Sparað í heimilisrekstrinum

Rannveig og Sverrir

Rannveig og Sverrir

„Við lærðum að spara í Noregi“, segir Rannveig Guðmundsdóttir fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, en hún og maðurinn hennar Sverrir Jónsson  bjuggu í tvígang í Noregi þegar þau voru ung. Þá var hann í tækninámi og Rannveig dreif sig á tölvunámskeið, en tölvur voru þá nýjar af nálinni, eingöngu nýttar í fyrirtækjum og fylltu heilu salarkynnin. Hún var fyrsta konan sem „programmeraði“ fyrir tölvur hér á landi og vann við það hjá Loftleiðum í nokkur ár. Rannveig segir að Norðmenn hafi verið sparsamir og útsjónarsamir í húshaldi og það hafi verið gott að kynnast því, þar sem heima á Íslandi var verðbólga og eyðsluhugsun ríkjandi. Þau voru komin með tvö börn og urðu að lifa mjög spart. Það mátti ekki eyða meiru en 20 krónum á dag í matvörubúðinni svo dæmi sé tekið og Rannveig keypti efni á verksmiðjuútsölunni í Lilleström og saumaði föt bæði á sjálfa sig og börnin. Þarna vöndust þau á að spara og hafa síðan forgangsraðað í sínum heimilisrekstri. Rannveig deildi fúslega nokkrum sparnaðarráðum með okkur á Lifðu núna vefsíðunni.

Innkaupalisti Ég hef alltaf  skrifað lista áður en ég fer í búðina. Skoða hvað er farið að vanta og við hjónin ákveðum gjarnan hvað á að vera í matinn næstu 2 til 3 dagana.  Með því að vera með innkaupalista sem maður heldur sig að mestu við getur maður misst af ýmsum nýjungum en á móti kemur að maður lætur síður freistast til að kaupa óþarfa.

Óunnin matvara og góð nýting Við eldum gamaldags mat að mestu þó kjúklingur hafi bæst við mat uppvaxtaráranna og við borðum eingöngu hreinan mat ekki unna vöru eða tilbúinn mat.  Nær eingöngu lambakjöt, kjúklingur og fiskur er á okkar borði. Við nýtum mat vel og setjum alla afganga í ísskápinn og notum á ýmsan hátt síðar. Við hendum ekki mat samkvæmt „best fyrir“ dagsetningu og ekki nema hann sé að eyðileggjast. Ég skoða yfirleitt tilboðsblöðin sem sífellt koma inn um lúguna og við notum okkur góð matartilboð því stóru matvörukeðjurnar eru allar í fárra mínútna fjarlægð. Ég sé á matarkörfunni í búðinni að við erum með fremur einfalda körfu miðað við marga þó alltaf sé til nægur matur á heimilinu sem og viðurgjörningur fyrir gesti og gangandi.Hef gaman að því að nefna að eftir að ég hætti að vinna hafa uppáhaldsveitingarnar mínar verið klattar þegar einhvern ber að garði en ég tek það líka fram að ég á yfirleitt rjóma í ísskápnum.

Bónus Við notum Bónuskaffi og eftir að við lærðum vel á skammtastærðir fyrir okkur er þetta öndvegiskaffi og er nær helmingi ódýrara en aðrar kaffitegundir. Við kaupum líka Bónusrækjur og Bónusrækjusalat en söxum rækjur út í salatið og fáum með því hálfgert lúxussalat þó með þessu séum við með öndvegissalat á sama eða lægra verði en salat frá öðrum merkjum.

Tilboð Ég elska að kaupa snyrtivörur á tilboðum. Kremmerkið sem ég nota mest er með flotta kaupauka ca tvisvar á ári sem ég nýti og það er ótrúlega mikil búbót því snyrtivörur eru dýrar. Ég nota líka Eucerin vörur meðfram sem eru góðar en ódýrar  vörur.

Útsölur Sumum finnst feimnismál að kaupa föt á útsölum. Mér finnst það ekki. Ég kaupi vönduð góð föt á tilboði eða útsölum bæði hér heima og eins þegar ég ferðast erlendis. Ég hef gaman að því að vera fallega klædd en ennþá skemmtilegra  að gera góð kaup.

Nægjusemi Öll gömlu húsgögnin sem við höfum eignast gegnum tíðina eru á heimilinu enn í dag. Við eigum 10 ára diesel pallbíl sem við ferðumst á um landið en erum nýbúin að kaupa rafmagnsbíl í innanbæjarsnattið og okkur finnst hann dásamlegur.

 

 

 

 

Ritstjórn september 30, 2014 15:34