Albert Eiríksson og maðurinn hans Bergþór Pálsson hafa búið í miðbæ Reykjavíkur um langt árabil, nánar tiltekið við Lindargötu. Albert ólst upp á Fáskrúðsfirði en Bergþór hefur alltaf búið í Reykjavík. Þeir eru svokallaðir “miðbæjarmenn” þar sem lífið hefur boðið upp á að rölta á veitinga- eða kaffihús ef þeim hefur dottið í hug eða á sýningar af ýmsum toga. Alberti og Bergþóri datt í hug að breyta til í lífinu og selja íbúðina við Lindargötu og halda áfram með lífið á öðrum stað. Þeim að óvörum seldist íbúðin mjög hratt svo þeir seldu í raun ofan af sér. Þeir leituðu þá á náðir Páls Bergþórssonar, föður Bergþórs, og fengu húsaskjól hjá honum þar til þeir fundu réttu eignina. Eftir mikla leit fundu þeir hús í Grafarvogi sem uppfyllti þarfir þeirra fullkomlega og þar með var breytingin orðin alger. Nýlegt hús í Grafarvogi á eftir gamalli íbúð í miðbæ Reykjavíkur má kalla breytingu með stóru “béi”.
Voru á leið til Ísafjarðar með allt sitt hafurtask
Þeir Bergþór og Albert voru nýbúnir að festa kaup á húsinu í Grafarvogi þegar Bergþóri var boðin staða skólastjóra Tónlistarskólans á Ísafirði. Hann tók boðinu og var hvattur vel af manni sínum og þeim þótti spennandi kostur að flytja út á land. Bergþór var farinn til Ísafjarðar þegar viðtalið var tekið svo Albert varð fyrir svörum. Hann er vanur bæjarlífi og segir að það sé eðlilega mjög ólíkt borgarlífinu. “Fyrst ætluðum við að flytja til Ísafjarðar og leigja húsið í Grafarvogi en þegar upp var staðið var ekki um auðugan garð að gresja í húsnæðismálum á Ísafirði svo við endurhugsuðum stöðuna,” segir Albert. “Við ákváðum að koma okkur fyrir í nýja húsinu og hefðum þá samastað á báðum stöðum. Við leigjum fyrst um sinn litla fallega íbúð á Ísafirði. Þannig getum við haldið áfram að bjóða hópum heim í veislur af og til í bænum af því það er svo skemmtilegt og getum verið á Ísafirði þess á milli,” segir Albert brosandi og er alsæll með nýja stefnu í lífinu.
Grafarvogur kom á óvart
“Hér er mjög rólegt að búa og frábærir nágrannar,” segir Albert. “Göngu- og hjólastígar eru um allt sem hentar okkur mjög vel því við hreyfum okkur mikið. Svo er hér líka lítil skíðabrekka og –lyfta í bakgarðinum” segir hann og hlær. “Ísafjörður og Grafarvogur falla vel saman. Tónlistarskólinn er geysilega spennandi verkefni fyrir Bergþór en hann verður fjórði skólastjóri þessarar frægu stofnunar á 72 árum.” Albert og Páll tengdafaðir hans voru á förum vestur skömmu eftir að viðtalið var tekið til að vera viðstaddir fyrstu skólasetningu nýja skólastjórans í Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Halda áfram að bjóða veislurnar frægu
Hluti af starfi þeirra hjóna hefur um langt skeið verið að bjóða hópum heim og halda veislur þar sem gestir upplifa góðan mat, tónlist og spjall. Nýtt heimili varð að bjóða upp möguleikann að halda slíkar veislur. Þeir fundu þetta klæðskerasaumaða hús sem uppfyllti allar þeirra þarfir.
Svo gott að breyta til á miðjum aldri
“Við yngjumst auðvitað ekki og nú erum við báðir komnir á miðjan aldur,” segir Albert. “Það er svo gott að endurskoða lífið á þessum tímapunkti því maður gerir
upp tímabil í lífi sínu með því að flytja á nýjan stað. Þá er maður nauðbeygður til að fara í gegnum gamla dótið sem maður ætlaði alltaf að nota eða henda en endaði í geymslunni þar sem það er jafnvel búið að vera árum saman. Hver kannast ekki við það?
Ferðabloggarar
Albert og Bergþór ákváðu að vera ferðabloggarar í sumar og kynna sér spennandi staði sem Albert segir að séu um allt land. “Ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa því hvað við upplifðum skemmtilega staði sem komu okkur verulega á óvart á ferðum okkar í sumar,” segir hann. “Á Íslandi hafa verið byggðir upp svo merkilegir og glæsilegir staðir, alveg klárlega á pari við það besta sem við höfum upplifað úti í heimi. Ferðafærslurnar má sjá á alberteldar.com undir Ferðast um Ísland”.
Albert hefur m.a. tekið að sér að elda á völdum stöðum úti á landi á sumrin. Einn slíkur er austur á Breiðdal þar sem boðið er upp á heilsuviku fyrir Íslendinga með góðum mat, gistingu, gönguferðum, nuddi og jóga á hverjum degi. “Þetta seldist upp því mjög margir velja heilsusamleg frí. Fjöldi Íslendinga hefur farið til útlanda þar sem lengi hefur verið boðið upp á slíkar heilsuvikur og nú hefur þessi sami hópur sem betur fer áttað sig á að þetta er líka að finna hér á landi í okkar hreina og tæra lofti, með vatnið góða og heilsusamlega matinn.”
Matur úr héraði
Albert segir að það hafi komið þeim skemmtilega á óvart hvað þeir finni fyrir mun meiri virðingu fyrir mat úr héraði en áður. “Sem dæmi má nefna að í Skagafirði er mjög áberandi hvað þar eru menn komnir langt með að kynna hvaðan hráefnið er. Þar færðu að vita hvaðan grænmetið er o.s.frv. Þar er greinilega mikil samstaða um að taka þátt. Nú í lok september fer ég að vinna á sælkerahelgi á sveitahótelinu Sóti Lodge í Fljótunum.” Albert fær að taka þátt í að búa til ógleymanlega matarupplifun fyrir gesti þar sem verður farið í berjamó og búið til eitthvað gott úr fengnum og kynnast Matarkistu Skagafjarðar.
Ógleymanlegt súkkulaðikaffihúsið á Siglufirði
Albert segir að eitt af því sem kom þeim á óvart var að rekast á súkkulaðikaffihús á Siglufirði. “Listakonan Fríða dreif sig til Belgíu í súkkulaðiskóla og setti síðan upp súkkulaðikaffihús á Siglufirði. Þetta var ótrúlega sterk upplifun. Þar fengum við til dæmis heitar vöfflur með volgri karamellusúkkulaðisósu. Þvílíkur unaður,” segir Albert dreyminn á svip.
Ber úti um allt/vítamín til vetrar
Nú er berjatíminn í hámarki og margir að velta fyrir sér hvað sé nú best að gera við alla þessa hollu ávexti jarðar. Albert er ekki í neinum vandræðum með ráð enda ólst hann upp á Austfjörðum þar sem hlíðarnar eru litaðar bláberjum meira en annars staðar. Hann segir að nú sé berjaspretta reyndar góð alls staðar sem megi rekja til minni búfjárbeitar og hlýnandi loftslags. Fólk þekkir góða berjastaði hver í sinni heimabyggð. “Fyrir mig er það viss heilun að fara í berjamó,” segir Albert. “Að liggja úti að tína ber, hlusta á fuglasönginn og finna fyrir náttúrunni er unaðsleg tilfinning.”
Við fengum Albert til að gefa okkur uppskriftir að því sem hann var að búa til úr berjunum sem hann var búinn að tína og blaðamaður fékk að smakka heita berjaböku. Hann gerir iðulega chiagraut fyrir þá á kvöldin og lætur í ísskáp yfir nóttina. Hann er síðan tilbúinn að morgni. Albert fór að ná í heita bökuna í ofninn og hló og baðst afsökunar á því hvað hann var lengi að því. Hann þurfti nefnilega að opna svo margar skúffur og skápa áður en hann fann pottaleppana. “Við erum ekki ekki alveg búnir að koma okkur fyrir á nýja heimilinu,” segir þessi lífsglaði og jákvæði lífskúnstner.
Uppskriftir og myndir að Bláberjaböku og Bláberjagraut birtast í matarþættinum annars staðar á síðunni
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.
Viðtalið við Albert birtist áður á Lifðu núna 4. september 2020.