Inga Dóra Björnsdóttir skrifar
Nýlega var ég að taka til í bókahillunum mínum og rakst þar á litla bók eftir Elínborgu Lárusdóttur, sem ber hin einfalda titil “Merkar konur,” sem kom út 1954 og fjallar um lífshlaup níu íslenskra kvenna, sem eiga það sameiginlegt að hafa fæðst á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Ég stóðst ekki mátið og opnaði bókina og áður en ég vissi af var ég komin á bólakaf í hana, bók sem ég las fyrst þegar ég var ung að árum, fyrir einum fjörtíu árum síðan.
Bókin er mjög skemmtileg og fróðleg og gefur góða innsýn inn í líf níu íslenskra kvenna. Þrjár þeirra skera sig úr hópnum á þann hátt að þær ólu sinn aldur á erlendri grund, tvær fluttust ungar með fjölskyldum sínum til Vesturheims og ein fór ung til náms í Noregi og giftist norskum manni og bjó í Noregi upp frá því. Sú kona hét Guðrún Brunborg og var hún alla tíð mjög ötul við að efla samstarf milli Noregs og Íslands og er hennar merkasta framlag styrktarsjóðir, sem studdu íslenska námsmenn til náms við Oslóarháskóla og norska stúdenta til náms við Háskóla Íslands.
Hinar sex konurnar í bókinni lifðu lífi sínu á íslenskum sveitabæjum, bjuggu við misjöfn efni og kjör, en risu allar upp úr hversdeginum með óhemju dugnaði og atorku og settu svip sinn á sína sveit. Það sem er eftirtektarvert í lýsingum á lífi þessara kvenna, er vinnuharkan sem þær bjuggu við. Þeim féll aldrei verk úr hendi. Þær unnu útiverk jafnt sem inniverk, þær ófu efni og saumuðu klæði á alla fjölskylduna, spunnu ull og prjónuðu sokka, peysur, vettlinga og föðurland, og þær sem betur máttu sín stunduðu að auki útsaum.
Það er annað við lýsingar á lífi þeirra, sem sló mig sérstaklega og má án efa rekja til míns eigin aldurs, en það er umönnum þeirra á gamalmennum á heimilum þeirra. Á þessum tímum voru hvorki elliheimili né sjúkrastofnanir þar sem aldraðir gátu leitað sér athvarfs. Aldraðir foreldrar höfu yfirleitt ekki í önnur hús að venda en heimili barna sinna og gömul og lúin vinnuhjú voru upp á náð og miskun húsbænda sinna komin, sem af gæsku létu þau búa áfram á heimilinu, þó starfskrafta þeirra nyti ekki lengur við. – Annars biðu þeirra þau örlög að vera sett á sveit.
Það féll í hlut húsmæðra og vinnukvenna að annast allt þetta gamla fólk, og þegar bera fór á vinnukonuskorti á fyrstu áratugum tuttugust aldar, fóru konur að huga að stofnun elliheimila.
Það er einmitt ein kona, sem sagt er frá í bókinni, Jónína Líndal frá Lækjarmóti, sem beitti sér fyrir stofnun elliheimilis fyrir “þreytt og einmana gamalmenni, karla og konur í Vestur-Húnavatnssýslu, svo þau gætu lifað áhyggjulausu lífi síðustu árin,” svo vitnað sé beint í bókina. Þessi hugmynd fékk góðar undirtektir í sveitinni, en ekkert varð úr þessari tillögu að sinni. Tími elliheimilanna var ekki kominn, hvað þá tími þjónustuíbúða og ferða eldriborgara til Tenerife!