Það á að afnema skerðinguna alveg

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson skrifar

Það á ekki að semja við ríkisvaldið um að skila til baka hluta af þeim lífeyri,sem það tekur “ ófrjálsri hendi“ af eldri borgurum. Það á að hætta „eignaupptökunni“ alveg.Ég orða þetta svo, þar eð áhrifin eru nákvæmlega eins og ef ríkisvaldið hefði farið beint inn í lífeyrissjóðina og tekið þar hluta af lífeyri eldri borgara. Það á þess vegna að afnema þessa skerðingu alveg.Það var aldrei meiningin,þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir, að þeir mundu valda einhverri skerðingu á lífeyri eldri borgara hjá TR.Um þetta vitna margir verkalýðsleiðtogar nú síðast Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins í sjónvarpsviðtali.

Í nýju frumvarpi félagsmálaráðherra um almannatryggingar er gert ráð fyrir, að skerðing lífeyris vegna lífeyrissjóða haldi áfram en dregið verði úr henni. Það gengur ekki.Það á að afnema skerðinguna alveg.Ráðherrar hælast um af góðri afkomu ríkissjóðs. Það á því að vera auðvelt að afnema skerðinguna nú.

Aldraðir og öryrkjar,sem einungis hafa tekjur frá TR fá enga kjarabót í frumvarpi ráðherra, ekki eina krónu.Þó er vitað, að þeir geta ekki lifað á þeirri hungurlús, sem ríkisstjórnin skammtar þeim.Það verður að breyta því og setja inn myndarlega hækkun á lægsta lífeyri. Annars er ekki unnt að leggja frumvarpið fram.Auk þess gerir frv. ráð fyrir, að skerðing lífeyris vegna atvinnutekna aukist svo ótrúlegt sem það er. Og frv gerir ráð fyrir að fella niður grunnlífeyri og afnema öll frítekjumörk. Það kippir m.ö.o. til baka því litla, sem núverandi ríkisstjórn gerði á þessu sviði sumarið 2013. Ef frumvarpinu verður ekki stórbreytt má það liggja áfram ofan í skúffu hjá ráðherra.

 

Ritstjórn ágúst 30, 2016 11:26