Það er alltaf áhugavert að skoða hvaða greinar voru mest lesnar á árinu sem er að líða. Lifðu núna vefurinn hefur verið starfræktur í tvö og hálft ár og á honum hafa birst fjöldi greina um fólk sem komið er yfir miðjan aldur. Skoðum hvað var mest lesið á árinu:
1. Fann ástina og keypti hús á 700 þúsund.
Mest lesna efnið á árinu var viðtal við Friðrik Lúðvíksson sem elti drauma sína til Búlgaríu.
Að ná endum saman er hugtak sem ég hef aldrei skilið. Mitt viðmið hefur alltaf verið að njóta lífsins á því sem ég hef þénað hverju sinni sem hefur verið ansi sveiflukennt í gegnum tíðina. Ég hef gætt þess að skuldsetja mig ekki mikið, en það sýnist mér vera aðalvandamál margra Íslendinga að skuldsetja sig upp fyrir haus,“ segir Friðrik Lúðvíksson. Friðrik er einn þessara manna sem eltir drauma sína. Hann er fluttur að mestu til Búlgaríu, giftur þarlendri konu og lifir eins og blóm í eggi. „Ég fór í námsleyfi til Plovdív fyrir sjö árum. Þar fór ég að vera með núverandi eiginkonu minni henni Danielu Yordanova sem er blessunarlega hrifin af gamaldags suðrænni þorpsmenningu , eins og ég. Hún flutti svo með mér á Ísafjörð um tíma og líkaði vel. En nú erum við sem sagt bæði flutt aftur til Búlgaríu ótímabundið. Við búum í þorpinu Palamartsa í Popovo héraði sem er í norðurhluta landsins.“
Viðtalið er hægt að lesa í heild hér.
2. Lífeyrissjóðunum var rænt
Pistill Wilhelms Wessman um lífeyrissjóði var næst mest lesna greinin á árinu. Í pistlinum segir Wilhelm meðal annars:
Lífeyrissjóðum okkar á almenna vinnumarkaðinum var rænt til að niðurgreiða skuldbindingar Tryggingastofnunar ríkisins til eftirlaunaþega. Þegar ég kom heim úr framhaldsnámi í hótelfræðum í Róm, gerðist ég félagi í Félagi framreiðslumanna og sat í stjórn félagsins þegar lífeyrissjóður FF var stofnaður. Þessi sjóður er núna hluti af Stafir lífeyrissjóði. Tilgangur sjóðsins eins og allra lífeyrissjóða var að safna í sjóð til að bæta félagsmönnum upp lágar greiðslur frá TR þegar kæmi að töku eftirlauna. Síðar settist ég hinumegin við borðið og og starfað með samtökum hótel og veitingamanna SVG (nú SAF) bæði sem formaður og fulltrúi SVG í samninganefnd Vinnuveitenda sambands Íslands ( nú SA ). Sem slíkur samdi ég við matreiðslumenn, framreiðslumenn, hljómlistamenn og starfsfólk í veitingahúsum um kaup og kjör. Í öllum þeim samningum sem ég tók þátt í var það alveg ljóst að greiðslur atvinnurekenda til lífeyrissjóðanna voru hluti af launum.
Pistilinn er hægt að lesa í held hér.
3. Greip konuna og giftist henni
Viðtal við Börk Thoroddsen tannlækni var þriðja mest lesna efnið á árinu. Börkur rekur í viðtalinu hvernig hann kynntist eiginkonu sinni Öddu Gerði Árnadóttur og segir frá eftirminnilegum atvikum.
Af hverju að hætta þegar ég er loksins farinn að kunna eitthvað í þessu“, spyr Börkur Thoroddsen tannlæknir sem er kominn yfir sjötugt og er enn að vinna. Hann vinnur 7 klukkutíma á dag, fjóra daga vikunnar og segist eingöngu sjá um sínar klínisku tannlækningar, en stúlkurnar á stofunni sjái um allt annað. Hann mætir í vinnuna klukkan 7:30 á morgnana til að fara yfir daginn og undirbúa sig. Fyrsti sjúklingurinn kemur svo klukkan 8:00. Berki finnst „sjúklingur“ að vísu ekki rétta orðið yfir þá sem leita til tannlæknis, nema þeir séu með bólgur og verki. Honum finnst „kúnnar“ heldur ekki ná þessu nógu vel og segist kalla þá sem koma til hans „pasíenta“. Hann segir vinnuna léttari núna þegar hann er kominn með svona mikla reynslu og stressið minna en þegar hann var yngri. „Svo er ágætt að þurfa ekki að taka út lífeyrissparnaðinn, ég hef laun á meðan ég er að vinna“, segir hann.
4. Hefur ekki efni á að búa lengur á Íslandi og flytur til Spánar
Einar Scheving skrifaði um móður sína sem varð að flytja til Spánar til að ná endum saman eftir að hafa misst vinnuna í tvígang.
Það vill svo til að þessi kona, sem er mér eðlilega mjög kær, stendur á miklum tímamótum. Hún er að leggja land undir fót og flytja til Spánar í næstu viku – og aðeins af einni ástæðu – hún hefur ekki efni á að búa á íslandi lengur, ekki frekar en stór hluti þjóðarinnar, sér í lagi ellilífeyrisþegar.Eftir 36 ára vinnu í Samvinnubankanum/Landsbankanum þá var henni sagt upp í hruninu. Henni var beinlínis hent út og lokað var á tölvuaðganginn hennar samdægurs. Hún var svo heppin að bjóðast fljótt vinna í Laugavegsapótekinu, þar sem hún var dáð af bæði samstarfsfólki og viðskiptavinum. Hún var margsinnis valin starfsmaður mánaðarins og ég hef ekki tölu á því fólki sem mamma skilaði kveðju til mín frá sem hún hitti í apótekinu. En viti menn, þrátt fyrir góða heilsu og þessar vinsældir þá var henni sagt upp þegar hún varð sjötug, enda var það víst stefna hjá Lyfju.“
Skrif Einars er hægt að lesa hér.
5. Of gömul til að fá vinnu á Íslandi en ekki í Noregi
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir þroskaþjálfi var búin að leita sér að vinnu í eitt og hálft ár hér á landi en án árangurs. Hún fékk á endanum vinnu í Noregi.
Eina starfið sem ég hef fengið hér er að kenna yoga þrisvar í viku, klukkutíma í senn, hjá Heilsuborg,“ segir Guðrún Jóna. Hún hefur fengið um tvöhundruð þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði og það hefur orðið að duga henni til framfærslu auk yoga kennslunnar sem hún fær smávægilegar greiðslur fyrir. „Ég borga 140 þúsund krónur í leigu á mánuði fyrir litla íbúð, svo það er ekki mikið eftir af mánaðartekjunum þegar ég er búin að borga leiguna,“ segir hún og bætir við að það lifi enginn mannsæmandi lífi af lífeyrisgreiðslum. „Mér þykja lífeyrissjóðirnir gagnslitlir. Við erum skyldug að greiða til þeirra en uppskerum einungis smá þóknun úr þeim. Þeir einu sem fá eitthvað út úr sjóðunum eru stjórnendurnir sem eru með milljónir á mánuði,“ segir Guðrún Jóna.
Viðtalið er hægt að nálgast hér.
6. Ævilok án eftirsjár
Pistill Þráins Þorvaldssonar um dauðann og hvernig hægt er að kveðja þetta líf án eftirsjár vakti mikla athygli.
Dauði og endalok lífsins eru ekki það sem við leiðum daglega hugann að og flest viljum við sem minnst um þau hugsa. Í mínum huga er dauðinn ekki kvíðaefni. Ég er trúaður og trúi á líf að loknu þessu lífi. Í vetur sótti ég fyrirlestur á Þjóðminjasafninu um greftrunarsiðifi sem hefur kennt mér mikilvægi hinstu stundar ástvina. forfeðra okkar. Ég áttaði mig þá fyrst á merkingu orðsins „útför“. Forfeður okkar voru búnir til brottfarar til annars heims, útfarar. Dauðinn var ekki endastöð heldur undirbúningur ferðar til annars og betri heims.“