Skerðingamáli Gráa hersins verður áfrýjað til Landsréttar

Lögmenn Gráa hersins þegar aðalmeðferðin fór fram

Dómsuppkvaðningar í skerðingamáli Gráa hersins hefur verið beðið með óþreyju. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur um hádegisbil í dag og ríkið sýknað af kröfum þremenninganna sem höfðuðu málið fyrir hönd Gráa hersins. –  Deilt var um hvort skerðing ellilífeyris almannatrygginga stæðist stjórnarskrá og dómurinn gerði ekki athugasemdir við fyrirkomulagið sem ríkið notar við greiðslur ellilífeyris.

Þótt Grái herinn hafi þannig tapað málinu fyrir Héraðsdómi, segir lögmaðurinn sem fór með málið, Flóki Ásgeirsson,  að niðurstaðan feli í sér áfangasigur.  Dómurinn hafi hafnað bæði vörnum ríkisins sem byggðust á formsatriðum,  og þeirri megin málsástæðu ríkisins að ellilífeyrir almannatrygginga njóti ekki verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Eftir stendur ágreiningur um það hvort núverandi skerðingar standist þær kröfur um jafnræði og meðalhóf, sem leiða af þessu stjórnarskrárákvæði.   Málinu verður áfrýjað og áfram verður því tekist á um þetta fyrir Landsrétti“, sagði hann í dag.

Ingibjörg H. Sverrisdóttir.

Ekki skemmtileg jólagjöf

Ingibjörg H. Sverrisdóttir var viðstödd þegar dómurinn var lesinn upp í Héraðsdómi, en hún er ein þremenninganna. Hin eru Wilhelm G. Wessman og  Sigríður J. Guðmundsdóttir.

„Þetta er ekki gleðileg niðurstaða, ekki skemmtileg jólagjöf“, sagði Ingibjörg þegar niðurstaðan lá fyrir. Hún sagðist eiga eftir að skoða rökstuðninginn í rólegheitum. En ég geri ráð fyrir að við áfrýjum til Landsréttar, málið er þess eðlis“, bætti hún við.

Helgi Pétursson

Spurning hvort íslenskir dómstólar eru færir um að fjalla um svona mál

Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara sagði niðurstöðuna vonbrigði og undrast hversu langan tíma málið hefur tekið. Verði því áfrýjað til Landsréttar myndi það taka um eitt ár. „Það er viðurkennt  í dómnum að lífeyrisréttindi í almannatryggingakerfinu eru eignarréttarvarin samkvæmt 72 grein stjórnarskrárinnar“ sagði Helgi og það væri töluverður áfangi. Hann rifjaði upp að  lífeyrisréttindii fólks væru hluti af  kjarasamningum. Upphaflega hefði verið miðað við að stoðirnar í kerfinu væru þrjár, sú fyrsta réttindin í almannatryggingakerfinu, önnur réttindin í lífeyrissjóðunum og sú þriðja séreignasparnaðurinn. Helgi sagði að unnið hefði verið samkvæmt þessu „ En þarna hefur orðið snúningur og fyrirkomulagi lífeyrisgreiðslna hefur verið breytt. Það er svo spurning hvort íslenskir dómstólar eru færir um að fjalla um mál af þessu tagi. Þeir eru hallir undir ríkisvaldið, sérstaklega í svona málum. Ef það tekst að fá málið tekið upp hjá Mannréttindadómstóli Evrópu verður fróðlegt að sjá hvernig þeir taka á því“, sagði  hann eftir dómsuppkvaðninguna.

 

Ritstjórn desember 22, 2021 14:33