Loksins smá sumar og sól og þá fara margir að spekúlera í sundfötum. Sundfatatískan hefur tekið ótrúlegum breytingum í gegnum tíðina. Til eru teikningar af rómverskum tvískiptum íþróttafötum frá því á fjórðu öld og þá voru menn greinlega nokkuð frjálslyndir, raunar telja menn að þau hafi ekki verið notuð til sundferða heldur sem íþróttafatnaður. Á átjándu öld klæddust konur einskonar sundkjólum, seint á nítjándu öld voru sundföt gjarnan úr ull og afskaplega þunglamaleg, kjóll með sjóliðakraga og buxur þar undir. 1907 kom undanfari sundbolsins fram á sjónarsviðið. Sú sem klæddist honum var handtekin fyrir ósæmilegt athæfi. En og smátt og smátt urðu sundfötin efnisminni uns svo var komið að þau voru vart sýnileg. En af því að allt fer í hringi þá leið ekki á löngu uns efnismeiri sundföt komust aftur í tísku. Tankíni kom fram á sjónarsviðið á tíunda áratug síðustu aldar og er þriðjungur allara sundfata sem seljast í heiminum tankíni. Á þessu myndbandi frá Youtube er saga sundfatanna rakin á rúmlega tveimur mínútum. Sjón er sögu ríkari.