Röddin sem snerti flesta hjartastrengi er þögnuð

Tónlist getur verið innblástur, uppspretta orku, róandi áburður fyrir sálina og huggun á erfiðum tímum. Allt þetta á við um lagið Killing Me Softly With His Song í flutningi Robertu Flack. Það er varla til nokkuð mannsbarn sem ekki hefur einhvern tíma heyrt þetta lag og nú er hún dáin konan sem heillaði alla með blæbrigðaríkri rödd sinni, rödd sem virtist geta túlkað allt tilfinningalitróf mannsins.

Roberta var nýorðin 88 ára þegar hún lést þann 24. febrúar síðastliðinn en hún fæddist 10. febrúar árið 1937. Hún lést af hjartaáfalli í sjúkrabíl á leið á spítala á Manhattan í New York. Hennar er minnst víða um heim núna sem eins af stærstu nöfnum í rhythm and blues tónlistarheiminum. Roberta ólst upp í Black Mountain í Norður Karólínu. Foreldrar hennar voru músíkalskt fólk og mamma hennar var organisti í kirkjunni. Roberta fór snemma að syngja í kirkjukórnum og lærði á píanó frá því hún var níu ára. Fimmtán ára fékk skólastyrk til að læra tónlist í Howard University og var í hópi þeirra allra yngstu til að fá inngöngu þar í sögu skólans. Enginn yngri hefur komist þar inn en síðan hún stundaði þar nám hafa örfáir jafn gamlir og hún var þá fengið að hefja nám. Hún var aðeins nítján ára þegar hún útskrifaðist.

Robertu langaði að verða óperusöngkona og hafa lifibrauð af tónlistinni en byrjaði á að kenna tónlist heima í Norður Karólínu. Til að drýgja tekjurnar kom hún fram og söng í næturklúbbum á kvöldin og um helgar. Hún söng jöfnum höndum klassískar óperuaríur, gospel, djassstandarda og dægurlög. Fljótlega vakti þessi sérstæða rödd athygli manna og hún var pöntuð til að syngja í tónleikasölum og öðrum stærri vettvöngum þar sem tónlistarflutningur fer fram. Árið 1968 var hún svo ráðin í fast starf hjá, Mr Henry’s Restaurant, og það varð til þess að hún hætti að kenna.

Hlaut ótal Grammy-verðlaun

Hún kynntist um svipað leyti píanistanum og söngvaranum Les McCann og hann vakti athygli stjórnenda  Atlantic Records á henni og árið 1969 kom út fyrsta platan hennar, First Take. Það var þó ekki fyrr en árið 1971 að hún sló í gegn. Þá kom út kvikmyndin, Play Misty for Me, í leikstjórn Clints Eastwood og þar spilaði útvarpsmaðurinn, Dave, lagið, The First Time Ever I Saw Your Face, eftir kántrístjörnuna Ewan MacColl í flutningi Robertu og lagið skaust umsvifalaust upp í fyrsta sæti vinsældalistans árið 1972 og sat þar í sex vikur. Hún fékk síðan Grammy-verðlaunin fyrir plötu ársins árið 1973 og ári síðar sömu verðlaun fyrir lag ársins sem var hið klassíska og heimsþekkta, Killing Me Softly With His Song. Þetta sama ár sat svo hennar útgáfa af  Feel Like Makin’ Love í fyrsta sæti bandaríska vinsældalistann í nokkrar vikur. Síðan þá hefur Roberta fengið ótal Grammy-verðlaun og er meðal þeirra tónlistarmanna sem hafa hampað þeim oftast.

Hún hóf samstarf við sálartónlistarmanninn Donny Hathaway um þetta leyti og þau áttu marga smelli sem voru þaulsætnir efst á vinsældalistum um allan heim. Meðal annars má nefna Where Is the Love og The Closer I Get to You. Donny dó í janúar árið 1979 en ári síðar sló lag þeirra, hans og Robertu, Back Together Again, í gegn í Bretlandi.  Hún naut mikilla vinsælda þar og í raun um alla Evrópu á þessum tíma og dúett hennar og Peabo Bryson, Tonight, I Celebrate My Love, var spilað í lok nærri allra dansleikja á þessum árum og hvenær sem plötusnúðar þurftu að kæla niður stemninguna í næturklúbbunum.

Roberta Flack hafði gríðarlegt raddsvið og var einstaklega fjölhæf söngkona. Á ferlinum söng hún með ótal öðrum listamönnum, átti í samstarfi við mörg á þekktustu nöfnum tónlistarsögunnar, nefna má Miles Davis, Leonard Cohen, Laura Nyro og Michael Jackson. Árið 2018 hélt hún tónleika í Appollo-leikhúsinu og það leið yfir hana á sviðinu. Umboðsmaður hennar sagði þá frá því  að hún hefði fengið heilablóðfall nokkrum árum fyrr og dró hún sig að mestu út úr sviðsljósinu upp frá því. Það var svo árið 2022 að send var út fréttatilkynning þess efnis að söngkonan þjáðist af ALS eða Amyothropic Lateral Sclerosis, taugasjúkdómur sem einnig er þekktur undir skammstöfuninni MND.

Roberta giftist hún tónlistarmanninum Steve Novosel árið 1966 en þau skildu árið 1972. Hún var barnlaus en var guðmóðir tónlistarmannsins Bernard Wright og föðursystir listdansarans á skautum, Rory Flack. Hún var einnig mikill dýravinur og barðist ötullega gegn hvers kyns vanrækslu og níðingsskap gegn dýrum í Bandaríkjunum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn febrúar 26, 2025 07:00