Hulda Margrét Eggertsdóttir var 16 ára gömul þegar hún flutti í Hornvík á Hornströndum með mannsefni sínu Jóni Þorkeli Sigmundssyni. Þau fóru þangað árið 1951 og voru í rúmt ár, komu til baka 1952 um haustið en árið 1947 höfðu síðustu ábúendur farið frá Hornvík. Hulda lenti í ýmsum ævintýrum og var hætt komin enda segir að hún myndi ekki ráðleggja nokkurri manneskju að prófa þetta. Verst af öllu við að búa þarna fannst henni þó kuldinn.
Hornvíkin er á milli Hornbjargs og Hælavíkurbjargs og skiptir Hornströndum í vestur og austurhluta. Hulda hafði farið að vinna á Horni sem ráðskona og eldað fyrir menn sem komu að ná í egg í björgunum þó svo að búskapur hafi lagst af og þar kynntist hún mannsefninu sínu Þorkeli, eða Kela eins og hann var kallaður.
Hvernig stóð á því að þið fluttust í Hornvík? „Keli var einn af svokölluðum eggakörlum sem fóru til að síga í bjargið á vorin og ég var með nokkra á mínum snærum sem þurfti að elda fyrir á meðan á þessu stóð og svo fóru þeir. Við Keli fórum svo í heimsókn til systur hans og mágs að Látrabjargi en þau voru vitaverðir í Hornbjargsvita og bróðir Kela, Pétur, spurði hvort við vildum ekki prófa að búa þarna í húsi sem hann átti á Horni og við Keli vorum alveg til í það, töldum að það yrði gaman að prófa það.
Ekki staður fyrir ófríska konu

Horft inn í Hornvík frá Hornbjargi.
Þorkell var uppalinn á Hornströndum, í Hælavík, og þekkti vel til allra aðstæðna og segist Hulda hafa treyst á hann. „Ég treysti bara á hann. Við fórum um vorið og höfðum með okkur hænur sem mamma gaf mér, kött og eina kú sem tengdamamma mín keypti fyrir okkur.. Svo bauð bróðir hans Kela mér sem var vitavörður í Hornbjargsvita að taka fallegustu gimbrina sína upp í kindakofa ef við færum þarna í Hornvíkina.
Við fórum með þetta allt norður á Fagranesinu og fluttum okkur um set, bara alveg,“ segir Hulda með áherslu. Konráð bróðir Huldu, sem margir þekkja undir nafninu Konni hrefnubani, var níu ára og kom um vorið sem kúasmali. Einn daginn var kýrin horfin og fannst ekki þrátt fyrir mikla leit. Á tíunda degi fannst hún þó við fjallið Snók sem er um 10 km í suður frá Horni og hafði farið rétta leið til síns fyrra heimilis. Þessi kú átti eftir að reynast Huldu og Kela drjúg. „Við urðum að ná í allan mat sjálf sem við ætluðum að borða og þetta vor skaut Keli og snaraði 500 svartfugla. Við hamflettum og sviðum svo fuglana, söltuðum og settum í tunnur í súr því að kýrin mjólkaði svo vel. Við gátum búið til smjör og skyr og fengum undanrennu og það fór allt í tunnuna, allur matur sem átti að vera súr um veturinn.
Þetta var nú hálfgerð bíræfin,“ segir Hulda þegar blaðamaður nefnir að þetta hafi verið ótrúlegur kjarkur hjá svo ungri stúlku að fara þarna. „Auminga mamma mín sagðist hafa orðið gráhærð þennan vetur sem við vorum þarna. Hún hafði áhyggjur af okkur. Ég var líka ófrísk sem bætti nú ekki úr skák. Þetta gekk allt ljómandi vel hjá okkur en þetta var erfitt. Ég hélt að þetta yrði ekki jafn erfitt og það var þegar á reyndi. Við þurftum að afla okkur eldiviðar en við höfðum bara timbrið úr fjörunni og þetta var svo náttúrlega allt frosið og klakað og við urðum að bera timbrið upp í hús, láta það þiðna og saga svo niður. En það sem bjargaði okkur með eldiviðinn var að það eru tvö hús þarna á Horni. Stígshús var við hliðina á okkur þar höfðu verið móstaflar úti í skúr og ég fór í hann og stal heilmiklu af mó. Það bjargaði okkur að geta notað hann í eldinn.“
Þurfti að ganga ófrísk upp gil í miklum snjó til að þvo tauið
Ljóst er að allar aðstæður voru mjög erfiðar og oft og tíðum beinlínis hættulegar en Hulda og Keli voru einstaklega dugleg og björguðu sér, en stundum stóðu þó hlutirnir mjög tæpt. „Aðstæðurnar voru erfiðar en ég fann ekkert fyrir því,“ segir Hulda æðrulaus. „Um veturinn fór náttúrlega að snjóa þarna eins og í Bolungarvík, og annars staðar, en ég er þaðan, það fór allt á kaf í snjó. Ég þurfti að renna mér á rassinum með þvottabala á maganum í Árgil til þess að skola tauið. Ég man alltaf eftir þegar ég var að príla upp brekkuna við Árgilið hvað það var erfitt en ég komst þetta.“
Sá fólk fyrir jólin sem kom með skipi
Hvernig var svo með önnur mataraðföng? „Það var ekkert að hafa. Við vorum kartöflulaus allt árið. Ég hefði átt að hafa vit á að setja niður kartöflur en datt það ekkert í hug þannig að ég varð að baka flatkökur á eldavélinni, ég var með Skandia-eldavél sem var kolavél og bakaði flatkökurnar úr hveiti, haframjöli og rúgmjöli og þetta borðuðum við með öllum mat í staðinn fyrir kartöflur.“
Kom enginn til ykkar meðan á dvölinni stóð? „Þarna var mikil einangrun en næsti staður sem einhver var á var Hornbjargsviti. Það kom enginn til okkar þennan tíma, fyrir utan Konna bróður minn náttúrlega, en það voru einhverjir sem komu með vitaskipinu Hermóði fyrir jólin. Maður varð svo glaður að sjá fólk. Við fengum hangikjötslæri frá mömmu sem hún hafði fengið einhvers staðar og sent okkur, það var kærkomið. En við höfðum ekkert að borða nema fisk sem við veiddum og söltuðum. Við áttum skektu sem Keli smíðaði, sem við veiddum á og svo fórum við yfir Hornbjargið og yfir í Rekavík og þar skutum við seli. Keli skaut 13 seli, hann spýtti skinnið og við seldum þetta svo þegar við komum heim til Bolungarvíkur aftur um haustið og fengum pening fyrir. Það var náttúrlega enga peninga að hafa þarna, við urðum bara að lifa á því sem við veiddum.“

Veturinn var kaldur í Hornvík.
Kuldinn var verstur
Aðstæður voru án efa mjög erfiðar erfiðar en Hulda segist lítið hafa fundið fyrir einangruninni. Hún óttaðist hins vegar að ísbirnir gætu gengið þarna á land. Einu sinn sat hún í rólegheitum að hlusta á útvarpssögu með köttinn í þegar mikið öskur heyrðist. Hulda var viss um að nú væri bjarndýr komið á þeirra slóðir. og Keli sömuleiðis sem kom hlaupandi úr fjósinu. Þá kom annað öskur en þau sáu ekki bjarndýr og vissu í raun aldrei hvaðan þessi óhljóð komu. En eftir þetta var Hulda ávallt með riffilinn hlaðinn sem þau áttu. „Ég fann lítið fyrir einangruninni, ég fann aðallega fyrir kulda. Stundum var kuldinn svo mikill að við urðum að hlaupa hálfa Hornvíkina niður að Hafnarkletti til að fá í okkur hita á kvöldin. En maðurinn minn var svo sjóðandi heitur að hann var eiginlega eins og hitapoki.

Hornbjarg.
Mátti litlu muna að þau færu niður af Hornbjarginu
„Það er alveg ótrúlegt að okkur skyldi detta í hug að fara að búa þarna og að við skildum lifa þetta af. Ég var búin að lofa mömmu því að fara alltaf hálfsmánaðarlega í Látravík til að lata vita af okkur. Maður varð að fara yfir garð og fjall til að komast þangað. Það var svo misjafnt hvernig færðin var og oft var mikil sleipa. Einu sinni fórum við yfir í Látravík til að láta hana vita af okkur en við urðum að fara yfir skarð og þá var bara grátt gler yfir öllu skarðinu og ég segi við Kela: Hvað gerist ef við rennum af stað? Ég passa það, sagði hann en hann fór með skíðin og stafina og bara skreið á hnjánum og ég beið hinum megin. Svo kemur hann til að sækja mig og ég renn af stað. Hann náði þó að grípa í mig og náði í einhvern grastopp sem hann hélt sér í. Þarna munaði litlu að við færum niður þverhnípt Hornbjargið. Ég gleymi aldrei þessari stundu, aldrei,“ segir hún og leggur ríka áherslu á orð sín.
Situr í henni að vilja eiga nógan mat 
Eðlilega hafði búskapurinn á Horni sín áhrif á Huldu, þó ekki slæm. Hún segir að það sé mikil fegurð þarna en að hún myndi ekki leggja það að nokkra manneskju að búa þarna. Hún nefnir þó eitt atriði sem fylgi sér efir dvölina. „Þetta hafði ekkert slæm áhrif á mig og það er yndislega fallegt þarna.. En það fylgir mér æ síðan að vilja eiga nóg af mat og það hefur smitast til krakkanna minna. Það er aðallega það af því við vorum stundum, ja ekki matarlaus, en við borðuðum mjög einhæfan mat. Alltaf fugl, súrsaðan úr tunnu og saltfisk allt árið, kartöflulaust. Ég hef smitað krakkana af þessu. Þú getur ímyndað þér, ég bý ein og ég á tvær frystikistur fullar af mat.“
Er eitthvað sem þú myndir vilja segja við unga fólkið í dag hafandi búið þarna við þessar aðstæður? „Ég myndi ekki leggja þetta á nokkra unga manneskju í dag, ekki einu sinni að vera í hálfan mánuð þar, það er alveg á hreinu. Strákarnir mínir tóku svo húsið sem við pabbi þeirra vorum í á Horni í gegn og það er allt til á myndbandi sem ég er með. Það er ótrúlega gaman að horfa á þetta og ég lifi allt upp aftur. En ég var í góðum höndum á manninum mínum – hann kunni á alla hluti og vissi hvað hann var að gera, hann var 10 árum eldri en ég. Fjölskyldan var guðsfegin þegar við Keli komum aftur til byggða og 22 ára var ég búin að eignast þrjú börn. En það var mikil reynsla að fá að gera þetta, búa þarna við þessar aðstæður í þennan tíma. Það var náttúrlega ekki glóra að gera þetta, en við höfðum þetta af,“ segir þessi einstaka kona.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna







