„Ég vil hvetja húsbílaeigendur til að hafa bílana merkta en þeir sem ganga í félagið fá númer og félagsmerki afhent við inngöngu og eiga að líma það á bílinn sinn að framan og aftan, það er svo gaman þegar maður mætir einhverjum á keyrslu að geta skoðað það í bókinni hver var þar á ferð,“ sagði Soffía G. Ólafsdóttir fráfarandi formaður á aðalfundi Félags húsbílaeigenda. Hún brýndi líka húsbílaeigendur til að gefa bílunum nöfn. „Nöfnin er mörg hver tengd viðkomandi einhverjum böndum og gaman að spekúlera með viðkomandi hvaðan nafnið kemur og svo getur maður sagt já þarna er hann Gulli á Vegbúanum eða þarna er Siggi á Jónu sinni, Óli á Afruglaranum eða Soffía á Keili,“ sagði Soffía.
Kynnumst fólki á öllum aldri
Tími húsbílanna er runninn upp og margir komnir af stað út í sumarið.„Við kynnumst fólki á öllum aldri allstaðar af landinu og ferðumst í skipulögðum ferðum, það er það sem gerir þennan félagsskap svo skemmtilegan,“ segir Anna Pálína Magnúsdóttir, núverandi formaður félagsins . Það væri synd að segja að það sé lognmolla í félaginu. Á hverju ári gengst það fyrir nokkrum helgarferðum þar sem félagsmenn koma saman, skeggræða það sem hæst ber, bera saman bílana og borða saman. Auk helgarfeðanna er ein lengri ferð skipulög, í ár verður farið í níu daga ferð um Strandir og sunnanverða Vestfirði. „Tilgangur félagsins er að ferðast um landið í skipulögðum ferðum, standa vörð um hagsmuni húsbílaeigenda, efla kynni milli þeirra, að stuðla að landkynningu innan félagsins og góðri umgengi um landið og efla samstöðu og kynni milli annarra sambærilegra félaga,“ segir hún. Anna Pálína segir að aðbúnaður á tjaldstæðum sé alltaf að verða betri og betri, en það sem mætti betur fara er að fjölga rafmagnstenglum og wc losun mætti vera á fleiri tjaldstæðum.
Saman á bæjarhátíðum
Í dag eru rúmlega 600 félagsnúmer eða á milli 1.100 og 1.200 félagar skráðir í félagið.„Ávinningurinn af því að vera í félaginu er margþættur, til dæmis að kynnast og ferðast með skemmtilegu fólki. Farið er víða um landið og félagið er með afsláttarkjör hjá mörgum fyrirtækjum,“ segir Anna Pálína og bætir við að „Í félagi húsbílaeigenda er skipuð stjórn, ferðanefnd og skemmtinefnd sem eru starfræktar allt árið. Stjórnin heldur utan um félagið, og sér um útgáfu á félagatali og fleiru. Ferðanefnd skipuleggur ferðir sem farnar eru yfir sumarið. Skemmtinefndin sér um að allir skemmti sér í leik, söng og dansi.“ Á hinum ýmsu bæjarhátíðum sem haldnar eru yfir sumartímann er oft fjöldi húsbíla og mikil gleði. Anna Pálína segir að það sé alltaf eitthvað um að félagar fari á milli bæjarhátíða ef þeir séu ekki í skipulagðri ferð á vegum félagsins. Hún segir að sumir noti bílana árið um kring. „Það er alltaf eitthvað um aðað félagar séu á ferðinni yfir vetrartímann, en meirihlutinn er með bílana sína í húsi yfir veturinn,“ segir formaðurinn.