Stundar Qigong og fær hvorki kvef né pestir

“ Ef mér hefði verið sagt fyrir fimm árum að ég ætti eftir að kenna Qigong hefði ég hlegið“ segir Inga Björk Sveinsdóttir, en hún er með Qigong námskeið tvisvar í viku hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík. Hún segir að margir á námskeiðinu séu búnir að vera með sér alveg frá byrjun, en hún byrjaði að halda námskeiðin hjá Félaginu haustið 2013. “ Þetta hefur gert mér svo gott að ég fékk  mjög fljótt löngun til að breiða út boðskapinn. Það er ekki nóg að lifa lengi, menn þurfa líka að lifa vel. Í Qigong beitum við heilunaraðferðum sem virka, við beitum hugarorkunni, önduninni, hreyfingu og hugleiðslu“.

Qigong tekur a öllum þáttum lífsins

Inga Björk Sveinsdóttir

Inga Björk Sveinsdóttir

Lifðu núna brá sér í Qigong tíma hjá Ingu Björk og slóst þar í hóp fimmtán annarra sem stunda það sem Inga Björk kallar hreyfingarhugleiðslu og er sem sagt heilunaraðferð Qigong. „Margir fara í gönguferðir, jóga, sund og líkamsrækt og það er frábært segir Inga Björk. „En Qigong er heildræn aðferð, sem tekur á öllum þáttum, huga, líkama, tilfinningum og sál. Þetta eru yfir 5000 ára gömul kínversk alþýðuvísindi og það eru til a.m.k. 10 þúsund útfærslur á Qigong. Ég kynntist þessu kerfi fyrst þegar vinur minn gaf mér bók eftir meistarann Chunyi Lin, sem skóp kerfið sem ég nota, hann kallar þetta kerfi Spring Forest Qigong.

Finnur ekki lengur fyrir þreytu

„Qigong er gott og fyrirbyggjandi fyrir alla. Það er sérstaklega hentugt fyrir eldra fólk, vegna þess að það þarf enga sérstaka fimi til að stunda það“, segir Inga Björk,en Qigong bætti hennar líf í alla staði. Hún segist alltaf hafa verið virk í skapandi starfi af ýmsu tagi, jafnvel pínulítið ofvirk. Hún hafi haft mikið að gera, verið með stórt heimili, séð um öll boð sjálf með tilheyrandi áhyggjum og þreytu. Eftir að hún fór að stunda Qigong fann hún fljótt mikinn mun á orkunnu og þreyta, kvef og pestir eru ekki lengur til í hennar orðabók.

Lífsgæði og lífsgleði eykst við iðkun Qigong

Í Qigong er fyrst og fremst verið að nota öndun, hreyfingu, líkamsstöðu og hugleiðslu. „Í æfingunum erum við að opna orkurásir líkamans. Orkurásir líkamans eru oftast stíflaðar og stíflaðar orkurásir valda bólgum og bólgur valda sjúkdómum. Við losum þessar bólgur og jöfnum orkuflæði líkamans, orku Yin og Yang. Þetta jafnvægi Yin og Yang er undirstaða vellíðunar“, segir Inga Björk. Fyrir byrjanda í Qigong er þessi hreyfing ákaflega forvitnileg. Þótt æfingarnar séu rólegar og byggi mikið á önduninni reyna þær greinilega töluvert á líka.

Inga er yndisleg

Við tókum tali tvær konur í Qigong tímanum. Álfhildur Erlendsdóttir byrjaði að stunda Qigong síðast liðið haust og segir að þetta sé mikil slökun og íhugun. „Mér finnst jafnvægisskynið líka hafa lagast“, segir hún. Anna Vigdís Ólafsdóttir sem er búin að vera með í tímunum hjá Ingu frá upphafi, segir að Qigong hafi breytt hennar lífi. Hún hafi verið búin að lenda í mörgum aftanákeyrslum og þurft að stunda sjúkraþjálfun, en breytingin var mikil þegar hún fór að stunda Qigong. „Líðanin er betri, ég finn innri frið og ró og svo er hún Inga yndisleg, ég veit bara ekki hvernig hún fer að þessu“, segir Anna Vigdís að lokum.

 

 

Ritstjórn janúar 28, 2015 13:52