Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar:
Þegar fólk eldist og fer að förlast andlega, þá er gjarnan sagt að það sé gengið í barndóm. Sama hugsun býr að baki máltækinu “tvisar verður gamall maður barn.”
Þegar ég varð amma uppgötvaði ég að maður þarf ekki að glata andlegri getu til að ganga í barndóm. Eftir að dóttursonur minn fæddist fyrir tæpum þrem árum, varð ég allt í einu að smástelpu á ný og hóf að syngja söngva, fara með vísur, segja sögur, fara í leiki og dansa dansa, sem ég hélt að væru löngu horfnir úr mínu andlega og líkamlega minni.
Þegar dóttursonur minn fór að tala varð mér svo hugsað til þess, hvernig það var þegar ég var sjálf að læra að tala og setti hluti í samhengi og túlkaði og gaf orðum, hlutum og stöðum merkingu, sem ég uppgötvaði síðar að voru kolrangar.
Til dæmis hélt ég lengi vel að listmálarar máluðu lista og að brunaliðið kveikti í húsum. Fyrir vikið hljóp ég alltaf á harðaspretti heim, þegar ég heyrði í sírenum af ótta við að brunaliðið væri á leiðinni til að kveikja í húsinu okkar og ætlaði ég að verja það gegn brunaliðinu.
Ég gerði mér grein fyrir að þetta er reynsla vel flestra barna og þeim sökum sendi ég nokkrum góðum vinum mínum skeyti og spurði þá hvernig þeir sjálfir eða börn í lífi þeirra hefðu gefið orðum og stöðum sína eigin merkingu.h
Ég fékk mörg góð svör og koma þau hér:
Ein sagan var af þriggja ára strák, sem var í heimsókn hjá afa sínum og ömmu, sem voru nýflutt í Grafarholtshverfið. Amman tók snáðann með sér út til að skoða sig um í nýja hverfinu og þegar þau gengu fram hjá kirkjunni, spurði amman hann hvort þau ættu ekki að kíkja þar inn. Snáðinn varð strax mjög áhugasamur og svaraði, “jú endilega amma förum inn og skoðum trúðinn.”
Yngri systir snáðans var fljót til máls og kom sér fljótt upp eigin orðaforða. Henni fannst mjög gaman að leika sér á róló, einkum og sér í lagi fannst henni gaman að klifra í beinagrindinni. Þegar þessi sama dama var að byrja að læra um ættartengsl, þá flæktist það fyrir henni hver var mamma hvers eða hver var afi hvers. Þegar leikskólafóstran spurði hana hvar amma hennar væri, svaraði hún að bragði: “Hún er hjá afa sínum”.
Önnur smástelpa táraðist alltaf við að heyra eftirfarandi vísu:
Einu sinni átti ég hest
ofurlítinn, skjóttan,
Það var sem mér þótti verst
þegar dauðinn sótti hann.
Og spurði með grátstaf í kverkunum “af hverju skjóttann hestinn?”
Ein vinkona mín sagði mér að þegar hún var lítil hafði hún aldrei skilið hvað mamma hans Gutta væri eiginlega að mæla alla daga.
Faðirvorið og kristinfræði vafðist líka fyrir mörgu smáfólki.
Eitt barn byrjaði bænirnar sínar alltaf á því að segja “Fagra vor”…og annað barn, sem lagðist á bæn eftir að vera komin í “háttfötin”, hóf Faðirvorið með að segja “Það er vor”…
Sköpunarsaga mannsins í Gamla Testamentinu vafðist lengi fyrir mér sjálfri.
Samkvæmt henni skapaði Guð fyrsta manninn, hann Adam, í sinni mynd og kom honum fyrir í Paradís. Þrátt fyrir fegurðina í Paradís varð Adam fljótt leiður og einmana og til að bæta úr því, ákvað Guð að búa til handa honum félaga og viðfang, hina fyrstu konu, Evu formóður okkar allra.
Eva var af öðru kyni en Guð, svo í stað þess að skapa hana í sinni mynd, reif hann eitt rifbein úr brjóstkassa Adams og skapaði úr því konu. Adam fórnaði sem sagt einu rifbeini til að eignast félaga og ástmey og ég var satt að segja komin töluvert til vits og ára, þegar mér varð ljóst að karlar hefðu ekki einu rifbeini færra en konur.
Mér var að vísu nokkuð létt, þegar æskuvinkona mín sagði mér að hún hafi líka verið komin til vits og ára þegar hún uppgötvaði að viðtengingarháttur væri ekki vitringaháttur.
Og þessi sama vinkona átti líka erfitt með að aðskilja nafnorðið synd og sögnina að synda.
Þannig að þegar hún bað bænina:
Vertu, Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
þá botnaði hún bænina með að segja “Svo allir syndi í hafnir”
Með örðum orðum hélt hún að Guð mundu leiða syndandi syndara í örugg í höfn, ef þeir hlýddu boðskap hans.
Önnur vinkona mín, sem hefur búið lengi erlendis, sagði mér frá því að eitt sinn þegar hún þurfti að skreppa til Íslands, þá hafi sonur hennar beðið hana að koma með snjóbolta með sér frá Íslandi, svo að hann gæti farið í snjóboltaleik með vinum sínum.
Þessi sama vinkona er ættuð utan af landi og eitt sinn þegar þau heimsóttu Ísland og dvöldu um tíma í Reykjavík spurði sonur hennar, “hvenær ætlum við eiginlega að fara til Íslands?” og átti þar við heimabæ móður sinnar fyrir norðan.
Svo ég víki aftur að dóttursyni mínum, sem var kveikjan að þessum pistli. Þegar mamma hans sagði honum nýlega að hún væri þreytt, þá sagði hann, að það gæti ekki verið því hann Þreyttur væri farinn….