Syndir, syngur og hlær

Hér eru kynslóðirnar þrjár, Hjördís, Þórdís Petra (24 ára), dóttir Heru og Hera Björk.

Hjördís Geirsdóttir er sannarlega ein af þeim sem hafa farið undir radarinn þegar verið er að skima eftir verðugum fálkaorðuberum.

Hjördís er fædd 1944 og er Árnesingur. Hún segist stolt vera úr Flóanum með stóru F en hún fæddist að Byggðarhorni í Sandvíkurhreppi sem nú tilheyrir Árborg. Þar byrjaði hún að syngja og spila 1959, aðeins 15 ára gömul en þá hafði hún kunnað þrjú grip á gítar sem hún hefur síðan útfært og þróað sjálf en aldrei í skóla. Þau hafa dugað henni í allri hennar tónlistariðkun fram til þessa og síðan var hún svo heppin að fæðast með fallega söngrödd. Þegar hún flutti til Reykjavíkur 1962 fékk hún fljótlega vinnu í nýlenduvöruverslun í Austurveri. Það spurðist fljótlega út í ,,bransanum“ að í bæinn væri komin stúlka sem gæti sungið. Einn daginn mætti Edwin Kaaber í nýlenduvöruverslunina og spurði: Er ekki Hjördís hér? ,,Og þar með byrjaði boltinn að rúlla hér í bænum og rúllar enn rúmum 60 árum síðar,“ segir Hjördís og skellihlær en hún er með eindæmum hláturmild kona.

Leysti ófrískar söngkonur af

,,Þetta gerðist þannig að það þurfti að leysa Helenu Eyjólfs af í Þjóðleikhúskjallaranum því hún var ófrísk og var komin með kúlu. Það mátti ekki sjást svo þá var náð í mig. Ég sagðist geta þetta nema laugardagskvöldið því þá vari ég búin að lofa mér að syngja á sveitaballi fyrir austan. Ég skrapp í hádeginu heim til Edda Kaaber þar sem Finnur Eydal og einhverjir fleiri voru og renndi í gegnum prógrammið sem var svipað því sem ég hafði verið að syngja svo þetta gekk allt saman. Þar með var ég komin á hringekjuna og þegar samningur þeirra var búinn í Leikhúskjallaranum eftir einhverjar vikur hafði Karl Lilliendahl samband við mig því söngkonan hans var þá líka ófrísk og ég leysti hana af. Mitt hlutskipti var sem sagt að leysa ófrískar söngkonur af þarna til að byrja með,“ segir Hjördís og brosir. ,,Þarna var rokkið og tvistið komið og þar var ég alveg á heimavelli líka. Svo var komið að því að ég eignaðist barn sjálf en þá sagði Karl að ég þyrfti að koma með sér í maí 1966 í Víkingasal hótels Loftleiða sem var þá að opna.“ Hjördís segir skellihlæjandi frá því að hún hafi haft sex mánuði til að eiga barnið, sem var Þórdís Lóa, og græja það og gerði það bara. Þar kom hún fram með Karli næstu sex árin eða til 1972 þegar Hera Björk varð til. ,,Þá ætlaði ég bara að hætta að skemmta og hugsa um börnin en því var ekki alveg að heilsa. Ég var áfram fengin til að hlaupa inn í hér og þar þegar þurft. ,,Þetta var ógurlega skemmtilegur tími,“ segir Hjördís sem er enn að upplifa jafn skemmtilega tíma.

Jassinn allraskemmtilegastur

Hjördís kynntist Guðmundi Ingólfssyni jasspíanóleikara á þessum tíma og segir að tímabilið á Naustinu með bræðrunum Guðmundi og Gunnari sé einn sá eftirminnilegasti sem hún hafi upplifað. ,,Þá var bassaleikarinn Skúli Sverrisson kornungur með þeim og það var svo gaman á hverju einasta kvöldi,“ segir hún dreymin á svip. Nú standa fyrir dyrum tónleikar með Stórsveit Reykjavíkur í Hörpu á sunnudaginn 8. janúar sem Hjördísi langar ógurlega á. Hún hefur mestar áhyggjur af að ná ekki í bæinn frá Selfossi þann dag þar sem hún á að vera að syngja í afmæli um eftirmiðdaginn.

Heimavinnandi húsmóðir á daginn en skemmti á kvöldin

Hjördís segist hafa verið heimavinnandi húsmóðir með fjögur börn lengst af en fór út að vinna á kvöldin og um helgar. ,,Þá þótti það nú ekki vinna heldur sagði fólk að ég væri bara að fara út að skemmta mér,“ segir Hjördís og hlær. Hún dreif sig svo í sjúkraliðanám á miðjum aldri og aðalstarf hennar upp frá því hefur verið á sjúkrahúsum, oftast með eldri borgurum. Hjördís og eiginmaður hennar, Þórhallur, eiga fjögur börn. Elst er Þórdís Lóa sem fór í stjórnmálin en Hjördís segir að geti alveg sungið, svo Hera Björk sem hefur lagt sönginn fyrir sig eins og móðir hennar, næst kom Geir sem Hjördís segir að hafi gaman af því að syngja og yngstur er Gissur sem spilar á píanó og syngur i Polyfónkórnum. Nú er komin þriðja kynslóðin sem er dóttir Heru Bjarkar, Þórdís Petra Ólafsdóttir, sem stundar nám í fónlistarsköpun og -flutningi í Berlín. Hún hefur sungið og skemmt eldri borgurum með ömmu sinni frá því hún var smástelpa.

Fór að syngja fyrir eldri borgara

Hjördís Geirsdóttir.

,,Þetta byrjaði þannig að um 2007 lá faðir samstarfskonu minnar á deildinni hjá okkur en hann var sá fyrsti sem átti að flytja í Maríuhús sem þá var að opna. Þau voru að austan svo ég þekkti manninn og hafði verið að gantast við hann og syngja með honum eins og ég gerði við aðra sjúklinga, trallaði og gerði ýmislegt með söng og gleði. Þá segir dóttir þessa manns hvort ég gæti ekki komið og skemmt í þessu húsi sem átti að senda föður hennar í og ég gerði það. Þá voru ýmis hús opin eins og Drafnarhús og Fríðuhús og fleiri og þar voru að vinna gamlar vinkonur mínar af spítölunum. Þær  fréttu af því að ég hafði komið í Maríuhús og linntu ekki látum fyrr en ég kom líka í hin húsin þar sem alls staðar voru sjúklingar sem þurftu sannarlega á upplyftingu að halda.“

Þannig byrjaði vegferð Hjördísar við að létta eldra fólki lífið sem hún vissi sjálf að var mikil þörf fyrir þótt kerfið sæi það ekki sem birtist helst í því að engum datt í hug að borga Hjördísi fyrir þessa vinnu. Hún fékk í mesta lagi pening sem dugði fyrir bensíni svo hún kæmist á næsta stað að skemmta. Þannig var þetta árum saman en nú segir hún að yngra fólk hafi tekið við og geri sér grein fyrir því hvers virði tónlistin er fyrir vistmennina.

Skemmtanastjóri á Spáni í 18 ár

Hjördísi var boðið starf hjá Úrval Útsýn og Vita ferðum að skemmta farþegum þeirra á Spáni á sumrin og gerði það allt til ársins 2018. Þá var Þórhallur, eiginmaður hennar, orðinn veikur en hann er með afbrigði af MND taugasjúkdómnum og gat ekki lengur verið með henni og þá hætti hún í skemmtanastjórastarfinu. Hann er nú orðinn vistmaður á Hrafnistu í Laugarási og Hjördís leigir nú íbúð þar og getur sinnt manni sínum en getur róleg sungið og skemmt áfram því nú sjái aðrir um hann ef hún kemst ekki. ,,Ég fer alltaf þegar ég get og undirbý hann fyrir nóttina og kyssi hann góða nótt en get verið róleg þess á milli. Hann er líka ánægður að vita að ég er ekki bundin yfir honum eins og var orðin og nú hef ég verið á fullu að skemmta hingað og þangað.“

Harmonikkuhljómsveit á Hrafnistu í Hafnarfirði

Harmonikkuhljomsveit DAS. Á myndinni sjást auk Hjördísar Stígur, Magnús, Þórður, Svanhildur, Jón og Theodór.

,,Það byrjaði með því að í vinur minn, Böðvar Magnússon, sem var þá skemmtanastjóri á Hrafnistu í Hafnarfirði, hafði samband og bað mig að koma með í harmonikkuhljómsveitina sem hann hafði stofnað 18 árum áður. Sú hljómsveit samanstóð af eldra fólki sem var hætt að vinna og hafði gutlað á ýmis hljóðfæri í gegnum lífið. Hann fékk þetta fólk saman og fór að æfa upp prógramm og það óx þannig áhugi allra að úr varð að haldin voru böll alltaf á föstudögum á Hrafnistu. Það er svo dásamlegt að sjá hvað söngur og tónlist er mikill gleðigjafi fyrir alla, ekki síst sjúklinga og gamalt fólk, alveg sama þótt það sé komið út úr heiminum. Við sjáum alltaf ljósið kvikna í augunum þegar tónlistin dunar.

Það var algerlega frábært að taka þátt í þessu með Böðvari en því miður lést hann fyrir mánuði síðan. Það varð svo augljóst þegar covid brast á í mars 2020 og öllu var skellt í lás hvað starf skemmtanastjórans hafði verið mikilvægt fyrir vistmennina. Starfsfólkið á Hrafnistu sá hvað dagarnir urðu hræðilega niðurdrepandi fyrir fólkið og spurði Böðvar hvort hann gæti ekki bara spilað einn á píanó svo hægt væri að halda uppi einhverju fjöri fyrir fólkið. Því yrði svo sjónvarpað um allt húsið. Böðvar sagðist ekki halda það  og vildi hafa einhvern með sér. Þá segir hann að ein starfsstúlkan hafi sagt: ,,Geturðu ekki hringt í vinkonu þína sem er með gítarinn og er alltaf hlæjandi og fengið hana með þér“ og það varð úr. Þannig varð Hjördís bakvörður Böðvars á Hrafnistu í Hafnarfirði að syngja með honum í hverri viku í fimm mánuði. Með þeim var 96 ára gamall maður sem lék á saxófón og annar á trommur. Þessu var svo sjónvarpað um allt hús í hverri viku. Nú fer Hjördís hálfsmánaðarlega að hitta harmonkkuhljómsveitina og nýtur þess í botn.“ Hjördís er núna líka með sönghóp hálfsmánaðarlega í félagsmiðstöðinni Hæðargarði því nú kemst hún róleg að heiman. Þar fyrir utan syngur hún líka sjálf í tveimur kórum, Álftaneskórnum og Gaflarakórnum.

Sjálfboðaliðastarf

Hjördís hefur sungið á öllum dagþjálfunarsöðvum frá því þær urðu til eða í 20 ár. ,,Þessar stöðvar voru bara þrjár til að byrja með en eru nú orðnar miklu fleiri. Ég fer enn á milli en hef gert kröfur um að fá svolítið borgað fyrir nú orðið.“

Virkjaði konur með sér

Stuðgellurnar heita Hjördís,Bára,Þorgerður og Inginbjörg.

Hjördís bjó um tíma uppi í Mosfellsbæ og hitti nokkrar konur í heita pottinum í sundi. ,,Þá voru svo margir atvinnulausir, sér í lagi konur, svo ég virkjaði nokkrar með mér sem var bæði skemmtilegt fyrir þær og mig og ekki síst fyrir vistmennina þar sem við vorum að syngja.“ Þær kölluðu sig hafmeyjurnar og fóru á milli dagvistunarstofnananna, Hjördís með gítarinn og þær sungu og trölluðu og skemmtu í 9 ár samfleytt. Nú er Hjördís með annan fimm manna hóp sem kallast stuðgellurnar sem hún segir að hafi fengið nafngift sína þegar þær voru að syngja í kirkju fyrir skömmu og presturinn hafi sagt: ,,Þið eruð nú meiri stuðgellurnar“ svo þar með var nafnið komið. Þessi hópur fer nú víða að syngja fyrir eldri borgara.

Sundið er allra meina bót

Hjördís er mjög þakklát fyrir góða heilsu en hennar hreyfing er fyrst og fremst sund sem hún hefur stundað alla ævi. Nú býr hún í nágrenni Laugardalslaugarinnar og syndir minnst þrisvar í viku. ,,Ég byrja á því að stinga mér í laugina og syndi svo eina ferð bringusund, eina ferð baksund og eina skriðsund. Fjórðu ferðina fer ég svo á mismunandi sundi. Svo fer ég í pottinn og slappa af. Ég er oft spurð að því hvað ég geri til að halda heilsu og krafti og þá segi ég að ég að  ég syndi, syngi og hlæi,“ segir Hjördís og hlær dátt. ,,Söngurinn skapar svo mikla gleði og hlátur og ég er svo heppin að hafa gaman af að syngja,“ segir þessi lífsglaða 78 ára gamla kona sem hefur helgað líf sitt söngnum og að skemmta öðrum, sér í lagi eldri borgurum og sjúkum. Væri ekki tilvalið að sæma hana Fálkaorðunni fyrir það, hvað finnst ykkur?

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar. Viðtalið birtist fyrst á vefnum í upphafi árs 2023.

Ritstjórn júní 30, 2023 07:00