Björk Óttarsdóttir geislar af hreysti, enda kom hún hjólandi til fundar við blaðamann Lifðu núna í miðbænum, næstum tuttugu kílóum léttari en hún var fyrir þremur mánuðum. Við setjumst inná kaffihús og hún segist vera að fara í lestarferð yfir Rússland og Síberíu í sumar. Hún segir að þessi ferð hafi verið nokkurs konar gulrót fyrir sig til að léttast. „Ég var ákveðin í því að ég vildi ekki vera í yfirþyngd í þessari ferð. Ég vildi geta gengið um og skoðað borgirnar sem við förum til og gert allt sem mig langaði til. Þessi tilhugsun hjálpaði mér mjög mikið“, segir hún.
Hefur misst 6-7 kíló á mánuði
Hvað gerðirðu? spurði blaðamaður Lifðu núna Björk, sem byrjaði á TT- námskeiði hjá Báru í JSB í lok janúar og hefur misst 6-7 kíló á mánuði. „Ég veit það ekki, en ég er svo ánægð með hvað þetta hefur gengið vel“, sagði hún. „Ég er mjög skipulögð í þessu. Ég hef tekið mataræðið algerlega í gegn. Ég borða einungis þrjár máltíðir á dag. Morgunmat – sem er hafragrautur alla virka daga, en rúgbrauðssneið um helgar. Hádegismat – sem er aðalmáltíð dagsins. Það er mjög gott að borða aðalmáltíðina í hádeginu í stað þess að gera það á kvöldin og svo er það léttur kvöldverður“.
Saknar ekki sósunnar
Björk sem starfar sem sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu fær sér hádegismat í mötuneyti stjórnarráðsins. „Þar er alltaf salatbar. Manneldisráð mælir með því að grænmeti sé ævinlega þriðjungur þeirrar fæðu sem menn setja á diskinn sinn, en hjá mér er grænmetið þrír fjórðu af því sem ég fæ mér á diskinn. Síðan fæ ég mér kjöt eða fisk, en sleppi hrísgrjónum og kartöflum og yfirleitt pasta líka, nema það sé í Lasagne rétti eða sambærilegum réttum. Það er hollur og góður matur í mötuneytinu, en yfirleitt sleppi ég sósunum. Ég sakna þess ekkert þó ég fái mér aldrei sósu með matnum“.
Merkilegast hvað þetta er auðvelt
Á kvöldin borðar Björk milli klukkan 17 og 18. Á matseðlinum er þá matur eins og til dæmis skyr eða grísk jógúrt með berjum, fjölkornarúgbrauð með 17% osti, te eða soðin egg. „Ég borða eitthvað sem ég er fljót að tína til og sameina í rauninni síðdegishressingu og kvöldmat. Borða svo yfirleitt ekki meira þann daginn“. En á föstudögum er svokallað föstudagskaffi á vinnustaðnum hjá Björk. „Þá fæ ég mér brauð þó ég borði það ekki öllu jöfnu, en sleppi til dæmis rækjusalötum en set ost og grænmeti á brauðið. Ég vel af því sem er í boði og hentar mér. Það eru alltaf kökur í föstudagskaffinu, en ég segi bara við mig og aðra „Þær eru ekki á matseðlinum hjá mér“. Mér hefur þótt merkilegast hvað þetta er auðvelt. Þetta er ekki jafn mikið mál og ég ímyndaði mér“.
Helgarinnkaupin sett í bakpoka
Fyrir 20 árum fór Björk í átak og grenntist töluvert. „Svo hef ég verið í einhverju gutli í stað þess að taka þetta föstum tökum, en það er átak í ákveðinn tíma að losa sig við aukakílóin. Ég er búin að ákveða að þegar ég verð komin í 88 kíló, fæ ég mér ís“, segir hún og hlakkar greinilega til. „Það er gott að hafa svona litlar gulrætur“, bætir hún við. Þetta sneri að mataræði Bjarkar og þá er komið að hreyfingunni. „Ég mæti í leikfimitíma þrisvar í viku. Ef ég þarf að fara í burtu í vinnuferð, reyni ég að taka göngutúra í staðinn. Ganga milli hótela og fundarstaða. Ég reyni líka að taka tvær góðar göngur um helgar, klukkutíma í senn eða einn og hálfan. Við búum í Kópavogsdalnum, þannig að það er stutt að fara“. Björk og eiginmaður hennar Ingólfur V. Gíslason félagsfræðingur og háskólakennari ganga saman, en hann hefur líka áhuga á að hreyfa sig meira. Helgarinnkaupin gera þau þannig að þau fara í göngutúr með bakpoka í verslunina í stað þess að keyra þangað.
Ingólfur hefur tekið upp svipað mataræði
Björk og Ingólfur eiga þrjú uppkomin börn sem eru flutt að heiman. Tvær dætur og einn son. En Björk finnst samt ekki erfitt að vera á sérstöku mataræði. „Við setjumst alltaf niður saman til að borða og Ingólfur hefur tekið upp svipað mataræði og ég, en hann er karlmaður og þarf auðvitað fleiri kalóríur. Við eldum alltaf á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Þá eldum við það mikið, að það verður afgangur sem við frystum og Ingólfur tekur með sér í vinnuna. Þetta höfum við gert í mörg ár. Hann vill taka með sér nesti og þá er betra að það sé almennilegur matur. Þannig borðum við bæði aðalmáltíðina í hádeginu og eitthvað létt saman á kvöldin“.
Situr ekki í vinnunni nema á fundum
Annað sem Björk segist hafa gert þegar hún byrjaði í átakinu, er að hún hækkaði skrifborðið sitt og stendur nú við það. Hún segir að það reyni meira á. „Ég hef ekki sest í stólinn síðan og sit ekki í vinnunni nema á fundum. Ég er sannfærð um að svona litlir hlutir hafa áhrif. Mér finnst þægilegt að standa við borðið, en það kallar á að menn séu í góðum skóm“. Björk segir að þetta sé það sem hún geri til að léttast, þetta sé mataræðið og hreyfingin. Stundum tali fólk um að það sé svo gott við sjálft sig að það fer ekki út til að hreyfa sig. „Ég hugsa þetta oft á hinn veginn. Hvernig er maður góður við sjálfan sig? Jú, þegar maður hugar að heilsunni og ákveður að gera eitthvað í henni“.
Þarf ekki háskólagráðu til að léttast
Bára hjá JSB segir að árangur Bjarkar sé óvenju góður. „Hún er með fimm háskólagáður og kannski þarf það til að losna við 20 kíló“, segir Bára og hlær. Það eru ýkjur þetta með háskólagráðurnar. Björk er með B.ed gráðu í leikskólafræði og meistaranám í opinberri stjórnsýslu. „Ég held að það þurfi ekki háskólagráðu í þetta“, segir Björk og brosir. „Þetta er spurning um skipulag. 7 daga reglan hjá Báru er til dæmis alger snilld. Það er spurning um að jafna það út, þurfi maður að fara í veislu. Það var til dæmis Þorrablót í vinnunni hjá mér og ég vildi vera með og njóta þess. Þá notaði ég vikuna á undan og vikuna á eftir til að borða minna, til að jafna þetta út“. Björk segist alveg fá sér rauðvínsglas um helgar ef hana langi til. „Það er mikilvægt að hætta ekki öllu. Ég prófaði það einu sinni og þá gefst maður strax upp. 7 daga reglan virkar alveg fyrir mig“.
Björk segist aldrei telja kalóríur. Hún kynni sér hvað matvæli innihalda margar kalóríur en hún telji ekki. Hún mælir hikslaust með TT aðferðinni hjá Báru. Hún segir að Bára haldi þeim við efnið á skemmtilegan hátt og kennararnir séu mjög góðir.
Hef ekki íslensku menninguna eins í blóðinu
Björk ólst upp í Svíþjóð. Þangað flutti hún 8 ára gömul með foreldrum sínum þeim Óttari Guðmundssyni arkitekt og Gíslunni Jóhannsdóttur skrifstofumanni. Hún var 28 ára og tveggja barna móðir þegar hún flutti aftur heim 20 árum síðar. Björk fannst gott að alast upp í Svíþjóð og segir ávinninginn af Svíþjóðardvölinni tvímælalaust þann, að hún sé jafn fær á sænsku og íslensku. Það hjálpi henni að laga sig að öðrum tungumálum. „Það eina sem mér finnst galli er að ég hef ekki íslensku menninguna eins í blóðinu“ segir hún og rifjar upp að þegar hún kom heim var fólk að ræða um ýmislegt sem það taldi að allir ættu að þekkja, eftir skólagöngu og veru hér heima, sem hún vissi ekkert um. Hún segist heldur ekki búa að neti skólafélaga hér á landi, þó hún hafi eignast vini á fullorðinsárum.
Hafa ekkert að gera heim
Björk stundaði leikskólakennaranám sitt, í Háskólanum í Lundi. Þar hitti hún eiginmanninn Ingólf, sem tók doktorspróf í félagsfræði við skólann. Þau kynntust á háskólabókasafninu. Dætur þeirra tvær búa nú í Lundi og Malmö ásamt fjölskyldum sínum, en þær fetuðu í fótspor foreldranna og fóru í nám úti. Þær eiga samstals fjóra stráka, þannig að ömmustrákar Bjarkar eru býsna langt í burtu. En hún setur það ekkert sérstaklega fyrir sig. „ Þau eru öll í minni heimabyggð. Ef einhver spyrði mig, hver er þín heimabyggð, myndi ég svara Lundur. Ég fer oft í heimsókn, þó ég myndi vilja hafa þau nær“. Og Björk segir að það taki styttri tíma að heimsækja dæturnar sem búa í Svíþjóð, en það tók hana að aka til Reyðarfjarðar að heimsækja foreldra sína sem bjuggu þar um árabil. Dæturnar eru ekki á leið heim segir Björk, að minnsta kosti ekki sú eldri og tengdasynirnir eru ekki heldur spenntir. Annar þeirra segir „Líttu bara á okkur, hvað höfum við að gera heim? Eigum við að búa inná ykkur? Við eigum ekki fyrir húsnæði og myndum borga margfalt meira fyrir það heima en hér og þyrftum að vinna svo mikið að við sæjum aldrei börnin“.
Erfiðasta starfið
Björk sem var leikskólakennarastjóri í 11 ár, er mjög ánægð með starfið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem hún segir fjölbreytt og skemmtilegt. Þar sé mun minna áreiti en í leikskólastjórastarfinu, enda sé það að mati margra eitt erfiðasta starf sem hægt er að hugsa sér. „Það mæta engir foreldrar inná gólf hjá þér á skrifstofunni í ráðuneytinu og það standa engin börn við dyrnar með ótal spurningar og vangaveltur“, segir hún. Hún segir að ráðherranir séu jafn ólíkir og þeir séu margir. „Með hverjum nýjum ráðherra kemur ólík menning og nýjar áherslur. Það er gefandi og gott að vera með ákveðna „dynamik“ í starfinu og þurfa að taka beygjur og breyta til“.
Lestarferð yfir Rússland og Síberíu
Ferðin sem þau Björk og Ingólfur ætla að fara í sumar, ásamt bróður hennar, mun hefjast í Helsinki, en þaðan fara þau til St. Pétursborgar. Þar byrjar lestarferðin og farið verður til nokkurra rússneskra borga þar sem gist verður á hótelum og stoppað í um það bil tvo sólarhringa. Þremenningarnir verða í Moskvu á meðan HM stendur þar sem hæst og síðan fara þau til borga eins og Novosibirsk – Ekaterinburg og Irkutsk sem er við Baikalvatn. Þaðan liggur leiðin til höfuðborgar Mongólíu, en farið verður í hirðingjaþorp fyrir utan borgina og gist þar í tjöldum. Þaðan verður svo farið til Pekíng þar sem þau dvelja í fimm daga og fljúga svo heim. Ferðin tekur alls rúmar þrjár vikur. „Áður hafði maður hvorki tíma né peninga til að ferðast“, segir Björk. „Nú opnast nýir möguleikar á að gera eitthvað svona. Það verður mjög spennandi og gaman að hafa eitthvað til að hlakka til.