Með fiðrildi í maganum

Ásdís Guðmundsdóttir er ein þeirra sem tekur breytingum fagnandi og hikar ekki sjái hún tækifæri bjóðast. Sjálf segir hún að það borgi sig stundum að vera hvatvís en það orð á ekki alveg við í hennar tilfelli. Hún hugsar sig nefnilega um áður en hún stekkur og undirbýr lendinguna. Það gerði hún líka þegar hún stofnaði Fiðrildaferðir og ef í þér býr löngun til að upplifa ævintýri, kynnast framandi menningu og njóta þess að ferðast í litlum hópi er þessi nýja ferðaskrifstofa eitthvað fyrir þig.

Ásdís á Indlandi.

Líklega myndu margir segja að sjötugsaldurinn væri ágætur tími til að vinda ofan af erlinum sem einkennir líf vinnandi fólks og taka til við að spila golf eða bridge eftir atvikum. Þess í stað stofnar þú ferðaskrifstofu. Hvað kom til?

„Undanfarin áratug hef ég unnið hjá Vinnumálastofnun og sinnt þar frumkvöðlum sem eru að byggja upp fyrirtæki byggt á viðskiptahugmynd. Hins vegar hef ég lengi verið með í maganum þá hugmynd að stofna ferðaskrifstofu. Ég fór til Indlands árið 2017 á ráðstefnu og tók dóttur mína með. Við fórum á matreiðslunámskeið að henni lokinni og kynntumst þessari dásamlegu konu, Jenný og við urðum vinkonur. Árið eftir stofnaði hún ferðaskrifstofu og spurði mig hvort ég vildi ekki koma með fólk til Indlands og ég svaraði auðvitað, jú. Ég fór með hóp, vini mína og vini vina rétt fyrir Covid árið 2020.

Ég er lærður svæðisleiðsögumaður og hafði ári fyrr skipulagt ferð bandarískra kvenna hingað til lands í samstarfi við félaga minn fyrir vestan sem á og rekur ferðaskrifstofu. Við settum upp mjög skemmtilega ferð um landið og þá kynnist ég henni Maliu sem er með ferðaskrifstofu á Hawaii. Þegar heimsfaraldurinn skall svo á og maður var alveg að gefast upp á Covid  hugsaði ég með mér: Ég verð að gera eitthvað skemmtilegt núna og varð hugsað til hennar, hafði samband og spurði hvort við ættum ekki að skipuleggja ferð Íslendinga til Hawaii og það gerðum við,“ segir hún.

Vildi nýta sér þekkingu sína og góð tengsl

„Þetta gerði ég bara persónulega fyrir sjálfa mig vini og kunningja,“ heldur hún áfram. „Systir mín og mágur komu með mér og vinkonur mínar. En það gilda mjög ströng lög og reglur um starfsemi ferðaskrifstofa og maður má í raun ekki skipuleggja ferðir án þess að hafa leyfi, eins og vera ber. Mér fannst þetta hins vegar gefandi og skemmtilegt og velti þess vegna fyrir mér hvort það væri ekki þess virði að vinna meira með þetta og nýta þau tengsl og þekkingu sem ég hafði aflað mér. Úr varð að ég stofnaði fyrirtæki og sótti um leyfi og áður en hendi var veifað var ég bara komin með ferðaskrifstofu. Ég hélt að þetta væri meira mál en þegar maður er búinn að stofna ferðaskrifstofu byrjar auðvitað alvara lífsins þá þarf að hugsa um markaðsmálin, bókhaldið og annað utanumhald. Þetta hefur verið eins og að vera í námi. Upp kemur eitthvað verkefni sem þarf að leysa og maður hugsar: Úps hvernig geri ég þetta og svo er að finna út úr því.“

Á ferð um Mexíkó.

Heilluð af framandi slóðum

Og Ásdís er búin að finna út úr ansi mörgu og púsla saman hinu og þessu. Framundan eru tvær ævintýraferðir. Sú fyrsta til Kirgistan í ágúst og önnur til Mexíkó í október. Þar fyrir utan hyggst hún bjóða fólki upp á ferðir til Suður-Indlands og Norður-Indlands, Costa Rica, Perú og hetjuferðir á Hornstrandir. Hver er sérstaða Fiðrildaferða?

„Jah, þegar ég fór að hugsa þetta að einhverri alvöru vissi ég að ansi margir eru að reka ferðaskrifstofur og ég vildi skera mig úr. Þá horfði ég til Maliu vinkonu minnar á Hawaii. Útgangspunktur hennar ferða er einmitt samfélagsmiðuð ferðaþjónusta. Ef maður gúgglar CBT þá fær maður góða skilgreiningu á þeirri heildarhugmynd sem þar liggur að baki. Þetta er ákveðin aðferð sem byggir á þátttöku í samfélaginu, upplifun með heimafólki og að skilja eftir arð hjá því. Í stað þess að skipta við hótelkeðjur á borð við Hilton kaupir þú gistingu af heimafólki. Að virða samfélagið og skilja eftir verðmæti þar er mjög mikilvægur útgangspunktur. Að upplifa eitthvað sérstakt með heimafólki er einnig mikils virði og er einmitt hluti af þessu umbreytingarferli. Auðvitað verða menn alltaf ferðamenn í landinu en með þessu móti er hægt að skilja meira eftir í því samfélagi sem þú heimsækir og þar með efla það.

Alls staðar er hægt að eignast nýja vini.

Við fáum einnig fræðslu og upplifun frá heimafólki í mínum ferðum. Ferðin til Hawaii var til að mynda mögnuð vegna þess að við fengum að tala við fólk sem almennir ferðamenn hafa ekki aðgang að og geta ekki nálgast. Það var í gegnum þessi tengsl sem ég hafði myndað og þau eru mjög verðmæt í þessu. Í sjálfu sér geta allir skipulagt ferð eitthvert og legið á strönd og drukkið kokteila, það er ágætt ef það er sú upplifun sem þú sækist eftir. Sumir vilja meira og þá vil ég gefa fólki tækifæri til að reyna eitthvað annað. Einkunnarorðin eru upplifun, umbreyting og umhyggja. Sá sem ferðast með okkur upplifir eitthvað sérstakt og ferðalög eru umbreyting í sjálfu sér eða eiga að vera það í mínum huga. Það fer enginn til Indlands og kemur samur maður til baka. Þannig er það. Þar er allt annað samfélag og allt önnur menning. Umhyggjan snýst svo auðvitað um ferðamanninn en líka fólkið á áfangastaðnum, umhverfið og þann menningarauð sem þar er að finna. Þetta eru gildin sem  við erum að vinna með.

Í þessar samfélagsmiðuðu ferðaþjónustu erum við með það markmið bjóða ferðamanninum að sjá og upplifa landið frá fyrstu hendi eins framarlega og það er unnt. Það er hægt að velja að fara út á akurinn og vinna með fólkinu, fara í heimsókn í heimahús sem mér finnst alltaf ótrúlega spennandi og við fáum fyrirlesara úr hópi heimamanna til að fræðast. Að kynnast því hvernig fólk býr er líka ótrúlega upplýsandi. Það eru ekki allir sem hafa aðgang að slíku ekki síst vegna þess að íbúar víða eru að gefast upp á ferðaþjónustunni. Ferðamennirnir eru farnir að taka allt yfir og heimamenn upplifa sig utangarðs í eigin landi. Auðvitað hafa þeir svo tekjur af túrismanum og þá skapast togstreita. Spurningin er alltaf hvernig getur maður gefið fólki færi á að ferðast í eins mikilli sátt við áfangastaðinn og framast er unnt.“

Indland er fjölbreytilegt og fallegt land og Ásdís segir að enginn sé samur eftir ferðalag þangað.

Í litlum hópi skapast náin tengsl

Ásdís hefur sjálf ferðast mjög víða og oft utan alfaraleiða og iðulega verið ein á ferð. Nú færist stöðugt í vöxt að fólk kjósi að ferðast eitt um heiminn fremur en í pörum eða sem hluti af fjölskyldu. Er það eitthvað sem þið horfið til?

„Já, alveg klárlega, okkar hópar eru litlir, frá 10 til 14 manns. Í Indlandsferðum er til að mynda hámark tíu manns í hverjum hópi. Það er hluti af þessari umhyggju. Ef fólk kýs að ferðast eitt, þá er það velkomið og við gerum okkar besta til að láta fólki líða vel, en ég og mínir samstarfsaðilar brennum fyrir því að fólk upplifi eins og kostur er. Mér finnst sjálfri ótrúlega spennandi að ferðast til áfangastaða sem ekki eru í alfaraleið. Heimurinn er að opnast meira og meira og það er vissulega hægt að skipuleggja sínar ferðir upp á eigin spýtur. Ég fór til að mynda ein til Mexíkó og til Panama en það hefur líka sína kosti að vera með öðrum í hópi. Í dag myndi ég skoða hvað ég fæ út úr að ferðast þannig í samanburði við að fara í ferð sem búið er að sérsníða fyrir mig. Til dæmis má nefna hvar á maður að fara út að borða og hvað á að borða? Jenny á Indlandi er með það alveg á hreinu, hún velur matinn fyrir okkur af kostgæfni, við borðuðum þetta í gær og þá er tímabært að smakka þetta í dag. Þannig fær maður tækifæri til að upplifa meira, í staðinn fyrir að panta alltaf sama matinn.

Þetta er mjög skemmtilegt og skapandi starf að skipuleggja og setja saman svona ferðir. Markhópur Fiðrildaferða er fólk fimmtugt og eldra og horfum ekki síst til þeirra sem einir á ferð. Hér á landi hefur ekki margt verið í boði fyrir þennan hóp en við bjóðum þeim að skrá sig hjá okkur og finnum síðan ferð við hæfi. Fólk kynnist oft mjög vel í svona litlum hópum og í Indlandsferðinni völdu til að mynda tvær konur sem ekki þekktust áður að vera saman í herbergi og fengu hagstæðara verð af þeim sökum. Það gekk mjög vel og báðar voru ánægðar.“

Með Jenný á Indlandi. Taj Mahal í baksýn.

Hoppaði út í laugina

Ásdís er upphaflega menntuð í félagsfræði og var lengi í forsvari fyrir verkalýðsfélög á Sauðárkróki.

„Ég var upphaflega starfsmaður Verkalýðsfélagins Fram en gerðist svo formaður Verkakvennafélagsins Öldunnar sem var og hét,“ segir hún. „Aldan átti sér merka sögu, félagið var stofnað árið 1930 en þá var nauðsynlegt fyrir konur að berjast fyrir sínum réttindum sér því launamunur var mikill. Þegar það tók að breytast minnkaði sú þörf og þá var rétt skref að sameinast verklýðsfélaginu Fram til að fá meiri slagkraft. Ég tók svo ákvörðun eftir þrjátíu ára búsetu á Sauðárkróki að fara í framhaldsnám í stjórnun í Barcelona. Að námi loknu kom ég heim og settist að á Sauðárkróki, vann sem félagsfræðikennari og náms- og starfsráðgjafi, byrjaði á vinna við kennslu en fékk svo gefandi og skemmtilegt starf hjá Vinnumálastofnun.“

Það er vissulega stórt skref að stofna fyrirtæki og margir myndu áreiðanlega hika áður en þeir tækju slíka ákvörðun. Fannst þú fyrir ótta?

„Það er þessi tilfinning þegar maður hoppar út í einhverja laug sem maður hefur ekki synt í áður og veit ekki hversu djúp hún er, það er hægt að segja að ég hafi haft fiðrildi í maganum. En stundum er gott að vera hvatvís. Við erum alltaf að taka ákvarðanir og það eru engin mistök til, það eru engar rangar ákvarðanir þannig séð. Sumar ákvarðanir leiða til góðra hluta en aðrar verða góðar lexíur að læra,“ segir Ásdís að lokum og hlær við.

Hún hvetur lesendur til að skoða vel ferðir sem í boði eru hjá Fiðrildaferðum og mun taka vel á móti nýjum farþegum. Enn er opið fyrir skráningar til Mexíkó en það verður enginn svikinn af því að upplifa það sem þar verður í boði en það má skoða nánar á heimasíðu Fiðrildaferða, www.fidrildi.is

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 21, 2025 07:00