Samkvæmt hjúskaparlögum skiptast eignir hjóna í hjúskapareignir og séreignir. Hjón geta einnig átt eign í sameign og er þá eignarhlutur hvors um sig í sameigininni hjúskapareign eða séreign, allt eftir því hvað hjónin ákveða. Þegar fólk tekur saman á efri árum er staðan oft flóknari en þegar um ungt fólk er að ræða.
Meginreglan um eignir maka í íslenskum hjúskaparrétti er sú að þær verða hjúskapareign. Í því felst að allar eignir hvors maka um sig, bæði þær sem hann kemur með í hjúskapinn og þær sem hann eignast meðan hjúskapurinn varir verða hjúskapareignir viðkomandi hjóna, nema annað sé ákveðið. Dögg Pálsdóttir lögmaður segir mikilvægt að fólk hugsi út í það fyrirfram hvernig það vill haga þessum málum. Þeir sem eru giftir vilji hugsanlega að ákveðinn hluti eignanna sé séreign hvors um sig og þeir sem eru í sambúð vilji ef til vill gera með sér sérstakan sambúðarsamning, þegar þeir rugla saman reytum. Dögg hefur meðal annars skrifað blaðagreinar um þessi mál og hennar lýsing á hjúskapareign og séreign, og því hvernig fólk gerir kaupmála fylgir hér á eftir.
Hjúskapareign eða séreign?
Þá er líklegt að einhver spyrji: Hverju skiptir hvort eign er hjúskapareign eða séreign? Svarið er einfalt. Við hjónaskilnað eða andlát er hreinni hjúskapareign hvors um sig skipt til helminga. Á hinn bóginn koma séreignir ekki til skipta við hjónaskilnað heldur falla þær óskiptar í hlut þess maka sem þær eiga.
Nánar um kaupmála
Hér verður nánar fjallað um stofnun séreignar með kaupmála. Kaupmáli er sérstakur löggerningur milli hjóna eða hjónaefna þar sem þau ákveða að tiltekin verðmæti skuli verða séreign annars þeirra. Með öðrum orðum, með kaupmálanum er eign, sem ella hefði orðið hjúskapareign í hjúskap hjónanna, gerð að séreign viðkomandi. Um séreignir gilda þær reglur að verðmæti, sem koma í stað séreignar verða einnig séreign. Með sama hætti verður arður af þessum verðmætum séreign nema annað komi fram í kaupmálanum eða þeim fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda sem stofnaði séreignina. Kaupmálum má breyta eða fella þá niður með nýjum kaupmála.
Kaupmáli þarf að vera skriflegur og undirritun hjóna eða hjónaefna staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum. Hver sem vottar þarf að vera viðstaddur þegar hjónin eða hjónaefnin rita undir og í vottorðinu skal koma fram að skjalið sem vottað er sé kaupmáli.
Kaupmáli er hvorki gildur milli hjóna né gagnvart þriðja manni nema hann sé skráður í kaupmálabók sem sýslumenn halda. Það er því afar mikilvægt að það hjónaefnanna sem er að gera eignir sínar að séreignum eða það hjónanna sem er að gera hjúskapareignir að séreignum gæti þess að kaupmálinn sé skráður.
Hvenær er skynsamlegt að gera kaupmála?
Ef teljandi munur er á eignastöðu pars sem ætlar að ganga í hjúskap er skynsamlegt fyrir þann sem á meiri eignir að íhuga vandlega hvort hann eða hún eigi að óska eftir því við hitt að þau geri kaupmála sín í milli. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort parið er að stofna til síns fyrsta hjúskapar eða hvort annað eða bæði hafa verið í hjúskap áður. Það getur varla verið óeðlilegt við slíkar kringumstæður að sá eða sú sem á umtalsvert meiri eignir vilji verja þær ef hjúskapnum skyldi ljúka með hjónaskilnaði, sbr. það sem áður var sagt um það að hrein hjúskapareign skiptist til helminga. Vissulega eru ákvæði í hjúskaparlögum sem leyfa svokölluð skáskipti ef mikill eignamunur hefur verið á hjónunum við upphaf hjónabandsins en dómaframkvæmd er slík að skáskipti eru sjaldnast viðurkennd hafi hjónabandið varað lengur en þrjú til fimm ár. Í slíkum kringumstæðum hafa dómstólar bent á að hjónin hefðu getað varið eignastöðu sína með því að gera kaupmála.
Skilyrtir kaupmálar
Í þessu sambandi skiptir máli að hægt er að tímabinda kaupmála, t.d. að hann gildi einungis í ákveðinn árafjöld, s.s. fyrstu 10 ár hjúskaparins. Það má einnig setja í kaupmálann það skilyrði að hann gildi ekki ef hjónin eignast sameiginlegan skylduerfingja. Þá má ákveða í kaupmála að eignir skuli vera séreignir meðan bæði eru á lífi en hlíta reglum um hjúskapareign ef hjúskap lýkur með andláti. Það er því hægt að ganga frá kaupmála með þeim hætti að bæði hjónaefnin, eða hjónin, ef kaupmáli er gerður eftir að til hjúskapar er stofnað, séu sátt við að hann hafi verið gerður.
Ákvæði hjúskaparlaga eru því þannig úr garði gerð að ástæðulaust á að vera fyrir hið eignaminna að neita að samþykkja að gerður sé kaupmáli sem ver hið eignameira í því tilviki að hjúskapnum ljúki með hjónaskilnaði.