Nokkrar goðsagnir tengdar jólunum

Margar skemmtilegar goðsagnir eru tengdar jólunum og flestar snúast um mannkærleika, örlæti og samúð, enda er það hinn sanni andi jólanna. Hér á eftir fara nokkrar vel þekktar og aðrar minna þekktar þjóðsögur og sagnir sem tengjast jólunum.

Sankti Nikulás

Flestir kannast við goðsögnina af Sankti Nikulási sem fæddist í Patera í Litlu-Asíu árið 280 eftir Krist. Hann varð munaðarlaus þegar hann var barn, var alinn upp af munkum og gerðist prestur. Síðar var Nikulás kosinn biskup og var fangelsaður vegna trúar sinnar. Hann var þekktastur fyrir gjafmildi sína og sagan segir að oft hafi Nikulás gengið milli höfðingjanna og beðið þá um mat til að færa hinum fátæku. Eitt sinn er sagt að hann hafi klæðst dulargervi og farið um götur borgarinnar og gefið fátækum börnum gjafir. Sagnfræðingar telja að Sankti Nikulás hafi dáið árið 343 eftir Krist en margir vilja meina að hann lifi enn og sé enn að færa börnum gjafir á jólum.

Jólasokkurinn

Sagan segir að fátækur maður hafi eitt sinn leitað á náðir Sankti Nikulásar og beðið hann um að hjálpa sér að útvega heimanmund handa dóttur sinni. Sökum fátæktar föðurins var ekki útlit fyrir að stúlkan gæti gifst því þá tíðkaðist að heimanmundur fylgdi öllum konum í hjónasængina. Nikulás lofaði manninum einhverri úrlausn en gat ekki útvegað aurana strax. Rétt fyrir jól tókst honum að efna loforð sitt við manninn og henti pyngju fullri af gullpeningum inn um opinn glugga á húsi hans þegar hann átti leið fram hjá. Pyngjan lenti í sokk stúlkunnar sem hún hafði hengt til þerris á arinhilluna. Eftir það varð það siður að hengja sokka barnanna á heimilunum á eldstæðið og venjulega fannst þá gullpeningur í sokknum daginn eftir.

Goðsögnin um jólakertið

Í þorpi nokkru í Austurríki bjuggu fyrir margt löngu gamall steinsmiður og kona hans. Þótt þau hjónin væru fátæk voru þau samt þekkt fyrir gjafmildi sína og örlæti. Gömlu hjónin höfðu fyrir sið á dimmum vetrarnóttum að setja kerti út í gluggann á húsi sínu til að vísa köldum og þreyttum ferðalöngum leiðina heim til þeirra ef þeir kynnu að þurfa á hjálp að halda. Um þessar mundir var stríð í Austurríki og margir urðu illa úti vegna átakanna. Svo undarlega brá við að það var eins og óhöppin og erfiðleikarnir sneiddu fram hjá húsi gamla steinsmiðsins. Nágrannar hans í þorpinu veltu því fyrir sér hverju þetta sætti og einn þeirra sagði: „Hafið þið ekki tekið eftir því að þau láta alltaf kerti loga í glugganum sínum? Kannski ættum við að gera þetta líka og athuga hvort í því sé fólgin einhver vernd.“ Fólkið ákvað að reyna þetta ráð og um kvöldið logaði ljós í öllum gluggum í þorpinu. Daginn eftir barst sú frétt eins og eldur í sinu um landið að stríðinu væri lokið og lauk þá fólkið allt upp einum munni um að kertin hefðu reynst sannkölluð friðarljós og síðan þá tíðkast að láta ljós loga á jólanótt í híbýlum manna.

Goðsögnin um sykurstafinn

Í Indíana rétt fyrir aldamótin 1900 bjó sælgætisgerðarmaður sem í kringum jólin vildi gjarnan búa til eitthvert sælgæti sem minnti á Jesúm Krist og fæðingu hans. Hann valdi harðan, hvítan brjóstsykur vegna þess að Kristur hafði verið kallaður klettur aldanna (the rock of ages). Brjóstsykurinn var mótaður í J bæði til að minna á fyrsta stafinn í nafni Jesú en líka vegna þess að það minnti á stafi fjárhirðanna sem voru með hjörð sína í haga nóttina sem Jesús fæddist. Að lokum bætti sælgætisgerðarmaðurinn rauðri rönd eftir brjóstsykurslengjunni til að minna á að guðssonurinn lét lífið til að mennirnir mættu öðlast eilíft líf og að blóð hans rann þegar hann gekk píslargöngu sína upp á Golgatahæð og rómversku hermennirnir börðu hann áfram.

Sagt er að piparmyntubragð sé af brjóstsykrinum því piparmyntan er skyld hyssop jurtinni en samkvæmt Gamla testamentinu var hún notuð til að hreinsa sálina og minna menn á að sjálfsfórna er krafist af þeim sem leita réttlætisins og Jesús er hið hreina lamb guðs sem dó fyrir syndir mannanna.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.