Tengdar greinar

Með ótal sögur í kollinum

Þóra Sveinsdóttir vann lengst af sem ráðgjafi og verkefnastjóri hjá dk hugbúnaði. Hún var þar í fríðum og stórum hópi kvenna sem allar höfðu mikla þekkingu á viðskiptahugbúnaði. Eftir að hún hætti að vinna úti gafst tími til að setjast niður og láta gamlan draum rætast, nefnilega að skrifa bók. Þóra bættist þar með í stóran hóp höfunda sem eiga bækur í jólabókaflóðinu í ár en bók hennar SJÚK hefur ekki farið mjög hátt en um er að ræða athyglisverða glæpasögu sem meðal annars byggir á umdeildri kenningu hvernig persónueinkenni erfast.

SJÚK er svokallaður sálfræðitryllir og er fyrsta bók höfundar.

En fyrst af öllu hvað varð til þess að þú fórst að skrifa bók?

„Mig hefur lengi langað að skrifa bók, hef alltaf haft mikið hugmyndaflug og fundist gaman að setja hugsanirnar á blað,“ segir hún. „Hins vegar fann ég aldrei tíma til þess, börnin, vinnan, lífið. Auk þess höfðum við ekki efni á að annað okkar væri nánast launalaus rithöfundur. Það varð að gefa börnunum að borða. Ég náði þó að senda inn þrjár greinar sem hafa birst í fjölmiðlum, en þær eru: „Gatið í orðasafninu“, „Eru konur kannski menn“ og „Hvor er meiri maður“. Önnur skrif hafa lent ofan í skúffu eða sitja á harða diskinum.

Eftir að ég hætti í 9-5 vinnunni hafði ég allt í einu nóg af lausum tíma. Af einskærri umhyggjusemi og jákvæðni sem einkennir yngri son minn byrjaði hann um sama leyti að hvetja mig til að skrifa. Þeir sem þekkja til vita að hann er mesti pepp-upp gaur sem finnst og ég var líka farin að vakna ókristilega snemma svo ég settist niður og byrjaði á að skrifa barnabók. Vinnutíminn breyttist í 5-9. Þegar textinn var tilbúinn og sálfræðimenntaði sonurinn hafði hrósað skrifunum í hástert, ákvað ég samt að gefa hana ekki út. Ástæðurnar voru tvær. Annars vegar fannst okkur hjónum vera flóð af barnabókum á markaðnum og svo fara þær bækur síður á erlendan markað.

Ég var með nokkrar hugmyndir að bókum. Glæpasaga var ein af þeim. Mig langaði líka að skrifa um persónuleikakenninguna sem ég er búin að ganga með í maganum frá því ég heyrði hana fyrst fyrir um 30 árum síðan. Eiginmaðurinn er vellesinn og mikill áhugamaður bóka, bæði þeirra sem hann les og einnig þær sem ég les. Hann peppaðist upp við hugmyndina um að ég færi að skrifa og fylgdist með hverju skrefi við gerð bókarinnar SJÚK. Ómetanlegur, nákvæmur og vandvirkur í yfirlestri þar sem hann kom með athugasemdir ef eitthvað gat ekki gengið upp eða var vitlaust stafsett. Við ræddum mikið bókina af fullri alvöru eins og persónurnar í henni væru raunverulegar og spruttu upp hugmyndir við það. Lagatextana valdi hann í bókina ásamt kvótunum. Það að hafa kenninguna í glæpasögunni kom einnig frá honum. Ég fékk síðan gott fólk í lið með mér til að lesa yfir texta, leiðrétta, koma með athugasemdir og ritstýra.“

 

Sálfræðitryllar heilla

SJÚK er sakamálasaga, var ástæða fyrir að þú valdir það form?

„Eins og fram hefur komið langaði mig að skrifa um ákveðna hluti og glæpasaga var eitt þeirra forma sem heilluðu mig. Ég hef sjálf alltaf haft áhuga á góðum spennusögum og þá sérstaklega sálfræðitryllum og slíkum sögum og þá sérstaklega þeim sem hafa létt yfirbragð, eru fyndnar og innihalda ólíkar persónur. Gott dæmi um skemmtilega skrifaða spennusögu er Undir yfirborðinu og Það sem þernan sér eftir Freida McFadden, sálfræðitryllirinn Óboðinn gestur eftir Shari Lapena, Þögli sjúklingurinn eftirAlex Michaelides, Í meðferð eftir Sebastian Fitzek og svona gæti ég haldið áfram.

Ég tók þá ákvörðun að skrifa spennusögu og þegar eiginmaðurinn heyrði það kom hann með þá hugmynd að setja persónuleikakenninguna í söguna sem mér fannst góð hugmynd.“

Aðalpersónan er sálfræðingur en sjálf kemur þú úr hugbúnaðargeiranum. Hvers vegna valdir þú að gera aðalpersónuna að sálfræðingi?

„Þegar ég ákvað að hafa persónuleikakenninguna í bókinni kom það bara að sjálfu sér að aðalpersónan yrði að vera nýútskrifaður sálfræðingur. Veit ekki hvort það er augljóst almennt eða bara fyrir mér. Sálfræðin hefur alltaf heillað mig og hef ég óskaplega gaman af að spá í hvernig fólk er í eðli sínu. Eitthvað er um sálfræðinga í kringum mig en elsta dóttir mannsins míns er starfandi sálfræðingur, yngri sonur minn er með BA í sálfræði og hans kona er að klára BA í sálfræði. Ég tengi kenninguna við sálfræði þó svo að sálfræðingar séu seinastir til að samþykkja þessa kenningu gæti ég trúað. Að vísu heyrði ég hana hjá geðhjúkrunarfræðingi og vinkonu.

Ástæðan fyrir að ég hef starfað við hugbúnaðargeirann í yfir tuttugu ár er einfaldlega vegna þess að eftir stúdentspróf valdi ég stysta nám sem hægt var að fara í í Danmörku. Það reyndist vera kerfisfræði. Ég vann ekki við kerfisfræðina þegar ég kom heim heldur vann á stöð 2 í nokkur ár eftir útskrift. 1998 byrja ég svo í hugbúnaðargeiranum hjá TOK og síðan hjá dk 2004.

Ég skellti mér síðan í MBA nám í Háskóla Íslands 2015 með vinnu og útskrifaðist 2017. Við seldum hugbúnaðarfyrirtækið okkar sem við áttum með öðrum í nóvember 2020 og starfssamningurinn rann út fyrir tveimur árum. Þá var ég búin að vinna í hugbúnaðargeiranum í tuttugu og fjögur ár. Við hjónin erum með nokkur önnur járn í eldinum svo það er nóg að gera,“ segir Þóra.

Bjarki Sigurjónsson er ekki eini lesandinn sem er ánægður með bókina SJÚK. Þóra segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá lesendum.

Fleiri bækur í bígerð

Það er nokkuð algengt að konur byrji seint á ævinni að skrifa en oft eru þær mjög afkastamiklar eftir að þær fara af stað. Er von á annarri bók frá þér?

„Já vonandi. Ég er allavega byrjuð á annarri bók með sálfræðingnum Emmu en ég er líka byrjuð á tveimur öðrum þar sem önnur þeirra er dramatísk. Ætli ég verði ekki að ákveða í upphafi næsta árs hverja ég eigi að klára fyrst.“

Þótt skrifin hafi áreiðanlega tekið upp mikinn tíma að undanförnu hefur þú án efa gert ýmislegt annað meðfram. Hver eru helstu áhugamál þín?

„Fjölskyldan er stór og mér finnst ekkert eins skemmtilegt og þegar við náum að vera öll saman í bústað eða erlendis. Við höfum sameinast svona nokkrum sinnum og eru það skemmtilegustu stundirnar að mínu mati. Ég hef gaman af því að ferðast og spila golf,“ segir hún og tekur sér örlitla málhvíld og bætir svo við; „Ég er farin að hljóma eins og fegurðardrottningarnar í þessu svari.“

Þóra hlær glaðlega en hún var svo elskuleg að leyfa okkur að birta meðfylgjandi grein um persónuleikakenninguna sem hún fléttar inn í sakamálasöguna SJÚK með viðtalinu en í lok greinarinnar er persónuleikapróf sem nýtist sem leiðarvísir um hvernig persónueinkenni hafa erfst í þinni fjölskyldu svo auðvelt er að reyna áreiðanleika kenningarinnar í leiðinni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Sparsöm eins og pabbi … lífsglaður eins og mamma

Hvaðan kemur persónuleiki þinn?

Ég hef lengi velt fyrir mér hvers vegna fólk er svona ólíkt. Því er persónuleiki minn öðruvísi en þinn? Hvers vegna er einn einstaklingur alltaf kátur og hress meðan annar er niðurdreginn og dapur?

Svarið er að finna í erfðum okkar og systkinaröðinni, en þvert á kenningar sem segja að til séu ákveðnar staðalmyndir af elsta barninu, miðjubarninu og síðan því yngsta þá gengur arfgenga persónuleikakenningin út á að einstaklingurinn erfi öll einkenni frá foreldrum sínum og systkinaröðin ráði frá hvoru foreldrinu það erfi einkenni sín.

Ég veit að umhverfisþættir, eins og uppeldi, menning, félagar og skólaumhverfi, móta einstaklinginn. Hversu mikið, veit ég ekki. Fjórðungi bregður til fósturs, segir í Njálu og líklega er það nærri lagi. Það þýðir að 75% af persónuleikanum fáum við úr erfðamengi foreldra okkar og 25% frá umhverfisþáttum.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að stúdera persónuleikaeinkenni fólks. Hvaða skapgerðareinkenni það hefur, hvernig það hegðar sér og bregst við. Þegar ég heyrði fyrst um arfgengu persónuleikakenninguna hjá geðhjúkrunarfræðingi og góðri vinkonu fannst mér hún strax rökrétt.

Þegar ég byrjaði að skrifa spennubókina SJÚK sem kom út nú fyrir jólin, kom aldrei annað til greina en að láta kenninguna spila stórt hlutverk í henni. Aðalpersóna bókarinnar er sálfræðingur sem notar persónuleikakenninguna óspart í leit að morðingja fyrrum ástmanns síns.

 

Arfgenga persónuleikakenningin gengur út á að:

Elsta barn fær persónuleikaeinkenni foreldris af gagnstæðu kyni. Ef fyrsta barn er stúlka erfir hún einkenni föður en ef það er piltur erfir hann einkenni móður.

Barn númer tvö erfir persónuleikaeinkenni hins foreldrisins sama hvors kyns barnið er.

Börn þrjú, fjögur, fimm o.s.frv. verða blönduð og getur blandan verið 70/30, 50/50 o.s.frv.

Tvíburar hvort sem þeir eru eineggja eða ekki, erfa á sama hátt. Ef tvíburi A er fyrsta barn erfir hann persónuleikaeinkenni foreldis af gagnstæðu kyni og erfir þá tvíburi B hitt foreldrið. Ef þeir eru númer 3, 4, 5 o.s.frv. verða þeir blandaðir.

Ef foreldri er blanda erfir barnið annan hvorn hlutann sem þýðir að horfa verður í þeim tilfellum á næstu kynslóð fyrir ofan til að finna arfleiðina. Ef þau eru líka blanda þarf að fara enn ofar. Það er líka hægt að skoða tvö elstu systkini foreldranna til að sjá hvaðan einkennin koma.

Þættir eins og viljinn til að líkjast öðru foreldrinu eða óttinn við að líkjast hinu geta brenglað mat einstaklingsins á sjálfum sér. Til að átta sig betur á hvað verið er að tala um þarf að vita hvað fellur undir persónuleikaeinkenni og skapgerðareinkenni.

Dæmi um persónuleikaeinkenni eru: víðsýni, samviskusemi, úthverfa, taugaveiklun og að vera samvinnuþýður. Dæmi um skapgerðareinkenni eru síðan: heilindi, sanngirni, góðvild og ábyrgð.

Maðurinn minn er mjög duglegur að sannreyna þessa kenningu á því fólki sem verður á vegi hans hvort sem er á flugstöð eða í matvörubúð. Fólk hefur talið hann vera sjáanda þegar hann byrjar að lýsa hver sé líkur hverjum í fjölskyldum þessa bláókunnuga fólks.

Spurningar til  persónuleikakönnunar (kolsvartur heiðarleiki)

Merktu X við það sem við á fyrir þig, móður þína og föður og sjáðu hvar krossarnir mætast.

Ef þú getur merkt við fleiri en einn möguleika í hverju svari ertu að öllum líkindum blanda af báðum foreldrum (sem sagt ekki fyrsta eða annað barn).

 

Ef þú eignast óvænt einhvern pening, ertu þá

_______Ofur sparsöm/samur          _______ Nýturðu peninganna       ______Kærulaus             

Ofur sparsamur er sá sem t.d. velur helst ódýrustu sætin í flugvél þótt það sé þröngt og ekki þægilegt.  Þeir sem eru kærulausir í peningamálum hika ekki við að borga aukalega fyrir þægindi og splæsa jafnvel á ferðafélaga. Sá sem nýtur peningana er samt ekki kærulaus með peninga.

 

Hvernig ertu í daglegri umgengni?

_______Smámunasöm/samur    _______Víðsýn/n      _______Kærulaus

Smámunasöm manneskja verður að hafa allt á sínum stað. Í frásögn verður allt að vera rétt þótt það skipti ekki máli eins og hvort sagan gerist á mánudegi eða þriðjudegi. Smámunasemin getur komið fram í fatnaði. Vel brotin og óaðfinnanlega straujuð fötin eru eins og ný og sumir hafa sérstaka hæfni til að taka eftir smáatriðum. Víðsýnn maður klæðir sig snyrtilega en er ekki að kippa sér upp við þótt skyrtan sé ekki 100% straujuð. Kærulaus er sá sem er sama þótt hann sé í sitt hvorum sokknum.

 

Hvernig ertu gagnvart fólkinu í kringum þig?

_______Stjórnsöm/samur       _______Sveigjanleg/ur     _______Leiðitöm/tamur

Sveigjanlegur merkir að viðkomandi er opin fyrir hugmyndum/tillögum annarra og aðlagar sig gjarnan aðstæðum. Sá stjórnsami reynir hinsvegar alltaf að stýra aðstæðum. Notar ýmsar aðferðir til þess (fýla, þagnarmeðferð o.s.frv.). Leiðitamur er sá sem hefur ekki frumkvæði en er til í að vera með.

 

Á hvaða tíma sólarhringsins ertu ferskust/astur?

                _______Á morgnana                    _______ Á kvöldin

 

Annaðhvort finnst fólki gott að sofa á morgnana eða það sofnar snemma á kvöldin

 

Hvernig myndirðu lýsa skapgerð þinni

                _______Glaðlynd/ur                    _______Alvarleg/ur

Sumir eiga létt skap og finnst auðvelt að hlæja meðan aðrir eru þyngri í skapi

 

 

Úthverfur eða innhverfur

                _______Miðdepilsþörf                _______Hlédrægni/Hógværð

Manneskja sem er með miðdepilsþörf finnur þörf fyrir að vera miðpunktur allra samskipta.  Þeir þurfa gjarnan að taka þátt í öllum samræðum. Hlédræg er manneskja sem leggur ekki áherslu á sjálfan sig eða sína eiginleika. Hógvær forðast að draga athygli að sér.

 

Hvernig bregstu við áreiti

                _______Dramatísk/ur                 _______Lítil tilfinningasemi

Dramatískur er sá sem er með miklar tilfinningar  s.s. kvíða, hræðslu o.s.frv. Þeir verða líka mikið glaðir og mikið sorgmæddir. Þeir bregðast við tilfinningalega öfugt við þá sem eru með litla tilfinningasemi. Þeir bregðast ekki ýkt við.

 

Andleg staða

                ______Kvíðin/n/Stressuð/aður               ________Róleg/ur/Yfirveguð/aður

Sumir ná ekki að slaka á. Eru alltaf á nálum, kvíðnir og stressaðir. Aðrir eru ekki að velta hlutunum mikið fyrir sér og hafa innri sátt.

 

Hvernig myndirðu lýsa hegðun þinni gagnvart hlutum

­                _______Fíkill                    _______Áráttufull/ur                   _______Ekki fíkill

Sá áráttufulli gerir mikið af öllu. Ef hann reykir þá reykir hann mikið. Ef hann spilar golf er hann alltaf í golfi. Fíkillinn ánetjast og svo eru þau sem hvorki ánetjast né verða áráttufullir

 

Ertu með/aðhyllistu

_______Söfnunaráráttu             _______Minimalisma                  _______Minnimáttarkennd

_______Frumkvæði     

Að vera mínimalískur er að vera óháður efnislegum hlutum og leggja ekki áherslu á að safna. Hin atriðin segja sig sjálf

 

Ertu

_______Jarðtengd/ur                  _______Iðin/n                                 _______Löt/latur

_______Sjálfsörugg/ur                _______Eirðarlaus                        _______Meðvirk/ur

Sá eirðarlausi verður alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Hitta vini og kunningja, fara á kaffihús eða verslunarmiðstöðvar og svoleiðis. Jarðtengda týpan hugsar fram í tímann. Heldur sig við staðreyndir og raunveruleikann. Sjálfsörugg er sú persóna sem er óhrædd við að segja og gera hluti þar sem hún spáir ekki í hvað öðrum finnst.

Þóra Sveinsdóttir skrifar.

Ritstjórn desember 17, 2024 07:00