Ragna Fossberg förðunarmeistari hættir hjá Ríkisútvarpinu nú um mánaðamótin eftir nærri hálfrar aldar starf en hún er að verða 70 ára. Ragna hóf störf hjá Sjónvarpinu 1972. Í viðtali í Morgunblaðinu segir hún að mannlegt innsæi sé mikilvægt í starfinu og með tímanum lærist hvernig förðun hæfi hverjum og einum. „Svo er maður jafnvel í hlutverki sálfræðings, því fólk er misvant beinum útsendingum. Þá er um að gera að fá fólk til að draga andann djúpt í stólnum og yfirleitt léttir það á stressinu,“ segir Ragna.
„Förðun hefur breyst mikið síðan ég byrjaði að vinna í sjónvarpinu. Fyrst var útsending í svarthvítu og þykkur farði settur á. Vinnan breyttist við litasjónvarpið og í raun enn meira með stafrænum upptökum og háskerpu. Nú er þetta nákvæmnisvinna sem vanda þarf mjög til svo ekki sjáist blettir eða misfellur. Mála þarf yfir bauga og bólur á andliti fólks og svo þarf förðun að hæfa persónu hvers og eins; augnskuggar og glimmer passa ekki á áttræða konu í fréttaviðtali,“ segir Ragna og bætir við að sjónvarpspersónur hafi stundum sprottið fram í samstarfi sínu og leikstjóra. „Þegar þættir Hemma Gunn voru á dagskrá kom Laddi til mín og ég setti á hann hárkollu og byrjaði að mála. Með það fór Laddi á flug og Elsa Lund bókstaflega fæddist í stólnum hjá mér. Svipað gerðist oft með Spaugstofunni og í Áramótaskaupum, “ segir Ragna ennfremur í Morgunblaðinu.
Ragna hefur séð um förðun í um 30 bíómyndum og ætlar að halda því áfram. „Í vor bíður mín skemmtilegt verkefni fyrir Saga Film sem er átta þátta sería sem heitir Ráðherrann. Jú, auðvitað verða viðbrigði að yfirgefa frábært samstarfsfólk og sömuleiðis umhugsunarvert að fólk sem starfar hjá ríkinu eigi ekkert val um að þurfa að hætta sjötugt. En það er líf eftir RÚV,“ segir Ragna Fossberg að lokum í Morgunblaðinu.