Það sem þú skilur eftir þig skiptir mestu máli

Sveinbjörn Bjarnason, prestur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, hefur lifað margt. Hann hefur í tvígang staðið við dauðans dyr og þau hjón urðu fyrir þeim harmi að missa ungan son í slysi. Sveinbjörn segir að gervigreind og tölvur þurfi að umgangast með aðgát og hefur áhyggjur af sókn ungmenna í samfélagsmiðla, því þau vanti oft þann grunn sem finna megi í trú til að þroskast og hafa ákveðin gildi að leiðarljósi. Nú þegar hátíð ljóss og friðar nálgast vill hann minna fólk á að sýna samkennd og rétta út hjálparhönd, það sé víða þörf.

Sveinbjörn fæddist á Ísafirði 1944 og var þar fyrstu 20 ári ævinnar. „Ég fór síðan til Akureyrar í eitt ár en ég hafði fundið konu frá Akureyri, Friðrikku Eðvaldsdóttur sem var á Húsmæðraskólanum á Ísafirði þegar viðvorum 17 ára og árin okkar saman eru orðin 64. Ég hóf svo störf í Lögreglunni í Reykjavík 1967 í almennu deildinni en árið 1970 fór ég í rannsóknarlögregluna, lengst af í tæknideild, og var þar til 1981. Þetta var erfitt starf en mjög gefandi. Við vorum kallaðir út í flest innbrot, oft ef dauðsfall var í heimahúsi að ekki sé talaði um ef það gerðist með voveiflegum hætti, þá vorum við sendir út til að mynda á vettvangi og annað. Þetta gat tekið verulega á.

Vaknaði lamaður upp að hálsi

Gamla sjúkrahúsið á Ísafirði.

Árið 1959 fékk Sveinbjörn heilabólgu eftir mislinga þá 14 ára gamall. „Ég var mjög hætt kominn, var meðvitundarlaus í 10 sólarhringa og þegar ég vaknaði var ég bæði mállaus og lamaður upp að hálsi. Það var enginn kraftur í líkamanum, augun voru það eina sem ég gat hreyft. Þetta hef ég rætt við marga lækna því mér finnst þetta svo merkileg saga. Einn taugalæknir sagði við mig mörgum árum síðar: „Þú átt nú eiginlega ekkert að vera hér. Menn höfðu svona veikindi yfirleitt ekki af.“

Þegar ég lá á sjúkrahúsinu kom mágur pabba til hans og sagði að það yrði bænastund í kirkjunni og spurði hvort þau mættu láta biðja fyrir mér sem var auðsótt. Maður sannar ekkert í þessu eins og svo mörgu en ég vil meina að þarna hafi komið hjálp. Ég var á stofu með gömlum sjómanni en hann hafði lent ásamt pabba í skipstrandi og allir komist í land fyrir harðfylgi. Það var búið að setja taum í rúmið mitt svo ég gæti hysjað mig upp, en hann segir við mig einn daginn: „Úr því að þú getur notað hendurnar þá geturðu notað lappirnar, drífðu þær undan sænginni og fram á skörina.“ Hann rétti mér hendurnar og sagði: „Tylltu í fæturna, treystu mér, pabbi þinn gerði það.“ Og ég gerði það. Þetta var byrjunin á því að ég fór að ganga. Þetta var leyndarmálið okkar lengi vel.“

Það var fleira merkilegt sem átti sér stað á sjúkrahúsinu. Sjómaðurinn hafði eitt sinn sagt við aðstandendur sína: „Þegar ég dey, fær Sveinbjörn málið.“

„Nóttina sem hann dó vaknaði stofufélagi minn við það að ég var að tala upp úr svefni. Ég hafði ekkert getað tjáð mig en byrjaði þarna aftur að tala.

Ég var ótrúlega fljótur að ná mér í meginatriðum en ég hef samt aldrei náð mér alveg. Það eru alltaf einhvertauga- eða vöðvaeinkenni sem gera vart við sig sem má jafnvel rekja til þessa.“

Friðrikka og Bjarni.

Sonarmissir og breytt líf

Sveinbjörn og Friðrika urðu fyrir þeirri erfiðu og sáru lífsreynslu að missa níu ára son sinn, Sveinbjörn, af slysförum. Söknuðurinn hverfur aldrei en þau hafa lært að lifa með honum og varðveita minningu sonarins og segja hann aldrei fjarri enda hugsi þau til hans daglega.

„Ég var þá starfandi í rannsóknarlögreglunni og fékk góðan stuðning þegar slysið var en svo hélt hversdagurinn áfram hjá öllum nema mér og ég var mættur í vinnu skömmu eftir slysið.

Ég óskaði svo eftir því að fá ársleyfi en fékk ekki og hætti þá, en ég varð að skipta um umhverfi. Á þessum tíma ræddi fólk svona hluti ekki eða líðan sína. Það var bara þannig og ekkert til sem heitir áfallahjálp. Ég vil ekki vera vanþakklátur, við fengum mikla hjálp frá fjölskyldum okkar beggja og mörgum góðum vinum en annað ekki. Sveinbjörn okkar var níu ára þegar hann dó og yngsti sonur okkar var fjögurra mánaða þá,“ segir Sveinbjörn og viðurkennir að það hafi ekki verið auðvelt að hugsa um bræður Sveinbjörns mitt í þessu áfalli og vera þeim styrkur. „Það var erfitt og bara að halda sjó. Það sem foreldrar eða nánustu aðstandendur þurfa að gera í svona aðstæðum er heilmikið. Dánarorsök var sögð drukknun samkvæmt krufningu en Sveinbjörn hrapaði við Systrafoss og fannst með andlitið á grúfu í smá sprænu þar hjá. Ég var í góðu sambandi við þá niðri á rannsóknarstofu og þeir sögðu við mig að þó að þeir hefðu verið á staðnum þá hefðu þeir engu getað breytt. Mér fannst gott að heyra það.

Það á ekkert foreldri að þurfa að ganga í gegnum slíka reynslu að missa barnið sitt, segir hann. „Ég var fullur sjálfsásökunar í áratugi á eftir að hafa ekki farið ekki með. Ef ég hefði farið, hvað þá. Sveinbjörn var í árlegri ferð með kirkjunni og steig óvarlega eitt skref út á rakt grasið og það var nóg, það fundust merki eftir það.“

Eðlilegt að fólk viti ekki hvað það eigi að segja

„Fólki er oft legið á hálsi fyrir að láta ekki heyra í sér eða koma ekki í erfiðum aðstæðum sem þessum, það er bara eðlilegt því fólk veit ekki hvað það á að segja eða gera, þetta er svo stórt. Menn grípa oft til frasa eins og tíminn læknar öll sár en hann gerir það ekki, hann hjálpar þér til að lifa við þessar gjörbreyttu aðstæður, sárið grær en það verður alltaf kaun undir niðri og þegar fólk heyrir svona fréttir þá fer að blæða aftur. Við Friðrikka höfðum ekki úr neinu að velja þannig að við unnum úr þessum harmi og héldum áfram með lífið, og við bárum líka ábyrgð á hinum drengjunum okkar og að koma þeim til manns, en Sveinbjörn er og verður alltaf hluti af fjölskyldunni.“

Sveinbjörn segist, tala við son sinn á hverjum einasta degi. „Eldri synir okkar, Bjarni og Eðvald, muna eftir Sveinbirni en sá yngsti, Helgi Þór, gerir það ekki. Það er hins vegar til mynd af Sveinbirni með hann í fanginuog sú mynd hefur mikið að segja fyrir Helga því það var snerting.“

Spurull og umhyggjusamur drengur

„Sveinbjörn var afskaplega hægur og svo ég vitni í kennarann hans þá var hann mjög traustur og bar umhyggju fyrir samnemendum sínum. Hann átti það til að koma til kennarans og hvísla að honum að sér fyndist þessi eða hinn fara óvarlega, það gætu verið hættur. Hann var næmur á umhverfið og afskaplega spurull og sagði gjarnan: „Ef maður spyr ekki þá veit maður ekki.“ Hann þurfti að innbyrða svo mikla þekkingu og upplýsingar á stuttri ævi. Það skiptir ekki alltaf öllu máli hvort ævin er stutt eða löng heldur það sem þú skilur eftir. Fyrir hvað ertu munaður eða munuð.“

Fór í guðfræði á miðjum aldri

Sveinbjörn hafði tekið verslunarpróf frá öldungadeild í Fjölbraut í Breiðholti og fór að vinna hjá Sambandinu í bókhaldi eftir andlátið. „Ég tók svo við bókhaldi í Miklagarði, var aðalbókari og skrifstofustjóri meðan Mikligarður lifði nánast. Þá langaði mig að fara í guðfræði en ég hef alla tíð verið trúaður og kannski hafði hvorutveggja þar áhrif á að ég veiktist alvarlega 14 ára og svo að missa Sveinbjörn. Friðrikka sagði: „Leggðu af stað, þú getur alltaf hætt við.“ Þar sem ég hafði ekki stúdentspróf fór ég og talaði við dr. Einar Sigurbjörnsson sem þá var forseti guðfræðideildar. Hann tók mér vel og sendi ég inn starfsferil, sitthvað um mig og ýmis próf sem ég hafði. Ég byrjaði 1993 í guðfræði þá 49 ára. Þetta var mikið átak en þarna var fólk á öllum aldri og ég ekki elstur. Enn í dag höldum við nokkur sambandi. Ég hætti að vinna þannig að við lifðum á launum Friðrikku en ég vann svolítið bókhald með náminu og var með aðstöðu heima og þegar ég var orðinn þreyttur á að lesa guðfræðibækur þá sneri ég mér bara við og fór að vinna í bókhaldi. Það var allt önnur hugsun. Ég útskrifaðist svo 1998 eftir fimm ára nám.

Símtalið örlagaríka

Kirkjan á Þórshöfn þar sem Sveinbjörn þjónaði.

Kvöld eitt fékk Sveinbjörn símtal sem átti eftir að verða örlagaríkt. „Sr. Ingimar Ingimarsson prófastur í Þingeyjarprófastsdæmi og sóknarprestur í Þórshafnarprestakalli, en honum hafði ég kynnst fyrr á árinu, hringir og segir mér að hann ætli að hætta um haustið og spyr hvort ég gæti hugsað mér að sækja um Þórshafnarprestakall. Við Friðrikka ákváðum að skoða svæðið áður en ég tæki ákvörðun. Eftir að hafa farið norður og skoðað svæðið og hitt fólk þá sóttum við um. Ég var eini umsækjandinn og fékk embættið frá 1. okt. 1999. Ný kirkja var vígð 22. ágúst 1999. Áður en maður vissi voru komin 5 ár. Okkur leið mjög vel á Þórshöfn og fólkið tók okkur afskaplega vel. Við eigum mikið af góðum vinum og kunningjum þarna. Þann 4. apríl 2004 var ég með fermingu en krakkarnir báðu um þennan dag, 04.04.04. Morguninn eftir fékk ég alvarlegt hjartaáfall. Ég hringdi í lækni og var kominn korteri seinna upp áheilsugæslu, ég náttúrulega keyrði sjálfur, það hvarflaði ekki að mér að ég væri með hjartaáfall. Ég átti að fara með sjúkraflugi frá Þórshöfn en veðrið leyfði það ekki. Það er flugvöllur á Vopnafirði, Þórshöfn og Raufarhöfn, en engan þessara flugvalla var hægt að nota vegna veðurs. Ég fór með sjúkrabíl frá Þórshöfn og sjúkrabíll frá Húsavík kom á móti okkur og ég var færður yfir í hann úti á Sléttu, á Húsavík beið mín flugvél. Það slokknaði einu sinni á mér á þessari löngu leið. Ég man ekkert meira alla þessa leið fyrr en ég kom kom til Reykjavíkur. Hjartað er alvarlega skemmt eftir þetta en ég hugsa lítið um það, ég er mjög mæðinn en ég lifi bara fyrir daginn í dag og geri mitt besta. Friðrikka hefur staðið þétt við hlið mér og ég fæ henni aldrei fullþakkað, það er ekki hægt að greiða þann reikning.“

Sveinbjörn tók við sem heimilisprestur á dvalarheimilinu Grund eftir veruna á Þórshöfn, það var yndislegur staður og ég var þar í þrjú ár. Ég ákvað að hætta störfum 65 ára og fór að sinna mínu grúski, ættfræði og fleira.“

Bjarni og Friðrikka ásamt barnabarni, Dagnýju Mayu.

Jólaboðskapurinn er einfaldur

Nú er jólatíminn fram undan og Sveinbjörn segist myndi vilja að fólk hefði einkum tvennt í huga á þessum tíma. „Að sýna kærleik og virðingu. Þetta er minn jólaboðskapur. Það eru margir í kringum okkur, þó að við tökum ekki alltaf eftir því, sem þurfa hjálp. Stundum þarf bara samtal. Fólk áttar sig oft ekki á þeirri staðreynd að við erum aldrei nema einu símtali frá náunganum. Það er mikilvægt fyrir fólk að vita að það er einhver sem spyr.“

Sveinbirni er annt um unga fólkið og þá vegferð sem samfélagið er á. „Nú er ekki lengur heimilað að skólabörn heimsæki kirkjuna, í hverju liggur hættan? Við viljum lifa eftir gildum sem eru í kristinni trú, og í öðrum trúarbrögðum líka, en trú og trúarbrögð er svolítið sitthvað og svo er það sá sem velst til að vera í forsvari sem hefur áhrif á hvernig trúin er túlkuð. Hér áður fyrr var Biblían ekki til á íslensku og einungis fræðimenn sem gátu lesið hana sem túlkuðu það sem þar stóð. Það er ekki fyrr en Oddur Gottskálksson þýðir Nýja testamentið að við gátum farið að lesa sjálf og mynda grunn til samræðna.

Fermingarbörnum var í flestum tilfella gefin Biblía í fermingargjöf, en hver er fræðslan sem ungmenni fá ídag? Hún er mikið úr sjónvarpi og samfélagsmiðlum.

„Það vorum ég og þú sem upp þau ólum“, segir í ágætum texta og það verðum við að hafa í huga.

Gervigreind, tölvur og fleira er vandmeðfarið, við verðum að hafa stjórnina en ekki öfugt. Þess vegna vantar okkur oftar en ekki grunn sem við finnum í trú, það er kærleikur, virðing, vinátta og samkennd. Traust er líka mjög mikilvægur þáttur, ef þú treystir manneskju geturðu alltaf tjáð þig við hana og treyst því að það sem þú segir liggi hjá henni og fari ekki út um allt. Þetta vantar okkur líka. Þegar traust er fyrir hendi, opnast fyrir svo margt. Við þurfum að líka að taka eftir fólki og muna að hönd þess sem þarf hjálp er alltaf útrétt. Sýnum samhygð, ekkert okkar er eyland og ekkert okkar kemst af án samskipta við aðra.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna