„Starfslokin eru mikil tímamót í lífi fólks“, segir Elsa Inga Konráðsdóttir, fjölskyldufræðingur hjá Sálfræðistofu Reykjavíkur, þar sem boðið er upp á fjölskyldu- og sálfræðiþjónustu. „En starfslokin snúast ekki eingöngu um að hætta að vinna. Það eru margir aðrir þættir sem skipta máli. Því meðvitaðri sem við erum um okkur sjálf, um innri líðan, eigin langanir og þarfir, fjölskylduna og nærumhverfið, því betur erum við í stakk búin að takast á við þær breytingar sem fylgja lífshlaupinu. Auk þess getur það minnkað líkur því að við verðum einmana þegar aldurinn færist yfir,“ segir Elsa aðspurð um einmanaleika á efri árum. „Það er ekki samasemmerki milli þess að vera einn og að vera einmana, við getum fundið til einmanaleika með fullt af fólki í kringum okkur.“
Leiti aðstoðar áður en þeir hætta í verkalýðsfélaginu
Hún segir að fólk hafi gagn af því að setjast niður með sérfræðingum og fara yfir stöðuna þegar að starfslokum kemur og helst fyrr, vegna þess að sum stéttarfélög styrkja félaga sína til að sækja sér þjónustu hjá fagfólki. Þegar fólk er hins vegar hætt á vinnumarkaði og hætt að greiða félagsgjöld til stéttarfélaga, missir það þessi réttindi og verður að greiða sérfræðiþjónustuna fullu verði. „Það sem við myndum vilja sjá er að það væri meira upplýsingaflæði til þeirra sem eru farnir að huga að starfslokum. Við sjáum dæmi þess að fólk hafi hætt að vinna með sumarið framundan. Svo kemur haustið og myrkrið, engin rútína, engir vinnufélagar. Þá er spurningin hvort menn hafa áhugamál til að snúa sér að, hvernig er vinahópurinn, fjölskyldan og hvernig eru til dæmis samskiptin milli hjóna? Kannski hafa þau ekki verið dugleg að ræða saman um sín mál og heldur ekki um framtíðina.“
Væntingar um efri árin ganga ekki alltaf upp
„Fólk er oft með miklar væntingar til þess að hætta að vinna. Það sér það í hillingum að fara að njóta lífsins og gera eitthvað skemmtilegt, eins og að ferðast,“ segir Elsa Inga. „Við vitum ekki hvenær heilsan bregst okkur og ég hef dæmi um að hjón hafi skipulagt sameiginlega starfslok en þegar að þeim kom hafði annað þeirra veikst af alzheimer. Við þær aðstæður þarf að endurskipuleggja og huga að því hvernig og hvort hægt sé að uppfylla sameiginlega drauma um ferðalög eða bara að njóta hversdagsins. Það er annað þegar fólk hættir að vinna á besta aldri, er fullfrískt og getur gert svo margt.“
Leita í áfengi í stað þess að leysa vandann
Elsa Inga segir að vandamálin sem fólk á efri árum standi frammi fyrir geti verið þau sömu og þegar það var um fimmtugt, eða jafnvel yngra. Það skipti máli hvernig unnið hafi verið úr þeim málum og áföllum sem komið hafi upp á lífsleiðinni. „Ég fæ til mín eldri konur og það sem hvílir á þeim er til dæmis samskiptin við foreldra þeirra eða áföll úr bernsku sem ekki var unnið úr. Þær velta fyrir sér samskiptum, bæði við foreldra sína og uppkomin börn. Það er fólk af þessari kynslóð sem á erfiðara með að leita sér aðstoðar en þeir sem yngri eru. Það ríktu ákveðnir fordómar hér áður fyrr gagnvart því að fara til sálfræðinga eða í fjölskylduráðgjöf. Yngra fólki finnst hins vegar sjálfsagt að koma í para- og hjónaráðgjöf til að bæta sitt samband. Eldra par getur átt við sömu vandamál að stríða, en í stað þess að taka höndum saman um að leysa vandann leitar það í áfengi eða annars konar vímuefni. Þess vegna er svo mikilvægt að upplýsa eldra fólk um þær leiðir sem hægt er að fara til að fá fagfólk til að vinna í þessu með sér.“
Hvernig eru samskiptin við fjölskyldu og vini?
Það getur verið mjög gagnlegt að setjast niður með fjölskyldufræðingi og kortleggja hvernig tengslin og samskiptin eru í fjölskyldunni og spyrja sig spurninga eins og: Erum við ánægð í hjónabandinu, getum við tjáð tilfinningar okkar og líðan? Hvernig eru tengsl og samskipti við börnin? Eigum við sameiginleg áhugamál, hvað gerum við saman? Hvernig er stuðningsnetið mitt/okkar? Hver er félagsleg staða fólks og hvernig var lífið áður en starfslokin nálguðust? Hefur fólk tekið þátt í félagsstarfi eða hugsað um heilsuna? Og hvernig er fjárhagsstaðan? Hvernig skil ég við vinnustaðinn, er ég sátt/ur eða er eitthvað óuppgert? Allt skiptir þetta máli til þess að fólk geti látið sér líða vel á efri árum og dregið úr líkum á að verða einmana. Einstaklingar geta verið verr settir en pör hvað þessa þætti varðar, en það er ekki einhlítt. „Það þarf líka mikið hugrekki til að taka fyrsta skrefið í að leita sér aðstoðar, en því fyrr því betra. Þá erum við betur í stakk búin að leita eftir aðstoð við starfslok. Það skiptir jafnmiklu máli að huga að þessum þáttum og þeim praktísku,“ segir Elsa Inga.
Gagnlegt að taka stöðuna við starfslok
Það er víða boðið upp á starfslokanámskeið fyrir þá sem eru að láta af störfum vegna aldurs og telja sig því vel undirbúna fyrir starfslokin. „Það er einnig mikilvægt að fólk fari sátt frá vinnustaðnum sínum og því gott að huga að undirbúningi fyrr en seinna. Það þurfa ekki alltaf að vera stórvægileg vandamál til staðar til að maður leiti sér aðstoðar. Það er hverjum manni hollt að setjast niður og fá speglun á hugsanir sínar, langanir og viðhorf til lífsins. Lífið er núna en ekki á morgun,“ segir Elsa Inga.