Hvern hefði grunað að vettlingar gætu verið tælandi tól, ómissandi fylgihlutur með þjóðbúningi og listrænn gjörningur. En vettlingar leyna á sér og ekki hvað síst lettneskir vettlingar. Dagný Hermannsdóttir veit ýmislegt um þessa ævafornu og merku prjónalist. Hún hefur farið með fjölda hópa í prjóna- og handverksferðir til Lettlands undanfarin ár á vegum ferðaskrifstofunnar Mundo.
Áherslan í ferðunum er að læra nýjar aðferðir, fræðast um menninguna, njóta góðs matar og þess notalega andrúmslofts sem skapast í góðum prjónahópi, heimsækja fallega staði og hitta handverksfólkið á þeim stöðum sem farið er á hverju sinni. Uppselt er í ferð til Lettlands nú í sumar og í einnig í pjónaferð til Færeyja nú í vor en enn eru einhver laus sæti í handverksferð til Riga á aðventunni. Þessa dagana er verið að undirbúa prjóna- og handverksferðirnar á næsta ári en Dagný og vinkonur hennar hjá Mundo eru með sitthvað nýtt og spennandi á prjónunum í þeim efnum.
Dagný var mætt með fjöldann allan af vettlingum og sokkum í Bókasafn Kópavogs nýlega og hóf mál sitt á játningu.
„Ég heiti Dagný og ég er dellukerling, raðdellukerling,“ segir hún. „Ég fæ nýjar og nýjar dellur og helli mér ofan í þær. Það skemmtilegast sem ég veit er að fá nýja dellu og sökkva mér í að grúska og læra um eitthvað nýtt.
Mínar dellur snúast oftast um eitthvað tengt handverki, ræktun og ferðalögum en það eru endalaust mörg svið innan þess ramma sem hægt er að sökkva sér í. Frá því ég man eftir mér hef ég verið að stússast í einhverskonar föndri og handverki, mamma var mikil fyrirmynd enda afskaplega flink að prjóna og sauma föt en snemma í grunnskóla beit ég í mig að ég hataði handavinnu. Mig langaði í smíði eins og strákarnir og fannst þetta ekki sanngjarnt. Ef ég hefði upplifað að í þessu væri eitthvert val eða jafnrétti hefði ég áreiðanlega verið sáttari. Nú og svo endaði ég auðvitað á að verða textílkennari.“
Já, handiðnir hafa lag á að læðast aftan að fólki og svo fór að Dagný byrjaði að prjóna.
„Ég hef verið að prjóna síðan ég var nýorðin fimmtán ára og hef tekið endalausar dellur til hliðar og á ská út frá því. Ég tek tímabil þar sem hekl, útsaumur, tálgun, þæfing eða annað tekur meira pláss en prjónið. En ég geri handavinnu nánast á hverjum degi. Annars er ég líka súrkálsdrottning og rek fyrirtæki sem framleiðir lifandi súrkál. Það gerðist óvart, var svona della sem fór aðeins úr böndunum.“
Fékk dellu á námskeiði í Lettlandi
„Lettnesku vettlingarnir eru ein af dellunum mínum,“ heldur hún áfram. „Ég fór ásamt nokkrum góðum vinkonum á námskeið á vegum þjóðbúningastofunnar í Riga einhvern tíma fyrir Covid, var á vikunámskeiði með nokkrum vinkonum í bæ sem heitir Liepaja. Ég lærði margar nýjar aðferðir í prjóni og uppgötvaði einnig, af því að ég hef svo gaman af að ferðast, að það er geggjað að ferðast og stunda áhugamál sitt og hitta allt þetta handverksfólk. Læra beint frá konunum sjálfum, versla beint við handverksfólkið og kynnast sögunum og hefðunum. Þetta hafði auðvitað alls konar afleiðingar og í desember sama ár plataði ég eiginmanninn með mér til Riga undir því yfirskini að við værum að fara að kaupa kálskurðarvél fyrir súrkálsframleiðsluna. Vissulega var hún keypt en ég dró hann líka á þriggja daga prjónanámskeið og honum fannst það mjög skemmtilegt. Ég fór svo að skrifa um þetta á facebook og birta myndir og nokkrum mínútum síðar fæ ég skilaboð frá kunningjakonu minni sem spyr: „Viltu ekki gerast fararstjóri?“ Og ég er svo hvatvís að ég svaraði bara: „Jú, af hverju ekki?“ Svo vatt þetta upp á sig og síðan hef ég verið fararstjóri ég hef haldið fyrirlestra og námskeið á Prjónagleðinni á Blönduósi, Heimilisiðnaðarfélaginu og víðar um prjónahefðir í Lettlandi“
Ævaforn tákn, ósk um gæfu og gjöf fyrir unnustann
Þetta samtal á facebook varð svo upphafið að samstarfi Dagnýjar og ferðaskrifstofunnar Mundo. Síðan hafa verið farnar margar ferðir með fingralipra prjónara út til Lettlands. Ferðirnar eru ekki allar eins en farið hefur verið með hópa í mismunandi héruð og á mismunandi árstímum. Sumar ferðirnar snúast alfarið um prjón en aðrar um fjölbreytt handverk. En hvað er málið með þessa vettlinga?
„Það sem er merkilegt við lettneska vettlinga er að þeir urðu að einhverju öðru og meira en bara handaskjóli. Að gefa flotta og vel prjónaða vettlinga er alveg sérstakur virðingar- og vináttuvottur og það er heiður að fá slíka gjöf. Algengt er að það sé smávegis rautt í vettlingunum en rauður litur er sérstök ósk um gæfu og gengi til viðtakandans. Sumir eru með kögri eða lettneskum fléttum, sem er sérstakt prjón, en hvort tveggja er tákn um kúst sem gyðjan Laima á og ósk gefandans um að hún sópi öllum vandamálum úr vegi þínum.
Vettlingarnir hafa líka oft táknræna merkingu. Sum mynstur hafa ákveðna merkingu sem er enn þekkt í dag en í öðrum tilfellum er merkingin týnd þótt mynstrið sé enn prjónað á hefðbundin hátt. Á þeim má oft sjá tákn sem eru svo gömul að þau teygja sig alveg aftur í hellaristur.
Einhvern veginn sköpuðust svo þær hefðir að æskilegt varð að stúlkur prjónuðu lágmark fimmtíu pör af vettlingum áður en þær giftu sig og ekki var verra að þau væru hundrað eða fleiri. Þegar stúlka gifti sig gaf hún allri tengdafjölskyldunni vettlingapar. Þá þurftu þau auðvitað að passa svo hún varð að eiga góðan lager af stærðum en mest um vert var að þetta væru fyrsta flokks vettlingar því þannig sýndir þú hversu góður kvenkostur þú værir. Þegar að stúlku leist vel á pilt og hún hafði grun um að það væri gagnkvæmt gat hún boðið honum vettlinga að gjöf og ef hann þáði þá var litið svo á að þau væru lofuð, ekkert tilfinningaþvaður þurfti til. Foreldrar spurðu gjarnan pilta hvort stúlkan væri búin að bjóða þeim litríka vettlinga til að finna út hvort einhver alvara væri nú í þessu daðri þeirra. Ýmsar þjóðsögur eru til um þetta og í viðlagi í einu þjóðlagi, sem allir kunna, segir til að mynda að hann vildi vettlingana mína en ekki mig. Maður getur ímyndað sér hvernig það er að sitja í margar vikur og prjóna listaverk á borð við lettneska vettlinga og svo gengur hann burtu með þá og skilur þig eftir með sárt ennið.
Auk vettlinganna í kistilinn þurftu stúlkur að prjóna fingravettlinga handa brúðguma sínum og þeir urðu að vera svakalega flottir. Allir karlmenn gengu með fingravettlinga í brúðkaupum og enn í dag eru vettlingar sem eru bornir í beltisstað, aðalskrautið á þjóðbúningi karla. En eftir giftingu gátu stúlkur, ættu þær vettlinga afgangs, nýtt þá til að greiða fyrir alls konar vöru eða þjónustu. Þeir voru sem sagt gjaldmiðill líka. Prestar fengu einnig vettlinga fyrir sína þjónustu. Þegar þeir voru búnir að starfa lengi áttu þeir oft stórt safn af vettlingum. Sumir skiptu þeim auðvitað jafnóðum út fyrir eitthvað sem þá vanhagaði um en aðrir tímdu ekki að láta þá. Merkilegustu vettlingasöfnin sem til eru enn í dag koma einmitt frá prestum sem söfnuðu vettlingum. Þeir fengu þá þegar þeir gáfu saman pör og við jarðarfarir. Konur upp úr miðjum aldri voru á fullu við að prjóna í jarðarfararkistilinn en í hann þurfti ekki nema tólf pör. Eitt fyrir þann sem smíðaði kistuna, eitt par fyrir hvern burðarmann, eitt fyrir prestinn og svo ef þær vildu hafa tónlist þurfti handa tónlistarfólkinu. Enn eru stöku prjónakonur á góðum aldri að prjóna jarðarfararvettlinga en þetta með vonarkistilinn eða brúðkaupskistilinn er alveg dottið út.“
Mögnuð smáatriði í mynstrum og prjóni
Oft eru alveg mögnuð smáatriði í vinnunni á þessum vettlingum til dæmis ef uppábrot er inn í vettlingana er iðulega mynstur þar innan á. Mynstrin í vettlingunum eru flókin og þeir eru prjónaðir á mjög fína prjóna. Það er því alls ekki fyrir alla prjónara að leggja í slíkt verkefni en Dagný bendir á að aðferðirnar megi nota í annars konar flíkur og hún hefur notað aðferðirnar sem hún hefur lært í Lettlandi í húfur og peysur bæði sérstök mynstur, óvenuleg stroff og uppfit sem skapa alveg sérstakan svip á hvaða flík sem er.
„Það eru ótalmörg trix sem ég er búin að læra og líka ótrúlega mikið um litameðferð,“ segir hún. „Litasamsetningin er mjög óhefðbundin, í það minnsta miðað við okkar hefðir. Það er mikið unnið með marga liti í einu og stundum liti sem mér hefði aldrei dottið í hug að setja saman. Nefni til dæmis að raða saman appelsínugulu, bleiku og rauðu en svo er það ótrúlega fallegt. Svo er algengt að einhver einn litur komi bara fyrir í einni rönd einhvers staðar á vettlingnum og hann er galdurinn, setur punktinn yfir i-ið. Maður myndi halda fyrirfram að litavalið yrði eins og einhver hefði gleypt regnbogann og svo kastað honum upp, en þetta kemur ótrúlega fallega út. Því meira sem ég stúdera þessa vettlinga þeim mun betur kann ég að meta þá sem eru með einhverju óvæntu, dáist nú orðið meira að þeim en þessum stílhreinu sem mér fannst flottastir fyrst.
Í gamla daga var dýrt og erfitt að útvega litarefni og sauðalitirnir og jurtalituð ull ríkjandi. En þegar kemísku litarefnin koma til sögunnar misstu konur í Lettlandi sig gersamlega. Við hafnarborgirnar þar sem skipin komu inn var besta aðgengið og í nágrenni við þær ríkti litagleðin en dofnaði því lengra sem farið var inn í landið. Þjóðbúningarnir og vettlingarnir bera merki um þetta. En hefðin er ekki endilega að taka eitthvert mynstur og fara algerlega eftir því, heldur frekar að nota það sem innblástur að þínu eigin. Taka hluta af einhverju eða nýta aðferðina til að skapa eitthvað nýtt. Það var líka mjög seint farið að gefa út prjónamynstur og þegar það gerðist höfðu fáar konur efni á að kaupa þau. Þess vegna mynduðust ótal hefðir innan héraða og héldust þar.“
Súrkál er sælgæti
Dagný er líka þekkt undir nafninu súrkálsdrottningin. En hvað er málið með þetta súrkál? Hvernig kom það eiginlega til?
„Ég fór á lýðháskóla í Noregi sem heitir Fosen Folkehögskole. Aðalfagið mitt var lífræn garðyrkja og aukafagið textíll. Það tengist auðvitað áhugamálunum en annað af stóru áhugamálunum er að rækta matjurtir og aðrar nytjaplöntur. Við skólann er stundaður sjálfsþurftarbúskapur og megnið af mat er ræktað við skólann. Við skólann var til dæmis ræktaður hör og unnum hann frá plöntu yfir í band, rúðum kindur og þvoðum ullina og spunnum, jurtalituðum bandið og unnum úr því. Einnig lærði ég að þæfa, vefa og fleira. Ég kynntist svo mörgu í þessu námi og meðal annars að rækta matjurtir, verka þær og geyma til vetrarins. Eitt af fyrstu námskeiðunum var í að búa til súrkál, enda er þetta gömul og góð geymsluaðferð á grænmeti og í Noregi er tl siðs að hafa súrkál með jólamatnum. Þetta voru mín fyrstu kynni af súrkáli og ég var ekkert heilluð af bragðinu, fannst það ekki vont samt.
Við hjónin höfum gegnum tíðina ræktað heilmikið af grænmeti til eigin nota. Ég hafði oft spáð í að ég ætti að fara að gera súrkál en mér óx það í augum, hélt að maður þyrfti svo mikinn útbúnað og þurfa að hafa alveg sérstakar aðstæður. Helst allt eins og það var á námskeiðinu sem ég fór á í Noregi á síðustu öld. Ég var hrædd við að gera eitthvað vitlaust og þá yrði súrkálið varasamt en svo þegar ég fór að grúska í þessu komst ég að því að þetta þarf ekki að vera flókið og vel hægt að gera þetta í sínu eigin eldhúsi. Svo fór ég að lesa mér til um hollustugildi súrkáls og meira um þarmaflóruna. Mér veitti ekki af að hressa upp á heilsuna. Var búin að vera á alls konar lyfjum og var slæm í maga. Ég hafði alltaf verið frekar viðkvæm í meltingarveginum, með ristilvandamál og eitthvað vesen.“
Hægt að sýra ótalmargt
Margir halda að súrkál sé allaf bara sýrt hvítkál eins og margir kannst við frá mið-evrópu eða Norðurlöndum en Dagný sýrir margt fleira. „Hægt að gera óendanlega fjölbreyttar útgáfur og það er hægt að nota alls konar grænmeti, krydd og jafnvel dálítið af ávöxtum til að fá aðra útkomu. Það er hægt að sýra grænmeti niður rifið eða fínt sneitt, í bitum eða heilu lagi.
Aðferðin er ævagömul og það tíðkast að gerja grænmeti um alla Evrópu og Asíu. Þetta edik og sykur dótarí og niðursuða er tiltölulega nýlegt en alvöru gamaldags súrkál er gerjað og það eina sem þarf er grænmeti og salt. Aðferðin gengur út á að rækta góðgerla í grænmetinu og það eru þeir sem sýra grænmetið.
Súrkálsdillan fór fljótlega á flug og flaug út úr eldhúsinu hjá Dagnýju, hún fór að halda námskeið, skrifaði bókina ,,Súrkál fyrir sælkera“ sem kom út hjá Forlaginu 2018 og þau hjónin fóru að framleiða vörur undir sama nafni. Reksturinn hefur gengið vonum framar og vörurnar fást nú víðast hvar á landinu.
Hefur þú lagast í maganum frá því þú fórst að borða súrkál? „Já, ég lagaðist í maganum mjög fljótlega og það gerðist eiginlega án þess að ég tæki eftir því. Það sem kom mér hins vegar mest á óvart hvað þetta var gott og hversu sólgin ég varð í það. Ég byrjaði á þessu af því þetta var svo hollt og gott fyrir mig en fljótlega gleymdi ég því og drifkrafturinn varð hversu hrikalega gott þetta er,“ segir súrkálsdrottningin, fararstjórinn, prjónasérfræðingurinn og dellukerlingin Dagný Hermannsdóttir að lokum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.