Það vita allir í salnum að ég er með krabbamein

Í dag er ár síðan ég fór í brjóstnámið“, segir Helga Birkisdóttir þegar við setjumst niður með kaffibolla á kaffihúsi í miðbænum. Helga er hreystin uppmáluð, enda gekk hún heiman frá sér og niður í bæ til fundar við blaðamann Lifðu núna. „Ég man að ég svaf ekki vel nóttina fyrir aðgerðina og var hundkvíðin. Vissi ekkert hvað ég var að fara út í og var smeyk við svæfinguna. Maður veit að það getur ýmislegt gerst í aðgerðum. Svo gekk bara allt vel, ég var eiginlega hissa á hversu vel þetta gekk“, segir hún og fær sér kaffisopa og heldur svo áfram. „Það fara margir í að gúggla krabbameinið eða sögur sem fólk segir á netinu, en ég tók þann pól í hæðina að gera það ekki og lesa ekki sögur á vefnum. Ég las eingöngu upplýsingar á vef Landsspítalans og Krabbameinsfélagsins, semsagt eingöngu það sem ég vissi að væri örugglega rétt“.

Vinstra brjóstið einkennilegt

Helgu datt ekki í hug að hún væri komin með krabbamein í brjóstið, þegar hún varð vör við inndrátt í  vinstra brjóstinu en hún tók eftir honum þar sem hún var berbrjósta að blása á sér hárið. Hún hafði skömmu áður verið í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu og þá hafði ekkert fundist athugavert. Henni fannst þetta samt eitthvað skrítið og ræddi málið við tengdadóttur sína, þar sem þær voru saman á hótelherbergi á EM í Frakklandi í fyrra. Jú, henni fannst þetta líka einkennilegt.  Helga pantaði því tíma hjá heimilislækninum í lok sumars og fór til hans í september.

Fór reglulega í krabbameinsleit

Hún hafði ævinlega fylgst vel með brjóstunum og farið reglulega í krabbameinsleit hjá Krabbameinsfélaginu. Hún hafði tvisvar áður fundið hnúta í brjóstinu, sem reyndust góðkynja og voru teknir. Hún vissi að inndráttur í brjósti gat verið einkenni krabbameins. Heimilislæknirinn sendi hana í skoðun hjá Krabbameinsfélaginu. Eftir mynda- og sýnatöku þar var hún send heim með tímapöntun  hjá brjóstamóttöku Landsspítalans nokkrum dögum síðar. „Ég hugsaði með mér að það væru allar líkur á að ég væri með krabbamein, ég fann það á starfsfólkinu.  Mér fannst ég upplifa einhverja samúð, svona eins og nú væri komin ein í viðbót með krabbamein“.

Grét og sagðist líklega vera með krabbamein

„Þegar ég settist upp í bílinn fyrir utan Krabbameinsfélagið hringdi ég í eldri son minn sem býr erlendis. Tengdadóttir mín svaraði. Ég hágrét í símann og sagði henni að ég héldi að ég væri komin með krabbamein.  Ég hringdi síðan í kærastann minn og við hittumst í Öskjuhlíðinni, gengum þar hring og ræddum stöðuna. Það var ekkert annað að gera en bíða og sjá hvað hefði komið út úr sýnatökunni. Ég mætti í vinnuna daginn eftir en var alveg úti á þekju.  Ætlaði að ræða við yfirmann minn en hann var ekki við.   Ég fann því ástæðu til að fara úr vinnunni eftir hádegið, ók bara um og endaði út í Gróttu.  Þar náði ég að hringja í yfirmanninn og segja honum tíðindin en fór svo og hitti systur mína hjá foreldrum okkar.  Ég ákvað hins vegar að bíða aðeins með að ræða þetta við strákana mína,  þeir voru báðir að spila fótboltaleiki þarna um helgina. Sá eldri, Birkir Már, spilar í Svíþjóð og er í landsliðinu en Aron Elí, sá yngri, spilar með Val“.

Móðir hennar fékk líka krabbamein

Móðir Helgu fékk krabbamein fyrir tæpum 25 árum. „Þetta var örugglega svipað krabbamein og ég fékk“, segir Helga. „Hún fór í tvær aðgerðir en þurfti ekki í geisla- eða lyfjameðferð. Ég hugsaði því, ég tek bara mömmu á þetta, brjóstið verður tekið og þá er þetta búið. En æxlið mitt var stærra og öðruvísi. Ég byrjaði í lyfjagjöf í lok nóvember. Ég tók mig svo til og hringdi í fjölskyldu og nánustu vini til að segja þeim frá þessu, ég vildi ekki að þau myndu frétta þetta í kælinum í Bónus“ segir hún.  Þegar Helga fór í brjóstnámið, ákvað hún að fara samhliða í brjóstuppbyggingu. Byrjað var á að setja svokallaðan vefjaþenjara í brjóstið og hitt brjóstið var minnkað örlítið.

Þoldi meðferðina vel

Helga fór fjórum sinnum í lyfjagjöf og eftir það fór hún aftur í aðgerð, þar sem þenjarinn var tekinn og silikonpúði settur í staðinn. Hún segist hafa farið ótrúlega létt í gegnum lyfjameðferðina. „Ég fann ekki til ógleði eða lystarleysis og ég kastaði ekki upp. Ég virtist þola þetta nokkuð vel. Ég þurfti hins vegar að fá svokallaðar beinmergssprautur til að hífa mig upp í hvítum blóðkornum og það lagði mig í rúmið. Mér leið eins og ég væri með rosalega flensu í einn til tvo daga, en það er margt verra en það“, segir hún.

Skrítið að missa hárið

„Það var ótrúlega erfið og skrítin lífsreynsla að missa hárið, en ég missti það fyrir jól. Það er mjög einkennileg tilfinning í hársverðinum þegar hárið fer.  Ég man að ég fór í Þjóðleikhúsið og var þá búin að fá mér húfu eða túrban til að hafa á höfðinu. Þegar ég gekk inní salinn hugsaði ég. Það vita allir hérna í salnum að ég er með krabbamein. Mér fannst ég svo áberandi með húfuna. Ég vildi ekki líta út fyrir að vera veik. Ég keypti mér húfur í mismunandi litum til að nota“, rifjar Helga upp. „Ég fór svo á árshátíð fyrirtækisins í mars og tók ákvörðun um að mæta með það litla hár sem ég hafði og vera ekki að fela það“, segir hún.

Þurfti að liggja í rúminu eftir 10 mínútna göngu

„Geislameðferðin tók alveg rosalega orku frá mér“, segir Helga. „Ég var búin að fara í tvær stórar aðgerðir og allt hafði gengið vel, ég fékk engar sýkingar og þurfti ekki að fara uppá bráðamóttöku. Ég var ótrúlega heppin, því þetta var heilmikill pakki. Geislarnir sugu úr mér alla orku. Ég bý í Hlíðunum og ætlaði að fara fótgangandi í geislana, þetta er um 10 mínútna gangur. Ég gerði það bara tvisvar sinnum, því ég þurfti að liggja í rúminu fram undir kvöldmat á eftir. Mér fannst ég missa svolítið flugið við þetta“.

Hræðslan við að greinast aftur

„Þegar meðferðinni lýkur kemur tómarúm“, segir Helga. „Hvað tekur við? Er þetta búið? Og svo er það hræðslan við að greinast aftur. En í gegnum þetta er það biðin sem er verst. Að bíða eftir niðurstöðum.  Hjá mér var krabbameinið á afmörkuðum stað og ekki komið nema í einn eitil, sem var tekinn. Það þurfi ekki að taka alla eitlana sem er stór aðgerð.  En áfallið var ofboðslegt. Ég missti til dæmis tengdamóður mína úr krabbameini fyrir 10 árum. Ég var dauðhrædd við að fá krabbamein, en bjóst ekki við að fá það um fimmtugt. En fólk greinist á öllum aldri“, segir hún

Margt jákvætt

„Maður hugsar hlutina uppá nýtt eftir svona alvarleg veikindi. Fer að meta hlutina á annan hátt og er eiginlega settur á „hold“ í lífinu.  Ég var búin að vera á svo mikilli keyrslu undanfarin ár og áttaði mig meira á gildi þess að lifa í núinu og gera það sem er skemmtilegt. Ég hef gaman af að ganga og var farin að ganga á fjöll, hlaupa, syngja í kór og mér finnst gaman að dansa. Ég hef alltaf lesið mikið, en það var svo einkennilegt að ég gat ekki lesið á meðan á meðferðinni stóð, einbeitingin var ekki til staðar“  Helga telur það hafa hjálpað sér mikið að vera jákvæð. Í segulómun á brjóstunum kom fram skuggi í hinu brjóstinu en eftir sýnatöku kom í ljós að það var ekki krabbamein.  Einnig var athugað hvort hún væri með „brakka“ genið svokallaða, en niðurstaða blóðprufu sýndi að svo var ekki. „Það var svo margt jákvætt“, segir Helga og bætir við að tólf spora vinna sem hún hefur  stundað í gegnum árin, hafi komið í góðar þarfir í þessu verkefni.

Verður aldrei aftur eins og maður var

„Mamma hafði líka gengið í gegnum það sama og sigrað“, segir Helga. „Hún er á lífi 85 ára gömul, alveg ótrúlega hress og dugleg. Ég ákvað að taka mömmu á þetta, gera bara eins og hún. En auðvitað breytir þessi lífsreynsla manni. Nú er verkefnið að sættast við þessa nýju Helgu.  Maður verður aldrei aftur eins og maður var. Það tekur tíma að ná sér líkamlega og kannski nær maður sér aldrei alveg. Ég vil samt horfa á það þannig að veikindin séu úr sögunni. En mér finnst ég sitja svolítið eftir andlega. Ég þarf að leita aðstoðar við að stilla hugann. Ég næ ekki að bægja þessu alveg frá mér. Hræðslan við að greinast aftur situr í manni og mér finnst ég þurfa að takast á við það. Það er verkefnið framundan“.

Konur þurfa sjálfar að fylgjast með sér

Helga sem er farin að vinna aftur í hlutastarfi eftir veikindin, hefur sótt námskeið bæði hjá Ljósinu og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands. „Ljósið er alveg dásamlegt og þar hef ég kynnst góðu fólki. Hann er mjög góður þessi jafningjastuðningur, þar sem margir eru að velta fyrir sér sömu hlutunum og geta deilt reynslu sinni.“.  Hún hefur líka sótt námskeið í hugrænni atferlismeðferð hjá Krabbameinsfélaginu og er að hugsa um að sækja einnig á námskeið í núvitund.  Helga lét taka mynd af brjóstinu áður en það var skorið. Þar sést ákaflega vel hvernig æxlið var.  Hún segir að konur verði að fylgjast sjálfar með sér. Það sé ekki hægt að stóla algerlega á hópskoðun annað hvert ár.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 9, 2017 11:21