Það er einhver galdur í óperunni

Ragnarök: örlög goðanna er ný ópera eftir dr. Helga R. Ingvarsson sem verður sýnd í Norðurljósasal Hörpu laugardaginn 25. okt. kl. 17 og er um klukkustundar löng. Helgi semur tónlistina og stjórnar en þetta er sjöunda ópera höfundar sem er búsettur í London .

Tónskáldið og stjórnandinn, dr. Helgi R Ingvarsson.

Ný nálgun á fornu efni

Ópera Helga fjallar um norræna goðafræði og Eddukvæði í nýju ljósi. Aðspurður um tilurð óperunnar segir Helgi að hún sé  óvenju persónuleg. „Ég fer í gegnum þá lífsreynslu, eins og svo margir, að eignast barn og þegar maður kemst á þennan aldur að verða orðinn fertugur og hafa búið erlendis í mörg ár, eða frá 2011, giftast enskri konu, eiga með tvítyngt barn, þá fór ég að hugsa um hver mín sjálfsmynd væri, hvort ég væri enn Íslendingur, en ég er með enskan ríkisborgararétt. Ég skrifaði dagbók í heilt ár um þetta í flæðisskriftar stíl en mig langaði að setja þetta í þrjá meginþætti, það er, hver ég væri. Það sem kom út úr því var að ég er Íslendingur í húð og hár. Þá fór ég að skoða íslenskt efni en ég hef haft áhuga á norrænni goðafræði, Völuspá, Eddukvæðum, Hávamálum en ég fékk þá sprautu í gegnum mömmu sem er kennari. Ég fann þegar ég fór aftur að lesa þetta efni að þetta var mitt,“ segir hann með áherslu.

„Þá langaði mig til að kanna þetta efni í gegnum linsu tónskáldsins og með þeirri spurningu – hvað vil ég segja? því þetta efni hefur náttúrlega verið nýtt mikið í gegnum aldirnar. Ég setti saman handrit sem er svolítið úr Völuspá, en meginefnið er úr ljóðabálki eftir Benedikt Gröndal yngri, sem ég fann í raun fyrir tilviljun, og heitir Ragnarökkur. Þar endursegir hann þessar sögur. Ljóðmál Benedikts er stórkostlegt og textinn mjög fallegur en það virðist sem fólk þekki Ragnarökkur ekki mikið. Ljóðabálkurinn byggir á þessum forna arfi en er í þessu uppfærða 19. aldar tungumáli og myndmáli. Ég raða þessu saman í þá sögu sem ég vil segja og beygi svolítið út af vananum. Ég til dæmis gef Frigg töluverðan texta, mér finnst hún áhugaverð persóna, hún var alltaf á hliðarlínunni og mig langaði að kynnast henni betur. Hún er oft titluð kona Óðins en hún er gyðja fjölskyldu, umhyggju og mæðra. Frigg er berdreymin og sér fram í tímann. Hún hefur töluverð áhrif á söguna. Kynjahlutfallið í minni sögu er því jafnara.“

Helgi segist hafa skrifaði hlutverk þessarar sterku konu, Friggjar, fyrir Jónu G Kolbrúnardóttur sópran sem lærði í Vín en það eru fleiri áhugaverðir karakterar í óperunni. „Loki er líka áhugaverð persóna en því meira sem ég les um hann þeim mun betur finnst mér ég skilja þessa margræðu persónu en í Ragnarökum er hann sá sem leiðir her Múspells að Ásgarði yfir Bifröst sem endar ekki vel fyrir neinn og hann er eiginleg óþokkinn. Hann er líka sá sem reddar hlutunum og hjálpar en hann er samt málaður út í horn af ásunum og hann reiðist þeim réttlátri reiði eftir að hafa hjálpað þeim en hvernig hann bergst við fer út fyrir öll mörk. Persónusköpunin er áhugaverð fyrir mér og ekki bara svört og hvít en texti Benedikts hjálpar þar.“

Tónsetti knattspyrnuleik landsliðsins á Evrópumótinu 2016 í óperu

Helgi hefur samið sjö óperur og segir formið alltaf heilla. Fjórar af þeim hafa verið fluttar hér á landi en sú fyrsta var Fótboltaóperan sem var flutt á Óperudögum þegar þeir voru fyrst haldnir í Kópavogi. „Þetta var fjölskylduópera, flutt árið 2016 og hún var samin fyrir Kór Kársnesskóla og unga söngvara hér á landi. Það var Evrópukeppni í knattspyrnu og ég tók lýsingu á leik Íslands og tónsetti. Þetta var mjög skemmtilegt. Music and the Brain var önnur ópera eftir mig og hún fékk tilnefningu til Grímuverðlaunanna. Við fórum með hana til Svíþjóðar og Englands á hátíðir þar. Óperan Þögnin, sem er áhugaverður titill, var sýnd fyrir tveimur árum í Tjarnabíói. Gissur Páll, Björk Níels, Elsa Waage og Björn Thor sungu. Óperan fékk mjög góða dóma og seldist upp á sýningarnar. Ég dregst alltaf að þessu formi en þetta er rosalega mikil vinna því ég er líka framleiðandi og oft eftir svona verkefni þá hugsa ég, jæja, þetta var síðasta óperan, en svo kemur hugmynd og ég fer aftur af stað, það er einhver galdur í óperunni sem dregur mann að henni. Að segja sögu með tónlist og að vinna

með þetta jafnvægi milli þess sem tónlistin segir og þess sem sagan og sviðsetningin segja. Tónlistin vellur upp úr mér þegar ég sem óperutónlist, það á bara vel við mig.“

Óperan Ragnarök eins og sönglagahringur

Þó að fáir semji óperur í dag hér á landi þá eru margar íslenskar óperur til, segir Helgi. En er þessi nýja ópera Helga dæmigerð fyrir verk hans eða er eitthvað nýtt á ferðinni þar?  „Það má segja að ég sé aðeins meira trúr mínum bakgrunni í þessari óperu en þeim fyrri. Ég hef alltaf verið heillaður af sönglaginu sem formi og dregist að því. Ég lærði sjálfur söng í Söngskólanum í Reykjavík og kláraði miðstig og það hafði sín áhrif. Og bara það að stúdera verk Sigfúsar Einarssonar, og þeirrar kynslóðar, og síðan verk Jóns Ásgeirssonar og yngri höfunda þá hefur sönglagið setið djúpt í mér þó að ég hafi alltaf gert eitthvað annað með.

Fyrri óperur mínar eru hefðbundnari, með recitative (talsöngur) og svo aríum (lögum), og þar fram eftir götunum en þessi nýja ópera er gerð eins og sönglagahringur, sönglög og svo kór. Það eru eingöngu tvær talaðar senur. Þetta var eitthvað sem ég fann að ég tengi við, og vildi fylgja. Íslensku sönglögin okkar eru svo falleg, það er einhver litur sem er algjörlega okkar, þó að enginn sé eyland. Áhugi fólks á þeim er mikill og sást vel á tónleikaröðinni Ár íslenska einsöngslagsins, en ég var svo heppinn að eiga lög þar en sú tónleikaröð var framlengd í tví- eða þrígang.

Nýja óperan, Ragnarök, verður í Norðurljósasal Hörpu kl. 17 og það verður bara ein sýning, í bili,“ tekur Helgi fram. „Við verðum með tvö píanó, fjóra einsöngva og kór en það reyndist erfitt að finna stað á Íslandi sem hefur góðan hljómburð, tvö píanó og tekur kór og náttúrlega einsöngvara. Wagner-félagið á Íslandi býður fólki í Wagner-félögum frá Þýskalandi á sýninguna. Þó að tónlistin sé ekki undir áhrifum frá Wagner þá vann hann með með svipað efni.

Mikilvægi tónlistaruppeldis

„Mitt tónlistaruppeldi var yrst og fremst í skólahljómsveit Kópavogs hjá Össuri, það var rosalega gaman. Ég byrjaði á trompet en skipti svo í barítónhorn og það átti betur við mig. Það var syngjandi mjúkt og gaman að vera með túbunni í bassaganginum. Ég var sá eini sem spilaði á hljóðfærið og fannst ég vera svolítið sérstakur. Við fórum víða með hljómsveitinni í utanlandsferðir og innanlands líka og á landsmót en við fengum medalíu eftir hvert landsmót. Fórum meðal annars til Austurríkis, sem er náttúrlega Mekka lúðrasveita, á alþjóðlegt mót, sem var mjög gaman. Þetta var góður grunnur. Ég fór svo í Menntaskólann við Hamrahlíð og í leikfélagið þar en hafði áður verið í leikfélagi í grunnskóla og kórinn hjá Þorgerði Ingólfsdóttur og var á sama tíma í Söngskólanum hjá Margréti Bóasdóttur. Þannig að svið og tónlist fylgdi mér. Ég fór í fyrsta Idolið, þegar Kalli Bjarni vann og lenti í top 10.

Á síðast árinu í Söngskólanum var ég ákveðinn í að fara í tónsmíðar og vildi þá taka sem mesta hljómfræði og spurði hvort ég gæti bara verið í bóklegum greinum síðasta hálfa árið. Menn ráku upp stór augu, enginn söngnemandi hafði beðið um slíkt, það þurfti að hafa mikið fyrir því stundum að draga þá í þessar greinar. Ég fékk aukatíma og flaug svo inn í Listaháskólann og var í tónsmíðum hjá Kjartani Ólafssyni og var svolíð undir væng Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar líka. Þeir voru ólíkir sem var mjög gott. Eftir námið þar fór ég í Guildhall-skólann í London í tónsmíðar og lauk þaðan doktorsgráðu í tónsmíðum árið 2018,“ segir Helgi sem segist ekki koma úr tónlistarfjölskyldu. Ég vinn sjálfstætt, um 50 % við tónsmíðar og svo stjórna ég og kenni. Ég hef fengið rannsóknarstyrki og skrifað greinar sem mér finnst mjög skemmtilegt. Þær hafa meðal annars birst í Þræðir sem er rit sem Listaháskólinn gefur út.“

Helgi hefur ákveðnar skoðanir á væntanlegri Þjóðaróperu. „Ég vona að Þjóðaróperan verði íslenskt óperukompaní, trútt því sem er íslenskt og geri íslenskum söngvurum og tónskáldum hátt undir höfði. Spyrji hvernig viljum við gera þetta? Við verðum að hlúa að tónlistarskólunum okkar sem eru svo góðir en mér skilst að það séu langir biðlistar sem er mjög slæmt, það er mikið talað um að það séu ekki til peningar en svo eru þeir til þegar á reynir með annað. Við eigum að hlúa að tónlistarnámi, sérstaklega nú á tímum.“

Og það er ýmislegt fram undan hjá Helga fyrir utan sýningu á óperunni Ragnarök á morgun, í Norðurljósasal Hörpu kl 17. „Á sunnudaginn frumflytja Caput ensamble og kammerkórinn Röst, nýtt hálftíma verk eftir mig í Háteigskirkju sem heitir „Bláir Tindar“. Það er innblásið af fallegu fjöllunum okkar á Íslandi. Sem sagt 26. okt. kl. 20 um kvöldið.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna