Suzanne Blons var fyrirsæta á níunda áratug síðustu aldar hjá Elite Models í París. Þangað fór hún aðeins sextán ára gömul og dvaldi þar í tvö ár. Hún lýsir því þannig á vefnum sixty and me.
„Ég vissi ekki hvernig ég átti að segja þakka þér fyrir eða hvar er klósettið á frönsku, hvað þá að ég kynni að taka neðanjarðarlestina eða rata um flókinn tískuheiminn. Ég var fljót að læra og það sem ég hreifst mest af voru franskar konur“
Fyrstu sex mánuðina í París var ég í gallabuxum, íþóttaskóm og bolum sem báru áletranir eins og Hvar er bjórinn? Og ég gleymdi oft að greiða mér eða setja á mig maskara. Lengra náði snyrtingin ekki.
Frönsku konurnar litu hins vegar alltaf út fyrir að vera klæddar samkvæmt allra nýjustu tísku, voru alltaf smart og litu út fyrir að vera í dýrum fatnaði.
Þær heilluðu mig. Mér fannst ég eins og álfur út úr hól, en ég var mjög hrifin og gerði mér far um að tileinka mér stórbrotna hæfileika þeirra til að líta út fyrir að vera í nýjustu tísku, án þess að eyða aleigunni í föt og snyrtivörur.
Hér eru fimm aðferðir sem ég tileinkaði mér til að ná franska útlitinu.
Rauður varalitur
Franskar konur farða sig ekki mikið, þær farða sig hins vegar rétt. Lítið og einfalt. Sterkur rauður varalitur gerir þig smart og þú lítur út fyrir að hafa íhugað útlitið vandlega, áður en þú fórst út út húsi.
Einföld hárgreiðsla
Að eyða löngum stundum í að lagfæra hárið, er ekki bara erfitt, heldur fer það að líta út fyrir að vera stíft, nokkuð sem franskar konur forðast eins og heitan eldinn. Hvað gera þær? Þær fá sér smarta og góða klippingu sem þarf lítið að hafa fyrir og halda henni þannig að hárið verður náttúrulegt.
Til þess að halda endunum fallegum, læt ég særa neðan af hárinu einu sinni í mánuði og nota svo kókósolíku í hárið þegar ég þarf á því að halda.
Við vanmetum stundum gildi þess að hugsa af kostgæfni um hárið vegna þess hversu tímafrekt það getur verið, en ef við vanrækjum það lítum við á endanum út fyrir að vera ógreiddar. Rauður varalitur, heilbrigt hár og flott klipping, fara langt með að láta þig líta virkilega vel út.
Grunnurinn í fataskápnum
Þegar kemur að klæðnaði, haltu þig við góðan grunn í stað þess að eyða offjár í tískufatnað. Ef þú ert til dæmis að fara á fund, farðu í svörtu síðbuxurnar, hvítu hnepptu skyrtuna, lágbotna skó og settu á þig gyllt hálsmen sem fer þér vel um hálsinn. Einmitt. Þú ert frönsk eða næstum því, þú veist hvað ég á við.
Eða farðu í litla svarta kjólinn, hann er ekki bara kvöldkjóll, og skelltu þér í blazer jakka utanyfir, í spennandi lit. Hælaskór og litlir eyrnalokkar setja svo punktinn yfir i-ið. Fólk mun taka bakföll þegar þú birtist.
Aðalatriðið er að nota áberandi tískuflíkur, eins og skrautlega jakka, sparlega. Einbeita sér frekar að grunninum.
Hér er önnur hugmynd. Fáðu þér flott par af dökkum þvegnum gallabuxum, hvítan eða gráan bol, hælaskó og smart peysu eða sportlegan jakka. Þessir þrír klæðnaðir, svörtu buxurnar og hvíta skyrtan, litli svarti kjóllinn og blazerjakkinn, auk smart gallabuxna og sportjakka, að ógleymdum fallegum bolum duga vel. Það er hægt að breyta til með því að nota flíkurnar til skiptis hverja með annarri og fá þannig fjóra klæðnaði til viðbótar og þú lítur út eins og tískuséní.
Vandaðu val skartgripa
Þjóðverjar elska fylgihluti, en franskar konur velja einn skartgirp – hvort sem það eru eyrnalokkar, hálsmen eða klingjandi armbönd – og gera hann að einkennisgrip. Satt að segja, velja flestar franskar konur annað hvort gull eða silfur skartgripi en blanda þeim ekki saman.Sjálf blanda ég stöðugt saman gulli og silfri, en aðalatriðið er að nota einn ákveðinn skartgrip sem einkennisgrip og nota ekkert annað með honum.
Taktu gallabuxurnar og bolinn sem dæmi. Þú getur gert rauða varalitinn að þínu aðalsmerki, eða verið með minna áberandi varalit og sett upp hangandi gulllita eyrnalokka. Þannig ert þú komin með þinn einkennisgrip sem eru eyrnalokkarnir og þeir keppa ekki um athyglina við annað sem þú ert í eða notar samtímis.
Ekki biðjast afsökunar á sjálfri þér
Það merkilegasta sem ég lærði af frönskum konum er að þær afsaka sig ekki. Ekki vegna neins. Það má vera að fólki finnist það snobb, þvergirðingsáttur eða dónaskapur. Þú ræður hvað þér finnst, en ég ólst upp við að vera stöðugt að afsaka að ég væri ekki nógu góð. Það myndi frönsk kona aldrei nokkurn tíma gera.
Franskar konur eru sjálfsöruggar og hafa lagt heiminum að fótum sér með því að skapa tísku sem einkennist af minimalisma. Þær hafa öðlast frægð fyrir þetta.