Með heilsuna í huga

Hvað telja má æðstu og bestu lífsgæði er vafalaust einstaklingsbundið en góð heilsa myndi örugglega lenda ofarlega á lista flestra. Mönnum gengur hins vegar misjafnlega að viðhalda henni þótt flestir viti orðið hvað þarf til að byggja upp og halda orku og hreysti langt fram eftir aldri.

Hreyfing er undirstaða góðrar heilsu og talið er að því fjölbreyttari sem hún er því betri árangur. Að auki eykur margbreytileikinn líkur á því að áhugi manna á hreyfingunni haldist og fólk haldi áfram að stunda hana varanlega og gott er að ljúka æfingum ævinlega með slökun og teygjuæfingum.

Minni kvíði og áhyggjur

Hreyfing vinnur gegn streitu og vanlíðan. Vellíðunarboðefnin sem líkaminn losar við áreynslu vinna gegn áhrifum streituhormóna og meðan fólk hreyfir sig á það erfitt með að dvelja í huganum við eitthvað annað eins og t.d. fjárhagsáhyggjur. Rannsóknir hafa einnig sýnt að hreyfing dregur úr stoðkerfisverkjum og styrkir ónæmiskerfið. Aukinn styrkur og liðleiki eflir svo sjálfstraust því fólk fer að treysta sér betur til að takast á við dagleg verkefni og krefjandi aðstæður.

Það er ljóst að með reglulegri hreyfingu og hollu mataræði getur hver og einn haft mikil áhrif á heilsu sína, bæði líkamlega og andlega. Heilsurækt og styrking líkamans er góð meðferð fyrir sjúklinga ekki síður en forvörn fyrir heilbrigt fólk. Hver og einn einstaklingur ætti að vera meðvitaður um hversu mikið hann hefur sjálfur að segja um eigin heilsu.

Ávextir og grænmeti fyrir andann

Ávextir og grænmeti eru undirstaða heilsusamlegs fæðuvals. Margt hefur verið rætt og ritað um hversu hollt er að borða fimm skammta af slíku á dag. Jafnan er talinn upp líkamlegur ávinningur af slíku en ávextir og grænmeti hafa ekki síður áhrif á andlega heilsu og vísindamenn segja að aðeins þurfi að auka neysluna í um það bil tvær vikur til að finna verulegan mun á andlegri líðan.

Dr. Tamlin Conner, við sálfræðideild Otago-háskóla á Nýja-Sjálandi leiddi rannsóknina. Hún og samstarfsmenn hennar skiptu stórum hópi ungmenna upp í tvo hópa og gáfu öðrum hópnum tvo aukaskammta af ávöxtum og grænmeti dag hvern en hinir borðuðu eins og þeir voru vanir. Hópurinn sem fékk meira af grænu fæðunni fann fyrir auknum krafti, meiri lífsgleði og aukinni hvöt til að vinna og standa sig vel. Þetta var einnig mælanlegt í afköstum og árangri þeirra í námi og starfi.

Fleiri rannsóknir styðja niðurstöður Dr. Tamlin. Meðal annarra má nefna rannsókn sem gerð í Bandaríkjunum en þar tóku 171 háskólastúdent þátt á aldrinum 18-25 ára. Allar niðurstöður bentu í sömu átt, nefnilega að þeir sem borðuðu meira af ávöxtum og grænmeti voru bjartsýnni, léttlyndari og kraftmeiri. Í byrjun og enda rannsóknarinnar gengust þátttakendur undir sálfræðipróf til að meta lífskraft þeirra og hvöt til vinnu. Einnig var leitað að merkjum um þunglyndi og kvíða. Eftir tvær vikur voru þeir prófaðir að nýju og þeir sem borðuðu meira af grænmeti og ávöxtum sýndu mælanlega betri líðan en áður. Þetta var sérstaklega áberandi meðal þeirra sem sýnt höfðu merki um kvíða og þunglyndi.

Langtíma áhrif óljós

Langvarandi áhrif mataræðis á andlega líðan hafa ekki verið mæld en þessar niðurstöður benda til þess að hollari matarvenjur geti hjálpað þeim sem takast á við andleg vandamál. Þörf er á frekari rannsóknum til að staðfesta að þetta skipti sköpum til langs tíma litið en í ljósi þess að hollur matur er góður fyrir líkamann getur ekki sakað að reyna að bæta einnig andlegu hliðina með hjálp hans.

Margir kvarta undan að óljóst sé hve mikið menn eigi að borða af grænmeti og ávöxtum. Er til að mynda eitt lítið epli einn skammtur eða þarf það að vera meðalstórt? Þeir sem velta þessu fyrir sér ættu þess vegna bara að taka annað epli og borða það líka því það gerir eingöngu gott. Sumir miða við bolla og borða tvo slíka fulla af ávöxtum á dag og þrjá af grænmeti, soðnu eða hráu.

Kynlíf bætir og kætir

Einn hluti þess að lifa heilbrigðu lífi er að rækta náin samskipti. Ótal rannsóknir sýna að lífsgæði þeirra sem eru í sambúð eða hjónabandi eru almennt meiri en hinna. Þeir halda einnig betri heilsu lengur fram eftir ævinni. Einn hluti þess að skapa nánd í parasambandi er kynlíf. Það veitir ánægju, gefur fólki færi á að fjölga sér óski það þess og styrkir ónæmiskerfið.

Immunoglobulin A er þáttur í ónæmiskerfinu sem leikur stórt hlutverk í að halda slímhúð heilbrigðri. Þeir sem stunda kynlíf tvisvar í viku hafa mun meira af þessu efni í blóði og munnvatni en hinir sem gera það sjaldnar. Þetta efni vinnur gegn sýkingum í kynfærum, munnholi, nefi og annars staðar þar sem slímhúð er og myndar m.a. góða vörn gegn kvefi.

Hjartsláttur eykst við kynferðislega örvun og nær hámarki við fullnægingu. Þetta hefur sömu áhrif og góð líkamsrækt en um leið losar líkaminn vellíðunarboðefni sem slaka á vöðvum, léttir sársauka, lækkar blóðþrýsing og bætir svefninn. Kynlíf er einnig mjög góð leið til að létta á streitu og minnka streituhormón í líkamanum og nokkrar rannsóknir hafa sýnt að það bætir minni, einkum hjá konum. Ástæðan er líklega sú að með aukinni slökun og betri svefni batnar einbeitingarhæfni flestra.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 19, 2025 07:00