Reiknaðu út hvað þú færð í ellilífeyri frá TR

Á vef Tryggingastofnunar er að finna reiknivél, þar sem fólk getur reiknað út, hver ellilífeyrir þess verður,  fólk fær lífeyrir ýmist eingöngu frá Tryggingastofnun, eingöngu frá lífeyrissjóðum eða bæði þaðan og úr lífeyrissjóði. Lágmarksgreiðsla ellilífeyris frá Tryggingastofnun er núna 248.105 krónur á mánuði fyrir skatta og fyrir utan orlofs- og desemberuppbót og það fá þeir sem hafa engar aðrar tekjur utan TR ef þeir byrja á ellilífeyrir frá TR í næsta mánuði eftir að 67 ára aldri er náð og að þeir hafi 100% búsetuhlutfall þ.e. ekki skertan lífeyrir vegna búsetu erlendis. Þeir sem eru hins vegar með yfir 576.344  krónur á mánuði í aðrar tekjur utan TR t.d. lífeyrissjóðstekjur, fá 0 kr. í ellilífeyrir frá Tryggingastofnun. Það þarf hins vegar 676.344 kr. á mánuði í atvinnutekjur til þess að ellilífeyrir frá TR fari niður í 0 kr.

Reiknivélin á vef Tryggingastofnunar er alger snilld. Hún er á áberandi stað á forsíðu vefsíðunnar, en slóðin á hana er www.tr.is  Það er farið inná reiknivél lífeyris á forsíðunni með því að smella á hana og með því að fylla samviskusamlega út reitina í reiknivélinni og ýta á gula hnappinn neðst, sem heitir Reikna niðurstöður, er hægt að sjá hvaða upphæð viðkomandi fær greidda þegar menn fara á ellilífeyrir.

Lifðu núna sló inn tvö tilbúin dæmi í reiknivélina.

Allar upphæðir á mánuði fyrir neðan eru fyrir utan orlofs- og desemberuppbót, og miðast við 100% búsetuhlutfall, enga flýtingu eða frestun á ellilífeyri og að viðkomandi sé ekki með hreyfihömlunarmat né með börn 18 ára eða yngri. Miðað er við 100% nýtingu á skattkorti hjá TR nema annað sé tekið fram.

Fyrra dæmi

Manneskja sem verður 67 ára á árinu er ógift og býr ein. Hún er með 100.000 krónur úr lífeyrissjóði og 50.000 krónur í séreignasparnað.  Hún fær 225.527 kr.  í ellilífeyri frá TR eftir skatt. Hennar tekjur verða 320.117 kr. á mánuði eftir skatt samkvæmt reiknivélinni.

Ef sama manneskja er með 250.000 krónur úr lífeyrissjóði en allt annað óbreytt, fær hún 171.705 kr. í ellilífeyri TR eftir skatt og tekjur hennar eftir skatt verða 360.885 krónur á mánuði.

Ef hún er hins vegar með 300.000 krónur úr lífeyrissjóði og 50.000 krónur í séreignasparnað fær hún 153.764 krónur frá TR í ellilífeyri og mánaðartekjur hennar eftir skatt verða 374.474 krónur.

Ef sá sem er með 250.000 krónur úr lífeyrissjóði og 50.000 krónur í séreignasparnað vinnur sér inn 100.000 krónur í atvinnutekjur, hækka tekjurnar úr 360.885 krónur á mánuði eftir skatt í 423.945 krónur.

Ef hann vinnur sér hins vegar inn 200.000 krónur á vinnumarkaðinum, en annað er óbreytt verða tekjur hans 451.124 krónur á mánuði (hér er miðað við að hann sé að nýta 100% af skattkortinu sínu utan TR).

Þetta var dæmi af einstaklingi sem býr einn og fær því svokallaða heimilisuppbót, en það er viðurkenning á því að það er dýrara fyrir einn einstakling að reka heimili, en tvo.

Seinna dæmi

Ef við tökum aftur á móti einstakling sem er 67 ára, giftur og í sambúð. Segjum að hann sé með 100.000 krónur úr lífeyrissjóði á mánuði, taki út 50.000 krónur af séreignasparnaði og þau hafi 75.000 samanlagt í fjármagnstekjur. Hann fær 180.978 frá TR  í ellilífeyri eftir skatt. Samkvæmt reiknivélinni verða heildartekjur hans 304.818 krónur á mánuði eftir skatt.

Hér fyrir neðan er miðað við að einstaklingurinn sé að nýta 100% af skattkortinu sínu utan TR:

Ef lífeyrissjóðstekjur hans hækka í 250.000 krónur en allt annað er óbreytt verða mánaðartekjur hans eftir skatt -356.842 krónur á mánuði. Ellilífeyrir eftir skatt verður því  -81.965 krónur, eftir skatt.

Ef hann fær 100.000 krónur til viðbótar  í atvinnutekjur fara tekjur hans eftir skatt í -419.902 krónur. Hækki atvinnutekjurnar í 200.000 kr. hækka heildartekjurnar eftir skatt í -454.585 krónur, eða um -34.683 krónur.

Ef lífeyrissjóðstekjur hans hækka hins vegar í 300.000 krónur og hann hefur engar atvinnutekjur, en annað er óbreytt fara heildartekjur eftir skatt í -374.184 krónur.

 

Ritstjórn október 22, 2019 07:13