Páll Valur Björnsson

„Ég er þrefaldur afi og það er skemmtilegasta starf sem ég veit. Barnabörnin eru líf mitt og yndi. Þess utan er ég kennari við Fisktækniskóla Íslands og sit í bæjarstjórn Grindavíkur,“ segir Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður.

Páll Valur og eiginkona hans Hulda Jóhannsdóttir eiga tvö börn, Ólöfu Helgu, hún er þjálfari meistaradeildarliðs Hauka í körfubolta. „Hún er eina konan sem þjálfar í meistaradeildinni,“ segir Páll Valur stoltur og bætir við; „svo eigum við hann Björn Val sem hefur hrist upp í raf og hip hop tónlistarsenunni á Íslandi. Hann hefur meðal annars gert garðinn frægan með Emmsjé Gauta og Úlfi úlfi.“ Ólöf Helga á tvo drengi, Pál fjögurra ára og Björn tveggja ára. Björn á soninn Storm sem fæddist í lok apríl á þessu ári. „Ég reyni að vera eins mikið með strákana og ég get. Það jafnast hreinlega ekkert á við það í lífinu og það að fá að vera með barnabörnunum.“

Páll Valur varð þjóðþekktur þegar hann settist á þing fyrir Bjarta framtíð í Suðurkjördæmi 2013. Hann fór svo í framboð fyrir Samfylkinguna í Reykjavík norður en náði ekki inn og er nú varaþingmaður. „Ég hafði vonast til að ná kjöri, mig langaði til að halda áfram á Alþingi. En af því varð nú ekki. Ég hélt því áfram að kenna og skellti mér svo í bæjarpólitík.“  Kennaraferill Páls Vals er ekki ýkja langur. Hann hætti ungur í skóla og vann ýmis verkamannastörf hér heima og í Danmörku. „Það blundaði alltaf í mér löngun til að fara í skóla og þegar háskólabrú Keilis var set á laggirnar var ég að vinna sem öryggisvörður hjá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli. Ég hafði fylgst grannt með stofnun Keilis og ákvað að slá til og fara í nám, þá hálf fimmtugur. Mér fannst það mjög strembið en ég hafði mikinn áhuga. Það var mikill eldmóður í hópnum sem hóf nám hjá Keili og innan hópsins var góð stemming og mikil samheldni. Það gerði námið svo miklu auðveldara,“ segir Páll Valur.

Hann útskrifaðist úr Keili og ákvað að láta ekki staðar numið. Hann innritaðist í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. „Ég var hálfan vetur í stjórnmálafræðinni. Haustið 2008 varð hrunið á Íslandi og um áramótin ákvað ég að skipta um deild og fór í kennaranám og útskrifaðist með B.Ed gráðu 2011. „Það á afskaplega vel við mig að kenna. Ég fór að kenna við grunnskólann í Njarðvík eftir að ég útskrifaðist en var svo beðinn um fara að kenna við Fisktækniskólann. Þegar maður fer að kenna þetta fullorðinn kann maður svar við öllu. Það er gott að geta leitað í eigin reynslu þegar krakkarnir eru að spyrja mann að einhverju. Maður hefur gengið í gegnum sitthvað í lífinu. Ég fór til dæmis illa með sjálfan mig þegar ég var ungur, vann mikið, drakk allt of mikið og reykti. Ég ákvað að hætta að drekka fyrir 23 árum og svo drap ég í síðustu sígarettunni þremur árum síðar. Svo eru það öll hin verkefnin sem lífið hefur fært manni,“ segir hann og ítrekar að hann sé ánægður með að vera kennari. „Það er áskorun að kenna en ég held að ég megi segja að ég sé góður kennari. Það liggur vel fyrir mér að miðla. Þetta er gefandi starf en mjög krefjandi.“

Eins og áður sagði situr Páll Valur í bæjarstjórn Grindavíkur. „Í mínu pólitíska vafstri hef ég alltaf lagt áherslu á samvinnu og samkennd. Það er allt of lítið af slíku í íslensku samfélagi. Ég er líka óhræddur við að hrósa andstæðingum mínum ef mér finnst að þeir eigi það skilið. Það á að hrósa fólki og við eigum að gera miklu meira af því dagsdaglega. Það er alveg sama á hvaða sviði það er ef við hrósum öðrum náum við því besta fram í hverjum og einum.“

Páll Valur er kominn í sumarfrí. Hann er á leið til Vopnafjarðar þaðan sem hann er ættaður. „Ég er að fara á bæjarhátíð. Ég reyni að heimsækja Vopnafjörð eins oft og ég mögulega get. Móðir mín býr þar og fleiri ættingjar og vinir. Ég hef því mikil tengsl við staðinn. Svo bíð ég bara eftir því að konan mín byrji í sumarfríi. Þá ætlum við að heimsækja hennar heimaslóðir í Fljótunum. Það sem eftir lifir af sumarfríinu höfum við hug á að ferðast um landið norðan og austanvert,“ segir hann að lokum.

 

 

Ritstjórn júlí 4, 2019 06:51