Myndlist og jóga í gömlu bakaríi

Leið hjónanna, Þóreyjar Eyþórsdóttur myndlistarkonu og Kristjáns Baldurssonar jógakennara, til að halda áfram að lifa lífinu lifandi er að opna lítið gallerí, Gallerí Vest við Hagamel 67. Þórey og Kristján eru nýkomin frá Flórens, þangað fóru þau til að halda upp á að hálf öld er liðin frá því þau hittust fyrst í Glaumbæ. Þórey segir brosmild að þau noti hvert tækfæri til halda upp á allt sem hægt sé að halda upp á. „Við njótum hverrar stundar,“ segir hún.

Þórey og Kristján sáust fyrst í Glaumbæ fyrir 50 árum. Þau eru nýkomin frá Flórens þar sem þau héldu upp á  þessi tímamót.

Þórey og Kristján sáust fyrst í Glaumbæ fyrir 50 árum. Þau eru nýkomin frá Flórens þar sem þau héldu upp á þessi tímamót

Jóga fyrir alla

Gallerí Vest verður opnað formlega, laugardaginn 22 nóvember, með sýningu Þóreyjar og tengdasonar hennar Magnúsar Ó. Helgasonar. Plássið sem hýsir galleríið hafði verið til sölu í nokkurn tíma en síðast var þar Hagabakarí til húsa. Innan skamms ætlar Kristján að hefja jógakennslu á morgnana í galleríinu. Kristján er tæknifræðingur en ákvað að fara að gera eitthvað allt annað þegar hann hætti að vinna. Hann ákvað að verða jógakennari og útskrifaðist sem slíkur, 69 ára gamall, í september síðastliðnum.

 Að sameina huga og sál

„Það útskrifuðust 30 konur um leið og ég, við vorum bara tveir karlarnir. Þeir eru eitthvað hræddir við þetta,“ segir hann og brosir. Sjálfur segist hann hafa haft mikinn áhuga á jóga og indverskum fræðum allt sitt líf. „Jóga þýðir að sameina huga, líkama og sálina, þetta þrennt verður að tengjast vel svo fólki líði vel,“ segir Kristján. Jógakennslan verður inn í myndlistarsalnum. „Ég ætla að miða kennsluna við þá sem eru orðnir 60 ára og eldri segir hann. Annars eru allir velkomnir sem hafa áhuga og vilja vera með,“ segir hann og bætir við að hann sé að hugsa um að bjóða fleirum að koma og vera með tíma í galleríinu.

 Talmeinafræðingur og sálfræðingur

Á meðan Lifðu núna situr að spjalli við Kristján er Þórey að leggja lokahönd á eitt verkanna sem verður á sýningunni en á henni sýnir hún fjölbreytt textilverk, útsaum og þrykk. Þórey hefur unnið að myndlist allt sitt líf. Það hafa þó verið aðrir hlutir sem hafa verið hennar aðalstarf í gegnum tíðina. Auk þess að vera myndlistarkona er Þórey hámenntuð, hún er kennari, talmeinafræðingur og sálfræðingur.

 Flakkað á milli landa

„Ég held að ég sé mjög skipulögð. Mér leiðist að eyða tímanum í ekki neitt. Áður en ég sofna á kvöldin fer ég yfir daginn velti því fyrir mér hvernig ég hafi notað hann,“ segir myndlistarkonan. Þórey fór tvítug til náms á lýðháskóla í Noregi og heillaðist af landi og þjóð. Þórey fór að kenna og Kristján í nám, og síðar Þórey. Allar götur hafa þau búið til skiptis í Noregi og á Íslandi en líka í Bandaríkjunum auk þess sem Þórey bjó í Danmörku um tíma. Þau eiga saman fjórar dætur sem allar eru uppkomnar. Þórey hefur komið ótrúlega mörgu í verk í lífinu og stöðugt verið að bæta við sig í námi og vinnu.

 Yngdist um mörg ár

„Ég var orðin rúmlega fimmtug þegar ég ákvað að fara til Kaupmannahafnar og lesa sálfræði. Á þeim tíma hafði ég hreinlega þörf fyrir að fara í meira nám. Ég ákvað í leiðinni að skella mér á grafík námskeið og námskeið í olíumálun,“ segir hún og bætir við að það hafi verið alveg ótrúlega skemmtilegt að vera námsmaður í Kaupmannahöfn. Hún hafi yngst um fleiri, fleiri ár við Danmerkurdvölina. „Ég lærði alla vikuna þegar ég bjó út í Danmörku en á laugardögum tók ég mér frí og þá fór ég gjarnan á skemmtilegt kaffihús til að virða fyrir mér mannlífið,“ segir Þórey. Sýning Þóreyjar og Magnúsar verður opin fram yfir jól alla daga nema á mánudögum og þriðjudögum þá er lokað. Þegar sýningunum lýkur koma svo aðrir listamenn og setja upp sýningar

 

þriðja mynd

Verkin hennar Þóreyjar

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 21, 2014 17:06