Þegar fólk kemst á „viðgerðaraldurinn“ fær það iðulega nýja mjaðmaliði, eða nýja hnéliði. Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu fyrir árið 2017 eru konur í meirihluta þeirra sem fá nýja mjaðmaliði. Eða 59,2% á meðan karlar eru 40,7%. Þrátt fyrir að gert hafi verið átak til stytta biðtíma eftir mjaðmaliðaaðgerðum, eru enn töluvert margir sem bíða.
Sumir hafa ugglaust beðið lengur
Samkvæmt nýjustu tölum frá Landlækni, frá því í júní á þessu ári, bíða 354 eftir því að komast í liðskiptaaðgerð á mjöðm, eins og það heitir á fagmáli. 214 höfðu verið lengur en 3 mánuði á biðlistanum. Listinn er miðaður við þrjár heilbrigðisstofnanir sem eru hluti af átakinu sem efnt var til fyrir nokkrum misserum til að stytta biðlista meðal annars eftir liðskiptaaðgerðum á mjöðm. Þetta eru Landsspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heiðbrigðisstofnun Vesturlands. En ugglaust hafa einhverjir beðið enn lengur, því í umfjöllun Landlæknis er eingöngu miðað við biðtímann eftir að einstaklingurinn fór á biðlista eftir aðgerðinni. Tíminn sem viðkomandi beið eftir að komast að hjá sérfræðingi sem mat þörf á aðgerð og setti hann á biðlista er ekki meðtalinn.
Færri á biðlista en fyrir tveimur árum
Fyrir ári voru 366 á biðlista eftir liðskiptaaðgerð á mjöðm, en fyrir tveimur árum 492, þannig að það hefur verið að saxast á listann. Viðmiðunarmörkum Landlæknisembættisins um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerðum hefur hins vegar ekki verið náð í þessari grein, en embættið telur hann 90 daga eða 3 mánuði. Víða erlendis er miðað við að 80% komist í aðgerð innan þess tíma og miðar embættið einnig við það.
Níu manns fóru í mjaðmaskiptaaðgerð í útlöndum
Framkvæmdum aðgerðum hefur hins vegar verið að fjölga og ef miðað er við sama aðgerðafjölda á ári og verið hefur að undanförnu, tæki að mati Landlæknis, tæpt hálft ár að gera aðgerðir á þeim sem eru á biðlistanum. Það kemur einnig fram í þessum talnaefni Landlæknis að samþykkt var að gera níu liðskiptaaðgerðir á mjöðm erlendis á síðasta ári, vegna langrar biðar hér á landi.
Greitt fyrir tilfallandi kostnað, ekki aðgerðina sjálfa
Hér á landi borgum við ekki fyrir að fara í mjaðmaskiptaaðgerð á sjúkrahúsi, en þeir sem fara í mjaðmaskiptaaðgerðir koma samkvæmt upplýsingum frá Landsspítalanum í svokallaða innskrift á göngudeild fyrir aðgerðina og greiða fyrir það samkvæmt gjaldskrá. Þegar mætt er í innskrift, fara menn í viðtal við lækni og svæfingalækni, fá fræðslu hjá hjúkrunarfræðingi og gangast undir almenna blóðrannsókn og hugsanlega lungnamyndatöku ef svæfing er yfirvofandi. Það er mjög breytilegt hvað greitt er fyrir þetta og fer eftir því hversu mikla heilbrigðisþjónustu viðkomandi hefur fengið á síðast liðnum 12 mánuðum, aldri og fleiru. Þakið á kostnaði þeirra í heilbrigðiskerfinu, sem eru 67 ára og eldri, er rúmlega 47.000 krónur á ári. Sama gildir um eftirskoðun, sem fólk þarf alltaf að mæta í eftir liðskiptaaðgerðir, að það er mjög mismunandi hversu mikið það þarf að borga fyrir hana. Eftir aðgerðina fylgir svo sjúkraþjálfun sem menn greiða ákveðinn hlut í, en mismunandi mikið eins og í eftirskoðun og innskrift. Hjá Klíníkinni í Ármúla borga menn 1,2 milljónir króna fyrir aðgerðina, en Sjúkratryggingar greiða ekkert í henni. Þeir sem þangað leita þurfa því að greiða aðgerðina að fullu.
Upplýsingar um heilbrigðisþjónustuna finnur þú með því að smella hér á Upplýsingabanka síðunnar.