Múnderingin frá Karnabæ klikkaði ekki

Margir muna fyrst eftir Karnabæ þegar verslunin var á horninu á Týsgötu og Skólavörðustíg. Fulltrúi ungu kynslóðarinnar Kristín Waage afgreiddi þar á tímabili og unglingar voru hálf feimnir að koma inn í búðina til að skoða fötin. Mörgum eru líka eftirminnileg fötin sem þeir keyptu þar. Ungur piltur sem keypti laxableik jakkaföt með vesti minnist þess ennþá, en vinur hans fékk sér ljósgræn. „Við vorum ekkert smáflottir“ segir hann. Annar keypti sér gular buxur með svörtum röndum og lufsulegan jakka sem hann er búinn að gleyma hvernig var á litinn. „Keypt undir ærandi hávaða og jórtrandi starfsfólki sem rændi mann sjálfstæðum vilja“ rifjar hann upp.   Ásta K. Ragnarsdóttir man vel eftir versluninni á horninu. „Ég og frænka mín keyptum okkur sitthvora Cowboy skyrtuna, hún bleika og ég bláa og svo tókum við verslunarmannahelgina með trompi! Sjálfsmyndin dafnaði svo sannarlega í fötum frá Karnabæ“.   Jón Ingi Caesarsson keypti græn jakkaföt í umboði Karnabæjar á Akureyri, í Cesar hjá Kóka. Fóðrið var flöskugrænt segir hann, „útvíðar buxur og háhælaðir þykkbotna skór, ég varð alveg 1.90+ á þeim. Maður klikkaði ekki í Sjallanum í þessari múnderingu, hún svínvirkaði“.

 

 

Ritstjórn júlí 13, 2014 10:00