Mér líður stundum eins og ég sé ljóð

Einurð er nýjasta ljóðabók Draumeyjar Aradóttur en hún hlaut fyrstu verðlaun Júlíönnu hátíðarinnar fyrir lokaljóð bókarinnar Þannig hverfist ég. Bókin er kaflaskipt og lýsir sjónarhorni barns frá getnaði og þar til það er fullorðinn einstaklingur en bókin er tileinkuð fólki á einhverfurófi. Draumey hefur skrifað frá unga aldri og áður hafa komið út barnabækur og ljóðabækur en ljóð Draumeyjar hafa verið þýdd á önnur tungumál. Draumey flutti fyrir nokkrum árum heim frá Svíþjóð eftir 17 ára búsetu þar. Hún fann ræturnar kalla sterkt á sig og hún fylgdi kallinu eins og hún segist ávallt gera og segir að hún sé að blómstra komin yfir miðjan aldur.

Draumey segist hafa skrifað frá því hún var barn. Hún er fædd og uppalin í Hafnarfirði og bjó þar til tvítugs. Hún lærði til danskennara og fór svo í MH og lauk síðar grunnskólakennaraprófi. En heimspekin togaði sterkt í hana.

„Ég var í heimspeki í HÍ í ár en flutti þá til Lundar með tvö börn sem ég átti með fyrri manni mínum, 11 ára og tæplega 15 ára, og hélt áfram í hagnýtri heimspeki í eitt ár. Síðan flutti ég mig yfir í sænsku, bæði tungumálið og bókmenntirnar.“

Draumey giftist sænskum manni en skildi svo við hann og lét þá gamlan draum rætast og keypti gamalt hús úti í sveit en kenndi áfram í Lundi. Húsið var sannkallaður sælureitur, bóhemskt, rómantískt og fallegt í anda Draumeyjar.

Hvenær byrjaðir þú að yrkja? „Ég var um tvítugt þegar ég byrjaði að skrifa ljóð en ég held að ég sé fædd með eins konar ljóðrænu og sköpunargleði sem virðist hafa tekið sér bólfestu í mér sem barni í svo mörgu. Ég var alltaf í sveit á Hnjóti á sumrin og skrifaði kannski 10 síðna bréf þar. Sjálf mundi ég ekkert eftir þessu en Sóldís heitin, systir mín, sagði að fólk sem hún sýndi bréfin hefði verið agndofa. Ég skrifaði líka langar ferðasögur þegar ég fór út í heim, það voru kannski 30 A-4 síður, og sendi vinum mínum. Ég var líka að semja dansa, setja upp sýningar og ég var í hannyrðum, ég átti erfitt með að fara eftir uppskrift, vildi búa til sjálf. Þannig að ég sé skrifin sem eitt form af þessari sköpunargleði. Allt sem ég skrifa er ljóðrænt, stíllinn er þannig. Mér líður svolítið eins og ég sé ljóð og þá leyfi ég mér bara að vera það,“ segir Draumey en fyrsta bók hennar Þjófur og ekki Þjófur kom út 2001 og síðan hefur hún gefið út aðallega ljóðabækur nokkuð reglulega.

Draumey flutti heim 2015 en hafði fram að því ekki velt því fyrir sér. Það voru breytingar í lífi hennar sem urðu þó til þess. „Á  einum tímapunkti eignaðist ég tvo ömmudrengi og Sóldís, systir mín, féll frá. Í útför hennar fann ég að ég varð að komast heim og ég hlýði alltaf svona öskrum, hér er fólkið mitt og hér vil ég vera. Ég flutti heim og sé ekki eftir því. Þetta voru viðbrigði, ég var búin að gleyma hvað það er mikið myrkur t.d. og ég þurfti áfallahjálp þegar ég fékk fyrsta reikninginn fyrir húsnæðisláninu og sá vextina, en mér fannst gaman að koma heim. Maður er svolítið eyland þegar maður býr úti, enginn þekkir söguna þína eða veit deili á þér. En þegar maður kom heim þá komu allar tengingarnar. Maður lifnaði við einhvern veginn og tengdist svo mörgum aftur og þótt ég hafi ekki verið einmana úti þá var maður á eigin spýtum, en hér er maður hluti af neti, mér finnst það voða notalegt. Vinir mínir og vandamenn sumir skildu ekkert í því að ég skildi geta yfirgefið þetta dásamlega sveitasetur sem ég átti en ég upplifi lífið í skeiðum. Við förum í gegnum ólík skeið í lífinu og ég á mjög auðvelt með að kveðja eitt og hefja nýtt. Ég fylgi hjartanu og það er eiginlega það eina sem ég er hlýðin í.“

Einurð byggð á persónulegri reynslu

Í nýjustu bók sinni Einurð ljær Draumey fóstri og síðan barni og því sem fullorðnum einstaklingi rödd sína. Bókin samanstendur af ljóðabálkum um för barns sem getið er í áfalli, í gegnum meðgönguna og til fullorðinsára en Draumey hefur mikinn áhuga á og fylgist grannt með hvaða áhrif áföll geta haft á okkur, jafnvel í móðurkviði, og hvernig þau flytjast á milli kynslóða. Draumey byggir þarna á eigin reynslu.

„Fóstrið ávarpar móður sína frá getnaði, í gegnum meðgöngu og fæðingu og síðan sem fullorðinn einstaklingur sem lítur til baka, það er alltaf þessi einstaklingur sem talar. Ég byggi á persónulegri reynslu af syni mínum, þótt þetta sé skáldskapur. Ég velti fyrir mér hver áhrifin eru af því á fóstur og barn sem móðirin verður fyrir á meðgöngunni en barnið í bókinni er getið í áfalli og síðan er meðgangan og fæðingin erfið.

Mér finnst áhugavert að velta svona hlutum fyrir mér af því ég hef almennt áhuga á tengslum hugar, tilfinninga og sálar og hvernig við veljum að lifa lífinu út frá viðbrögðum okkar. Einnig hvort þetta hefur einhver hamlandi áhrif síðar en þessi einstaklingur í bókinni greinist seinna á lífsleiðinni með röskun á einhverfurófi. Ég er ekki að segja að þetta sé ástæðan en ég trúi að þetta hafi áhrif eins og er með arf fyrri kynslóða, áföll sem ekki hefur verið unnið úr. Þess vegna held ég að við berum mikla ábyrgð á að hreinsa upp áföll sem við verðum sjálf fyrir til að koma í veg fyrir að þau haldi áfram. Ég var flutt heim þegar sonur minn fór í rannsóknir kominn á fertugsaldur. Þá hringdi geðlæknirinn hans í mig til Íslands og vildi fá að vita meira um bernsku hans og ég spurði: Eigum við byrja á grunnskólaaldri eða viltu fara alla leið niður á leikskólaaldur? „Nei, nei, við byrjum í móðurkviði,“ svaraði hann. „Þetta sat í mér. Núna eru læknar byrjaðir að hugsa lengra aftur en bara eftir fæðingu.“

Lokaljóð Draumeyjar í Einurð sigraði í árlegri ljóðakeppni Júlíönu – hátíð sögu og bóka. Þetta er langt og áhrifamikið ljóð þar sem barnið, sem nú er orðið fullorðið, segir berum orðum að það þarfnist ekki móður sinnar þótt hún þarfnist þess. „Já, það er erfitt fyrir móður að viðurkenna að sonur hennar þarfnist hennar ekki, sleppa og leyfa honum að lifa eins og honum þykir best. Draumey hlaut jafnframt viðurkenningu í ljóðasamkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir annað ljóð í bókinni og er það hluti af ljóðabálki um fæðinguna. Íris Ólafsdóttir, bróðurdóttir Draumeyjar, málaði málverkið sem prýðir kápuna á Einurð.

Blómstrar á besta aldri

Draumey segist geta tekið undir það að hún sé að blómstra sem skáld. „Það er líka vegna þess að ég er á þannig æviskeiði. Ég er í góðri vinnu og full af orku þegar ég kem heim. Það er rólegt hjá mér, ég bý ein með dýrunum mínum og svo er ég mikið í sumarbústaðnum mínum. Þá skapast þetta andrými sem þarf til að eitthvað eigi sér stað.“

Aðspurð um hvað veiti henni innblástur og hvert hún sæki yrkisefnin svarar hún: „Ég held að það sé áhuginn á lífsspeki, ég hef alltaf haft gaman af að hugsa um þessi stóru mál í tilverunni, lífið, dauðann og eilífðina. Það er stefið í öllum mínum bókum; tengsl hugar og sálar, viðbrögð okkar og hugsun, af hverju við hugsum eins og við hugsum. Hvað mótar okkur og gerir okkur að því sem við erum? Þannig að ég fer út í þetta stóra og svo alveg innst og tengi þetta saman. Þetta samspil verður mér að yrkisefni.“

Draumey segist ekki hafa sérstakan áhuga á samfélaginu sem slíku eða pólitík, það eru hins vegar ástæðurnar sem liggja að baki því að við sköpum tiltekið samfélag sem vekur áhuga Draumeyjar.

„Samfélagið er afurð okkar og ég vil miklu heldur vita af hverju við sköpum svona samfélag.

Af hverju lifum við eins og við lifum, hugsum eins og við hugsum? Mér finnst það miklu áhugaverðara heldur en afurðin, hvers vegna við, dýrategundin maður, erum eins og við erum, hvað mótar okkur, af hverju leyfum við ákveðnum þáttum að móta okkur og hvers vegna vinnum við ekki gegn þeim ef við sjáum að þeir færa okkur ekki gæfu. Við höfum viljann og valið, getum alltaf alla vega stjórnað hvernig við bregðumst við og vinnum úr hlutunum.“

Og hvað viltu þá segja við fólk? „Já, kannski út frá þessu að passa að taka sér tíma í einveru, skapa þetta andrými og innri kyrrð af því þar fer allt fram, bæði sköpunin og líðan byggist líka á því, því þar verða hugsanirnar til og við verðum aðeins að stjórna þeim, ekki leyfa þeim að stjórna okkur. Við verðum að velja hugsanir okkar af því að það sem við hugsum leiðir til þess hvernig okkur líður og líðanin verður til þess hvað við gerum við líf okkar og hvernig við bregðumst við atburðum. Og það tengist líka því að uppræta áföll því að við erfum gegnum genin og við mótumst en við getum valið að fara í gegnum áföllin og velja burt eitthvað; að fara í gegnum það og klára það, láta það ekki stýra lífi okkar eða afkomendanna.“

Eru yrkisefnin ný með hverri bók eða er einhver sameiginlegur tónn eða þráður í þeim? „Já, það er nýtt efni í hverri bók, nú eru það hughrif barns og síðast var það óttinn og þar áður sorgin, það var eftir að pabbi minn féll frá. En það sem bækurnar eiga sameiginlegt eru ferðalög. Þetta eru ferðalög frá upphafi til enda, stundum eru það ljóðabálkar, stundum ljóð, en þetta tengir þær. Ég vel mér nýtt ferðalag og nýja staði í gegnum eitthvað nýtt. Nú er ég byrjuð aftur en ég er nýbúin að missa hann Álf, hundinn minn og besta vin. Hann dvelur í mér daglega og nú er ég búin að rétta honum hljóðnemann, hann er byrjaður að tala og skrifa, bókin verður tileinkuð öllum dýravinum,“ segir Draumey sem er mikill dýravinur og hlær. „Ég finn ég að ég er á ljóðaskeiðinu. Lífið er ljóð fyrir mér og mér finnst ég stundum vera ljóð. Þegar ég skrifa ljóð þá upplifi ég að ég sé að syngja, dansa, mála og teikna. Ég er að gera allt þetta í ljóðinu og lífinu.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn febrúar 11, 2024 07:00