Nían hans pabba

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

Kannski var það eftir að foreldrar mínir gengu í hjónaband að 9 varð þeirra tala – aðallega þó talan hans pabba. Þau hittust ung, hann fæddur 4. dag síns mánaðar og mamma 5. dag síns mánaðar svo samtalan var 9.

Þau gengu í hjónaband 9. september, sem sagt níunda dag níunda mánaðarins. 9.9. var því þeirra dagur. Við erum 5 systkinin, þrír strákar og tvær stelpur, ef nota má svo ungæðislegt orð yfir fólk sem nú er sitt hvoru megin við sjötugt. Frumburðurinn, eldri bróðir minn, fæddist að sjálfsögðu 9. dag síns mánaðar. Ég var næstur í röðinni, kom í heiminn 18. dag míns mánaðar. Það var vel ásættanlegt því 9 gengur svo bærilega upp í 18. Þrjú börn bættust í hópinn, öll fædd 9. dag síns mánaðar. Þegar von var á yngsta barninu var enginn efi í huga fólks hvaða mánaðardag mætti vænta fæðingarinnar, þótt þá væri ekki til nútímatækni til að ákvarða nákvæman fæðingardag – og það stóð heima. Þann níunda mætti yngri bróðir minn galvaskur, til í tuskið. Nákvæmnin með níuna fullkomnaðist í systrum okkar. Þær eiga sama afmælisdaginn með tveggja ára millibili, sameinast um sína níu.

Eftir þetta var leiðin mörkuð. Pabbi var bílakall, skipti oft um bíla og tegundir, allt frá Moskvítum upp í dollaragrín – jafnvel blæjubíla sem fengust í Sölunefnd varnarliðseigna – en alltaf hélt hann í R-bílnúmerið sitt sem samanstóð af níum. Í æsku okkar stóð einu sinni til að flytja frá höfuðborginni í Garðabæ, sem þá hét að vísu Garðahreppur, en til þess kom þó ekki. Það breytti því þó ekki að pabbi var búinn að útvega sér G-bílnúmer, sem fylgdi Gullbringusýslu á sínum tíma – svona til öryggis. Það samanstóð af sömu níunum og R-númerið. Þegar ekki varð af flutningnum fékk Garðhreppingur, vinur hans, númerið, enda þótti það flott. Menn lögðu talsvert upp úr fínum bílnúmerum þegar þau fylgdu kaupstöðum og sýslum.

Það var sem sagt hægt að velja falleg og eftirsóknarverð bílnúmer, ef menn höfðu góð sambönd, eins og það var kallað. Klíkuskapur kann einhver að segja, en menn reyna að bjarga sér. Tölvur nútímans ákveða bílnúmerin okkar svo ómögulegt er að segja hvað talnarunu maður fær – nema þeir sem ganga svo langt að kaupa sér einkanúmer. Sama gilti í gamla daga með númer á bankareikningum. Ef menn voru bærilega innundir mátti velja þau. Pabbi hafði greinilega náð sambandi í bankanum, ekki síður en hjá Bifreiðaeftirlitinu sáluga, því samtala bakareikningsins var, jú 9.

Svona fylgdi nían pabba – og raunar mömmu líka gegnum ævi þeirra. Þó mamma væri heldur yngri en pabbi lifði hann í 16 ár eftir að hún féll frá. Þegar hún lést óvænt stóð hann – og raunar við börn þeirra – frammi fyrir vali á legstað. Það vafðist þó ekki fyrir pabba þegar hann hafði val um nokkra reiti í kirkjugarðinum – og einn var merktur E-9. Þá þurfti ekki að ræða það frekar.

Pabbi náði háum aldri. Nokkuð var þó farið að draga af honum þegar níræðisafmæli hans nálgaðist en hann hélt þó fullri andlegri heilsu. Því var hann ákveðinn í því að ná þeim merka degi að geta fagnað 90 ára afmæli sínu. Það gerði hann með stæl – og lifði 9 daga í viðbót. Verkið fullkomnað, ef svo má segja, markmiðinu náð.

Svo forsjáll var pabbi þegar hann valdi móður okkar legstað á sínum tíma að hann tók frá pláss fyrir sjálfan sig í eilífðinni. Þar hvíla þau hjón eftir farsælan dag – frá brúðkaupsdeginum 9.9. á sínum tíma – í reitnum góða, E-9.

 

 

Jónas Haraldsson apríl 17, 2023 07:00