Þau Svanlaug Jóhannsdóttir og Örn Helgason bjuggu í 5 ár á Spáni þar sem þau voru að vinna. Þegar Þau fluttu heim 2018 með börnunum sínum tveimur til að setjast hér að fundu þau mjög sterkt fyrir hraðanum og streitunni sem einkenndi íslenskt samfélag samanborið við rólegheitin á Spáni. Þau segja að í þessum hraða felist sannarlega íslenskur kraftur en streitan var eitthvað sem þau þurftu ekki á að halda á þessum tíma. Þau höfðu nýverið misst mánaðargamalt barn og þurftu mest á rólegheitum og hlýju að halda til að ná andlegu jafnvægi. Þau segjast auðvitað hafa mætt mikilli hlýju og samkennd alls staðar en hraðinn alls staðar setti þau úr jafnvægi.
Þau leituðu því að leiðum til að finna út hvað það væri sem skipti máli í lífinu. Í framhaldi fundu þau námskeið í Bretlandi þar sem leitað var svara við spurningunum sem þau veltu fyrir sér. Þetta voru spurningar eins og: Hvað finnst mér skipta máli í lífinu, hverju er ég að gleyma, hvað þarf ég að vanda mig betur við að gera og hvernig á ég að forgangsraða betur? ,,Þarna köfuðum við inn á við og komumst meðal annars að þeirri niðurstöðu að við viljum vera meira saman. Þá lá auðvitað beint við að stofna fyrirtæki þar sem við gætum starfað saman að uppbyggingu á einhverju sem við tryðum bæði á,” segja þessi samhentu hjón. Þau eru bæði viðskiptafræðingar að mennt og Örn tók líka masterinn. Þeim þykir rekstur spennandi sem hentar mjög vel núna þegar þau eru komin á fulla fart með fyrirtæki sitt Osteostrong sem þau segja að sé aðildartengd, samþætt heilsu- og vellíðunarmiðstöð með áherslu á stoðkerfisstyrkingu.
Hugmyndin að Osteostrong fæddist
,,Á síðasta degi námskeiðsins í Bretlandi var verið að tala um heilsu og hvernig við getum verið með alls konar hugmyndir um lífið og tilveruna en ef heilsuna vantar þá náum við aldrei markmiðum okkar,” segir Svanlaug. ,,Það var verið að tala um hugleiðslu og mataræði og svo var minnst á Osteostrong. Og þá kviknaði ljós hjá okkur báðum. Á þeim tíma vorum við nýkomin heim úr yndislegu og rólegu umhverfinu á Spáni til Íslands þar sem allir áttu að vera jafnsætir í ræktinni ásamt því að standa sig vel í vinnunni og skutla börnunum til og frá og elda líka geggjaðan mat. Það var jafna sem gat ekki gengið upp og við hugsuðum að ef við gætum innleitt það sem Osteostrong stendur fyrir þá værum við virkilega að gera gagn. Ef við gætum lagt inn lífsgæðin sem Osteostrong gefur fyrirheit um á 20 mínútum, einu sinni í viku, værum við að bjóða fólki upp á meiri lífsgæði og gleði en það þekkti áður.”
Nú þurfti blaðamaður að stíga inn og viðurkenna að þetta hljómaði ,,of gott til að vera satt.”
,,Við segjum að á tuttugu mínútum í viku geti Osteostrong stigið inn í líf þitt og gert breytingar í líkamanum,” segir Svanlaug. ,,Það þýðir ekki að fólk geti svo farið heim og lagt sig á milli þess sem það kemur í æfingarnar. En þegar fólk finnur árangurinn er hvatningin til að gera meira nóg til að lífið verður svo miklu skemmtilegra. Og þá langar fólk ekki heim að leggja sig heldur finnur það kraftinn til að gera eitthvað skemmtilegra. Rannsóknir sýna að á einu ári verði fólk 73% sterkara með þessum æfingum, jafnvægi eykst um 77% eftir fyrstu fimm skiptin, blóðsykur lækkar, beinþéttni eykst og almennt er jákvæð uppbygging á líkamanum gífurleg” segir Svanlaug.
En getur þetta verið satt?
Enn er blaðamaður efins og spyr hvað gerist á þessum tuttugu mínútum. ,,Fólk gerir fyrst æfingar í mjög sérhæfðum tækjum og svo liggur það á bekk þar sem sérstakar bylgjur minnka bólgur. Osteostrong tækin líta ekki ólíkt út og venjuleg lyftingatæki en munurinn er, að OsteoStrong tækin nýta sér það að vöðvarnir eru missterkir eftir því hvernig maður beitir þeim og hreyfingin hefst í sterkustu stöðu. Tæki OsteoStrong bjóða líkamanum upp á nýtt áreiti og líkaminn þakkar kæralega fyrir það með því að svara á nýjan hátt, hraðari uppbyggingu fyrir allan líkaman.
Svanlaug heldur áfram og segir að um 1880 hafi lögmál Wolfs komið fram sem segir að ef við setjum álag á beinin þá þéttist þau. ,,Hver rannsóknin á fætur annarri sýndi sömu niðurstöðu en samt er beinþynning eitt stórt vandamál nútímamannsins. Það sem vantaði í jöfnu Wolfs er hversu mikið álag þarf að setja á beinin og í ljós hefur komið að álagið sem beinin þurfa að verða fyrir er miklu meira en áður var talið. Og þar kemur Osteostrong inn og veitir fólki nýja leið til að leggja eins mikið álag á líkamann og þarf til að viðhalda styrk sínum.”
Golfarar fagna Osteostrong
Örn grípur inn í og segir að það skipti miklu máli að fólk viti að Osteostrong styrki allan kroppinn og geri hann líklegri til að hafa úthald til að gera það sem okkur þykir skemmtilegt að gera. Hann nefnir golf sem dæmi: ,,Margir golfarar eru að kljást við tennisolnboga, lélega öxl eða hné. Þar kemur Osteostrong æfingaplanið sterkt inn.”
Osteostrong er kornungt fyrirtæki og Svanlaug og Örn segja að þau gæti þess mjög vel að fylgjast með því nýjasta sem er að gerast í rannsóknum. Nú eru til dæmis að koma niðurstöður úr rannsóknum sem segja að lykillinn að því að snúa við öldrun liggi í beinunum okkar. Þar komi hormónakerfið og blóðsykurinn inn í sem hafi bein áhrif á heilsufar okkar almennt. Fjárfestingin í tímanum er svo mikil fyrir fólk sem hefur áhuga á að verja dýrmætum tíma í að gera skemmtilega hluti hvort sem það er golf, sund, hlaup eða hjólreiðar eða bara hvað sem er. Íþróttirnar verða enn skemmtilegri þegar getan verður meiri,” segja þau Svanlaug og Örn.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.