Tengdar greinar

Of mikil samvera eldri hjóna getur verið kæfandi

Það eru mikil viðbrigði þegar fólk hættir að vinna og mörg hjón finna verulega fyrir því. Sá sem hefur verið meira útivinnandi um ævina, oftast karlmaðurinn í sambandinu, fer allt í einu að vera mikið heima. Hann  fer að vilja vera með eiginkonunni alla daga. Fara með henni hvert sem hún fer og fara jafnvel að skipta sér af rútínunni í heimilishaldinu. Stöðug samvera getur valdið pirringi og óáængju. Breski rithöfundurinn Sandra Howard lýsti þessu skemmtilega í blaðagrein, skömmu eftir að eiginmaðurinn og pólítíkusinn Michael Howard fór á eftirlaun og settist að í hennar ríki, á heimilinu. Hún vildi skrifa bækur, en hann vildi gjarnan hafa félagsskap. Þetta kom henni í ákveðið uppnám. Í lok greinarinnnar sagði hún:

„Það er svo margt sem ég elska í fari hans. Hann kemur mér til að hlæja – jafnvel þegar ég er alveg öskureið, obg ég hygg að ég eigi að fagna því að hann vill helst af öllu vera heima – hjá mér. En of mikil samvera getur verið kæfandi Þess vegna er ég á móti eftirlaunaaldrinum. Þrátt yrir allt er nauðsynlegt fyrir hvaða eiginkonu sem er að taka sér smáhvíld, jafnvel frá fullkomnum eiginmanni“.

Það hefur margt verið rætt og ritað um þessi mál og í grein á vefnum sixty and me, var nýlega grein þar sem þetta var reifað í löngu máli. Bent var á að það þyrfti að finna jafnvægi í sambandinu við nýjar aðstæður, þannig að báðum liði vel og nytu félagsskapar hvors annars, án þess að missa allt sjálfstæði. Það útheimti vinnu og þar sem sambönd væru mismunandi væri einnig mismunandi hvaða lausnir ættu við. En bent var á níu atriði til að styðjast við, til að ná jafnvægi í tilveru hjóna eftir að þau eru hætt að vinna.

  1. Að ræða og koma á daglegri rútínu sem hentar báðum. Ekki vera samt það föst í henni að það megi aldrei víkja frá henni.
  2. Að setja mörk, bæði útá við gagnvart öðru fólki og inná við, gagnvart makanum. Vera skýr og láta vita af því hvaða þörf þið hafið fyrir að vera útaf fyrir ykkur og þörfina fyrir sambönd við makann og aðra.
  3. Taka frá tíma til að sinna sjálfum sér og sértökum áhugamálum sem menn vilja sinna.
  4. Þó það sé nauðsynlegt að hver og einn sinni eigin áhugamálum, þá skiptir máli uppá jafnvægið að hjón geri líka eitthvað saman sem styrkir sambandið.
  5. Verið opin um fjármálin, sem breytast oft á þessu aldursskeiði. Ræðið þau og leitið til sérfræðinga eftir aðstoð ef þörf er á, til að endurskipuleggja fjárhaginn þegar fólk hættir að vinna.
  6. Ef makinn situr of mikið einn heima, hvetjið hann til að sækja sér félagsskap, þar sem hann getur sinnt sínum áhugamálum áfram, með öðru fólki.
  7. Ræðið eftirlaunalífið opinskátt. Ræðið líðan ykkar og hvaða væntingar þið hafið um lífið á þessu æviskeiði. Leitið leiða til að gefa lífinu tilgang, þegar þið eruð ekki lengur á vinnumarkaði.
  8. Verið þolinmóð við hvort annað og temjið ykkur að setja ykkur í spor hvors annars. Það gerist að fólk verður pirrað og eigi jafnvel erfitt með þessar breytingar. Það er eðlilegt og einnig eðlilegt að sýna því skilning.
  9. Temjið ykkur reglulega hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl. Líkamsþjálfun eykur orku og bætir geð og eftir því sem fólk eldist, þeim mun mikilvægara verður að huga vel að heilsunni.

Starfslokin tákna oft mjög miklar breytingar á högum fólks og bæði eistaklingar og hjón þurfa tíma til að venjast þeim. Ef menn eiga erfitt með það er sjálfsagt að leita til aðstoðar hjá sálfræðingum, félagsráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum sem bjóða uppá ráðgjöf varðandi þetta. Það er oft gott að fá einhvern utanaðkomandi til að skoða málin með sér. En munið, að þó þetta gangi upp og niður til að byrja með, getur góð samvinna hjóna um að móta sér gott líf á „þriðja æviskeiðinu“ gert útslagið um að efrtirlaunaárin verði ánægjulegasti tími lífsins.

Ritstjórn ágúst 23, 2023 07:00