,,Það var svo heppilegt í gamla daga þegar maður var of seinn að sækja börnin  í leikskólann hafði ég úr tíu manns að velja sem ég gat hringt í til að redda mér. Svo gat ég reddað þeim á móti með því að sækja þeirra börn ef á þurfti að halda. Við hjálpumst að á Seltjarnarnesinu.“

Mygla í skólahúsnæði og mjaðmakúluskipti

Þessi mynd var tekin þegar að Sara Bryndís, elsta, útskrifaðist úr meistaranámi sínu í lögfræði frá HÍ sl. sumar. Frá vinstri: Þór, Sara Bryndís, María Björk, Daníel Þór, Marta Sif og Arna Björk.

Segja má að örlögin hafi tekið í taumana í lífi Þórs því þegar hann tók við sem bæjarstjóri átti hann von á krefjandi starfi en ekki uppákomunum sem settu strik í reikninginn og enginn gat séð fyrir. Sú vinna bættist bara ofan á annars fullan vinnudag. Síðastliðið sumar kom upp mygla í skólahúsnæði bæjarins, bæði í Mýrarhúsaskóla sem var byggður á milli 1940 og 1950 og Valhúsaskóla sem var byggður 1974. ,,Vegna þessarar myglu fóru í hönd gríðarlega umfangsmiklar viðgerðir jafnframt því sem við þurftum að kenna í heilu hlutum húsanna,“ segir Þór. ,,Þetta útheimti mikla  skipulagsvinnu og sama tíma var verið að skipta um tvo sviðsstjóra hjá Seltjarnarnesbæ. Ég var þess vegna bæði sviðsstjóralaus á framkvæmdasviði og fjármálastjóralaus þegar mest gekk á í 2-3 mánuði ofan á aðra vinnu. Það hefur gengið farsællega að leysa mygluverkefnið því auðvitað var gríðarlega mikilvægt að þær framkvæmdir gengju hratt og vel fyrir sig. Þar naut ég þess að hafa gífurlega hæft starfsfólk Seltjarnarnesbæjar með mér en þau bera marga hatta hvert um sig,“ segir Þór.

Fyrir fimm árum fór Þór svo að finna fyrir verk í mjöðm og læknar sögðu honum að komið væri að mjaðmakúluskiptum í líkama hans.

Blóðþrýstingurinn upp úr öllu valdi

Þór við pallasmíði í sveitasælunni.

Þegar mest gekk á í vinnunni í fyrra var svo mikið að gera hjá bæjarstjóranum að einn daginn þurfti hann að keyra út í kant á leiðinni heim og jafna sig því hann var með svo mikinn höfuðverk. ,,Ég dreif mig upp á heilsugæslu við fyrsta tækifæri og lét mæla mig og var ekki sleppt út fyrr en ég var búinn að samþykkja að fara á blóðþrýstingslyf. Afleiðingarnar af háum blóðþrýstingi eru þannig að mann langar ekki að taka þá áhættu,“ segir Þór ákveðinn. ,,Skömmu síðar var haft samband við mig og mér boðið að koma í mjaðmaaðgerðina. Ég var svo heppinn komast framar á listann því þeir sem voru á undan mér vildu ekki þiggja aðgerðina rétt fyrir jól,“ segir Þór og hlær. ,,Ég gat því notað tímann og slakað almennilega á yfir jólin þar sem ég átti helst að halda kyrru fyrir. Ég var þarna rækilega minntur á að við eigum bara eitt líf og einn líkama og eins gott að hugsa vel um hann. Nú veit ég að enginn er ómissandi og algerlega nauðsynlegt að deila verkefnum. Á bæjarskrifstofunni starfa 14 manns þar sem er valinn maður í hverju rúmi. Nú er ég í endurhæfingu og bíð eftir að geta byrjað aftur í ræktinni,“ segir Þór og brosir og nýtir nú gott starfsfólk til að taka boltann ef nauðsyn krefur. ,,Svo erum við fjölskyldan svo heppin að eiga sumarhús í Kjósinni  og þangað er mikil heilun að fara og slaka á.“

Flýtti sér út á vinnumarkaðinn

Þór segist hafa tekið tíma í að klára stúdentinn því íþróttirnar og félagslífið hafi fengið sitt pláss. En eftir að því takmarki hafi verið náð settist hann í stjórnmálafræði í Háskólanum. ,,Ég hætti þar eftir eitt ár en var þá komin með fjölskyldu og skuldbindingar. Þá fór ég út á vinnumarkaðinn, starfaði fyrst í sundlauginni og fór svo til Íslensk-ameríska og þaðan í tryggingabransann. Það hefur verið ákveðin  sölu- og þjónustuhlið á mér alla tíð. Ég hafði ógurlega gaman af keppninni í íþróttunum og síðan tók við keppnin í sölumennskunni.“

Þór segist njóta þess að vera öðruvísi bæjarstjóri en aðrir embættismenn. Hann byrjaði til dæmis á að lækka launin sín þegar hann tók við og honum þykir líka undarlegt að klæðast eins og hann sé að fara á árshátíð þegar hann mætir til vinnu. ,,Þá væri ég ekki að vera ég sjálfur,“ segir hann. ,,Þegar ég er búinn að vera of lengi á skrifstofunni fer ég út á Eiðistorg og hitti þar skemmtilegt fólk. Fyrir mig er það eins og að fá ferskt loft og ég nýt þess að vera í nánum tengslum við fólkið í bænum,“ segir Þór.

Mikil uppbygging í Gróttubyggð

Seltjarnarnesbær telur nú 4800 íbúa en Þór segir að bærinn sé að fá um 600 nýja íbúa í byggð sem er verið að reisa úti í Gróttu. ,,Þar mun ungt fólk setjast að og þá vantar leikskólapláss. Til þess að fjármagna þá uppbyggingu ætlar bærinn að selja húsnæði  hjúkrunarheimilisins Seltjarnar. Fjármunir sem þaðan koma munu létta á allri uppbyggingu innviða.“

Bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar skemmtir sér vel í vinnunni og lítur björtum augum til framtíðar og segir að Seltjarnarnes sé góður staður að búa

Sólsetur í Kjósinni.

á. ,,Ég hef núna reynsluna af því þegar ofan á vinnudaginn bætast óvænt vandamál sem þarf að leysa. Svo nú held ég ótrauður áfram með jákvæðnina og bjartsýnina að vopni og þá leysast yfirleitt flest mál,“ segir bæjarstjórinn brosandi og hefur sannarlega gaman af því að taka starf bæjarstjóra í nýjar áttir.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 2, 2024 07:00