Málefni eldra fólks voru til umfjöllunar í þættinum Eyjunni sem var sýndur á ÍNN í gærkvöldi. Gestir þáttastjórnandans Björns Inga Hrafnssonar voru þau Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Wilhelm Wessman, Ellert B. Schram og Hrafn Magnússon. Við grípum niður í þáttinn þar sem rætt var við þau Hrafn Magnússon fyrrverandi framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða og verkalýðskempuna Þórunni Sveinbjörnsdóttur sem er líka fyrrverandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Rætt var um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða, en með þeim skerðingum sem eru í kerfinu, lækkar það sem fólk fær frá almannatryggingum, eftir því sem þeir fá meira úr lífeyrissjóðum, uns greiðslur TR falla alveg niður. Þá var frítekjumark eldri borgara lækkað verulega um áramótin, eða úr rúmlega 100 þúsund krónum á mánuði í 25 þúsund krónur á mánuði. Hrafn sagði íslenska lífeyrissjóðakerfið mjög gott, en um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóðanna sagði hann.
Ríkið hefur gengið alltof langt í því að tekjutengja lífeyrissjóðina með þessum hætti. Ég hef ekkert á móti því að almannatryggingakerfið taki tillit til tekna að einhverju marki, en það er bara gengið of langt. Menn eru of gráðugir í að búa til kerfi, sem hefur það í för með sér að margt fólk sér ekki hag sinn í að borga í lífeyrissjóði. Það grefur undan lífeyrissjóðakerfinu, ef við höldum áfram með þessum hætti. Það má líka benda á það, að það er auðvitað umræða í þjóðfélaginu um að hækka lífeyristökualdurinn og ekki nema gott eitt um það að segja. Fólk er orðið heilsuhraustara í dag en það var fyrir nokkrum áratugum síðan. Þess vegna er það sérkennilegt að á sama tíma skuli frítekjumarkið lækkað með þessum hætti. Það gerir fólki ókleift að vinna úti og fá einhvern lífeyri frá TR. 100 þús króna launtekjur þýða 45 þúsund króna lækkun á bótum almannatrygginga. Þetta gengur ekki. Þarna verður að verða veruleg breyting á.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir sagði í þættinum að þeim fyndust það hafa verið mistök í frumvarpinu um almannatryggingar að lækka frítekjumarkið með þessum hætti. Hún benti á að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði fyrir tveimur árum sagt að hann vildi frekar hækka frítekjumark, vegna þess að það vantaði fólk. Hún sagði að það væri verið að skoða þetta mál í tveimur ráðuneytum og aðspurð hvort hún héldi að það næðist fyrir vorið sagði hún:
Ég vona það. Þetta er bara röng stefna. Við finnum reiði fólks yfir því að geta ekki ráðið sér sjálft. Geta gripið í hlutastörf, bætt stöðu sína og verið með í lífinu.
Sjá viðtalið við Hrafn og Þórunni hér.