Var Bárður Snæfellsás tröll, álfur eða kannski vættur? Ásdís Egilsdóttir varpar fram þessari spurningu á Íslendingasagnanámskeiði í Endurmenntun HÍ. Eitt er víst að hann var af kyni risa og trölla, að hennar sögn, en sagan sjálf er talin áhugaverð vegna fjölda örnefna, þjóðsagnaminna og þjóðháttalýsinga. Íslendingasagnanámskeiðin eru sívinsæl og það er stór hópur sem situr í tíma hjá Ásdísi þegar blaðamaður Lifðu núna lítur þar inn. Það er líklega allur gangur á hvort þeir sem eru í hópnum, eru að byrja ferilinn í Íslendingasögunum eða eru lengra komnir.
Líkir námskeiðunum við eiturlyf
Hjónin Gunnar Óskarsson arkitekt og Guðfinna Finnsdóttir, sem starfaði lengst af sem aðalfélhirðir Mjólkursamsölunnar hafa sótt Íslendingasagnanámskeið Endurmenntunar Háskólans í 15 ár. Þau byrjuðu á að lesa Sturlungu hjá Jóni Böðvarssyni. Þegar þau voru spurð hvers vegna þau hefðu sótt námskeiðin svona lengi, sagði Gunnar „Það má líkja þessu við að taka einn skammt af eiturlyfi og svo annan og svo ánetjast maður þessu. Það er svolítið þannig“. Hann segir líka að með því að sækja svona tíma og hlusta á þá sem hafa sökkt sér niður í efnið í langan tíma, fái menn aðra sýn, en þeir fái við það að taka bara bókina úr bókaskápnum og lesa hana.
Varla hægt að lesa Sturlungu nema með leiðsögn
Þau segjast hafa byrjað á Sturlungu, en hún sé mikið torf og varla hægt að lesa hana nema með leiðsögn. Jón Böðvarsson hafi tengt atburði saman, sagt hliðarsögur og tengt efnið sögu þessa tímabils. „Sturlunga er í grunninn samtímaheimild, kannski eina samfellda heimildin sem er til um þetta tímabil í Íslandssögunni, það er það sem er sérstakt við hana“, segir Gunnar. Eftir að Jón Böðvarsson hætti tók Magnús Jónsson við. Hann fór með nemendur í ferðalög sem Gunnar segir að hafi líka gefið fólki enn aðra sýn á sögurnar. Á eftir Magnúsi kom Ármann Jakobsson, þá Torfi Tuliníus og núna sé Ásdís Egilsdóttir með námskeiðið. „Það er frábært að fá viðhorf alls þessa fólks, sem kemur úr mismunandi fræðigreinum, hvert með sitt sjónhorn á sögurnar“, segja þau.
Ekki líklegt að konur hafi skrifað Íslendingasögur
Gunnar segir misjafnt hvernig maður kemur að efninu og það fari til dæmis eftir því hvort maður er að lesa samtímasögu eða fornsögu. „Ef um er að ræða fornsögu, um hvað er þá höfundurinn að fjalla, sína sýn á liðnar aldir, eða hafði hann einhverjar heimildir fyrir sögunni“, segir hann. Gunnar og Guðfinna hafa á þessum 15 árum lesið allar stóru Íslendingasögurnar og fjöldann allan af styttri sögum og sagnaþáttum, auk Sturlungu og Heimskringlu. Þau telja ekki líklegt að konur hafi skrifað Íslendingasögur. „Ekki miðað við samfélagið á 13. og 14. öld, það var mikið karlaveldi og konurnar almennt ekki læsar í sama mæli og karlar“, segir Guðfinna.
Þetta er þjóðlífslýsing
Hreinn Frímannsson vélaverkfræðingur er einnig á námskeiðinu hjá Auði. Hann segist ekki hafa byrjað að sækja þessi námskeið fyrr en hann hætti að vinna. „Ef maður er byrjaður hættir maður ekki“, segir hann og bætir við að honum þykir nálgun Ásdísar á sögurnar áhugaverð. „ Söguþráðurinn er ekki endilega aðalatriðið, heldur hvernig hlutirnir eru sagðir og hvað er hægt að lesa út úr tungumálinu. Til dæmis þessi tenging Bárðar Snæfellsáss við Mikjál erkiengil“. Hreinn segir að í hans starfi hafi menn haft meiri áhuga á framtíðinni en fortíðinni. „En hún er líka áhugaverð og að fá svona heildstæða mynd af sögunni frá mörgum sjónvarhornum. Þetta er þjóðlífslýsing“, segir hann.
Vitna um tímann þegar þær voru skrifaðar
Gunnar bætir við að fyrst fari maður á námskeiðið fyrir ánægjuna. „En svo fer maður að velta fyrir sér sjónarhorninu. Um hvað er raunverulega verið að tala. Hvernig var þetta samfélag“. En telja þau Íslendingasögurnar dagsannar? „Ég held að enginn haldi það lengur“, segir Gunnar og þau hin taka undir það. „Nei, þær flokkast kannski frekar til skáldævisagna, eða eitthvað í þá áttina“, segir Hreinn. „Þær segja hins vegar meira um tímann þegar þær voru skrifaðar og í þeim eru skírskotanir, til mannlegrar tilveru, eitthvað sem er sígilt og ótímabundið“, bæta þau við.