„Við viljum að aldraðir hafi meira val þegar kemur að heimahlynningu. Það er þörf á nýjum áherslum og fjölbreyttari þjónustu fyrir aldraða,“ segir Hallfríður Eysteinsdóttir hjúkrunarfræðingur en hún og dóttir hennar Fríða Hermannsdóttir hafa stofnað fyrirtækið Farsæld sem býður upp á þjónustu við aldrað fólk sem býr heima.
Ölduðum fjölgar
Samkvæmt mannfjöldaspám á öldruðum eftir að fjölga hratt á næstu árum og áratugum og það þarf að sinna þessu fólki. Mæðgurnar hafa mikinn áhuga á öldrunarmálum. Sú eldri, Hallfríður hefur unnið á hjúkrunar- og heilbrigðisstofnunum í 37 ár en sú yngri Fríða, útskrifaðist í vor sem hjúkrunarfræðingur en leggur nú stund á mastersnám í norrænum öldrunarfræðum.
Einstaklingsmiðuð þjónusta
Þær mæðgur ætla að bjóða upp á þjónustu sem sniðin verður að þörfrum hvers og eins. Mæðgurnar hafa í hyggju að veita einstaklingsmiðaða, heildræna faglega og persónulega þjónustu. „Aldraðir hafa þörf fyrir margskonar þjónustu og það þarf að gefa hverjum og einum tíma. Auk þess að veita hefðbundna hjúkrunarþjónustu bjóðum við fólki upp á margskonar aðstoð við daglegt líf ráðgjöf, stuðning og félagsskap,“ segir Hallfríður.
Hver heimsókn frá Farsæld, sem staðsett er í Grafarvogi, kostar 4000 krónur á dagvinnutíma en er dýrari á kvöldin og um helgar.