Sameinumst gegn einelti og sköpum gott samfélag

Dagur gegn einelti er haldinn ár hvert þann 8. nóvember og er tileinkaður baráttunni gegn einelti. Því miður er það svo að einelti er viðvarandi vandamál í samfélaginu, byrjar strax í leikskóla og helst áfram út í gegnum lífið. Enginn er óhultur og það er sama á hvaða aldri manneskjan er hún getur verið útsett fyrir einelti.

Margir fullorðnir eiga að baki sögu eineltis, það kann að hafa byrjað í grunnskóla eða í framhaldsskóla og síðan hætt en stundum byrjar ofbeldi aftur og fólk upplifir einelti á vinnustað. Einelti þrífst einnig innan félagasamtaka, í tómstundastarfi og þess verður vart á hjúkrunarheimilum og í þjónustuíbúðum fyrir aldraða. Erlendar rannsóknir sýna að milli 1ö-20% aldraðra upplifa einelti á heimilum sínum eða innan hópa sem þeir tilheyra. Áður fyrr voru fá úrræði gegn einelti og þolendur annað hvort létu það yfir sig ganga eða lögðu á flótta undan ofbeldismönnunum. Það er ákaflega óheppilegt vegna þess að þar með upplifir ofbeldismaðurinn að hegðun hans sé réttlætanleg og eðlileg. Það verður til þess að hann heldur áfram og skilur eftir sig slóð brotinna einstaklinga og rofinna tengsla hvert sem hann fer.

Orðið bulla er hljóðlíking við enska orðið bully. Að auki var það til í málinu sem heiti á þungri tréstöng í strokk. Bullunni var lyft og slegin í botn strokksins reglulega allt þar til rjóminn var orðinn að smjöri. Þess vegna er líkingin ansi góð því nákvæmlega þetta gerir ofbeldisfólk. Það hamast á þolendum sínum þar til þeir breytast, missa sjálfstraust og lífsgleði. Í byrjun reyna flestir að svara, verja sig fyrir árásunum og stundum tekst það, sérstaklega ef bullan kemur framan að fólki, leynir ekki ofbeldistilhneigingum sínum. Sú sem dylst er aftur verri. Þær geta komist upp með að eyðileggja aðra árum saman. Aðferðirnar eru margar en flestar þekktar því ofbeldi fylgir ákveðnum mynstrum og þeir sem kjósa að beita því eru fljótir að læra hvað virkar.

Bullan sem læðist og sú sem stekkur

Ein er sú að finna leið til að sýna þolandann ávallt í sem neikvæðustu ljósi. Á vinnustað er því algengt að honum séu fengin verkefni sem bullan veit að eru líkleg til að reynast honum erfið. Dugi það ekki til má alltaf gefa óskýr fyrirmæli þannig að hvernig sem reynt að er ljúka verkinu er það aldrei fullunnið og aldrei gert á réttan hátt. Að vinna undir slíkum kringumstæðum getur smátt og smátt eyðilagt heilsu fólks, líkamlega jafnt sem andlega. Í félagslegum aðstæðum er töluvert um bullur. Fólk sem af einhverjum ástæðum telur sig í samkeppni við annan.

Slúður og hálfkveðnar vísur eru vinsæl leið til að gera manneskjur og aðstæður tortryggilegar. Undir yfirskini vináttu nær bullan að kynna sér veikleika þolandans og nýta sér þá síðan. Fyrstu merki um að eitthvað sé að er þolandinn verður sífellt ráðvilltari. Hann finnur að aðrir eru farnir að líta hann öðrum augum, koma öðruvísi fram og staða hans hefur breyst en hann veit ekki af hverju. Í sumum tilfellum hefur hann óljósan grun um að bullan standi að baki og heyrir jafnvel ávæning af einhverju sem hún hefur sagt. Hann reynir að spyrja hana hreint út, taka á málinu á heiðarlegan hátt en í stað þess að fá hreinskilin svör er gefið í skyn að hans tilfinning sé röng, að um ímyndun sé að ræða.

Bullunni er í mun að fá aðra í lið með sér. Hún gerir allt hvað hún getur til að tryggja yfirburðastöðu sína og sjá til þess að hún sé sú sem allir líta til og trúa. Sá sem fyrir eineltinu verður reiður og er iðulega í miklu tilfinningauppnámi þegar hann reynir að ræða málin og verður þess vegna verður hann ótrúverðugri en bullan sem heldur ró sinni og virðist ekki vita hvaðan á sig stendur veðrið þegar á honum dynja ásakanir um vonda hegðun. Það er hægara sagt er gert að takst á við einelti ekki síst af þeirri ástæðu að bullur ýmist viðurkenna ekki að þeir séu að gera rangt eða hreinlega gera sér ekki grein fyrir því. Þolandinn mætir svo hugsanlega því viðhorfi að ekkert sé hægt að sanna og rangt að koma með alvarlegar ásakanir á hendur einhverjum byggðar á veikum grunni.

Þolandinn félagslega einangraður

Þess vegna koma fyrstu merki um einelti oft frá öðrum en þeim sem stendur fyrir því. Einhver í hópnum ræðst gegn þolandanum og ber upp á hann sakir eða gerir lítið úr honum á grundvelli einhvers sem bullunni hefur tekist að koma á flot. Jafnvel þótt þolandi viti hver stendur að baki og hvað er í gangi er í flestum tilfellum ekki hægt að sanna neitt, allt er byggt á tilfinningu og þolandinn hrökklast undan. Hann finnur sér aðra vinnu, annan vinahóp, hættir í tómstundastarfi eða félagasamtökum, stundum fer hann jafnvel að forðast fjölskyldu sína ef einn fjölskyldumeðlima er bulla.

Hvers vegna það er ekki hægt að taka afstöðu gegn ólíðandi hegðun án þess að fordæma þurfi annað hvort geranda eða þolanda finnst mörgum óskiljanlegt. Það ætti að vera nóg að segja: „Ofbeldi er óafsakanlegt og ekkert  réttlætir það. Við munum ekki líða ofbeldi.“ Í þeim orðum þarf ekki að felast að gerandinn sé skrímsli sem er óalandi og óferjandi og hann megi hvergi þrífast.  Þótt tekin sé afgerandi afstaða gegn hegðun ákveðins einstaklings þarf ekki að hafna honum sjálfum sem persónu. Ef tekið er dæmi af foreldri sem ávítar barn sitt skilja allir að stór munur er á að segja:  „Alltaf ert þú jafn leiðinlegt og tillitslaust barn. “ eða „Svona hegðar þú þér ekki því þessi hegðun kemur niður á öðrum. Til að öllum líði vel gerir þú þetta.“ Í fyrra dæminu er barnið sem persóna fordæmt en í því síðara hegðuninni hafnað.

Við virðumst öll eiga erfitt með að gera greinarmun á þessu tvennu og í því felst að mörgu leyti vandræðagangur okkar gagnvart ofbeldi. Alltof oft finnst fólki það vera að útskúfa þeim sem beitir ofbeldi með því að taka eindregna afstöðu gegn hegðun hans og jafnvel refsa honum fyrir hana. Þess vegna var svo fróðlegt og ótrúlega gott að móðir geranda og hann sjálfur skyldu stíga fram og lýsa hvernig skórinn fellur að þeim fæti.  Móðirin reyndi að tala við barnið sitt og yfirvöld skólans að leiða því fyrir sjónir hvað það gerði öðrum en það var ekki fyrr en það sá og skynjaði sársauka fórnarlambs síns að það gat snúið við blaðinu.

Sáttaleiðin

Sú leið hefur víða verið farin að leiða saman þolendur ofbeldis og gerendur. Lýsingar þolenda á líðan sinni og tilfinningum hafa oft náð inn úr þoku sjálfsréttlætingar hinna og það verið fyrsta skrefið til þess að þeir gætu breytt framkomu sinni.  Meðal þeirra sem tekið hafa þátt í meðferð af þessu tagi eru gerendur í kynferðisbrotamálum. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er það oft ekki fyrr en þeir horfast í augu við þolendur og heyra lýsingar þeirra á upplifun sinni af ofbeldinu að menn átta sig á að þeir hafi í raun beitt ofbeldi. Hið sama á við um þá sem beita ofbeldi inni á heimilum. Innst inni vita þeir að hegðunin er röng en hefur tekist að réttlæta hana með því að kenna þolendum um. Eitthvað sem gert var eða látið ógert kveikir neistann eða ýtir gerendunum fram af einhverri tiltekinni brún þannig að ekki verði aftur snúið.

Þegar meðferðarvinna af þessu tagi fer af stað taka allir þátt í henni. Þolendur ofbeldisins, gerendur, þeir sem verða vitni að ofbeldinu og aðrir í stórfjölskyldunni sem á einhvern hátt koma að málum. Á sama hátt verða allir hlutaðeigandi að vinna gegn einelti. Allir þeir er standa í ytri hring ofbeldissamskipta verða endurspegla í orðum þeirra og gerðum stuðning við þolendur og fordæma hegðun sem enginn vill að líðist í sínu umhverfi. En að sama skapi verða gerandur að finna til öryggis, vita hvert þeirra hlutverk er og axla sína ábyrgð. Ef við viljum útrýma ofbeldi þá fordæmum við það í hvaða mynd sem það birtist en við styðjum jafnframt þolendur og gerendur til betra lífs því ef gerandi fær frítt spil til að halda áfram sinni eitruðu hegðun kemur það niður á honum sjálfum fyrr eða síðar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.